Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem við verðum mjög að huga að. Ég þakka flm. fyrir að flytja þetta mál hér inn á Alþingi á þann hátt sem gert er. Mér er auðvitað ljóst að það eru ýmsar hliðar á þessu máli og ekki þess að vænta að hvert atriði sem snertir fiskeldið sé tekið upp í slíka tillögu, enda fer þetta mál til nefndar og hún hefur þá það verkefni að bæta inn í hana því sem talið er að skipti mestu máli.
    Það hefur ýmislegt komið fram um þetta efni. En það er fyrst og fremst tvennt sem að mínu mati hefur verið að í þessum málum. Það var farið allglannalega af stað með klak- og seiðaeldisstöðvar, langt fram yfir það sem skynsamlegt var. Menn áttu raunar að sjá það fyrir að ekki yrði markaður í öðrum löndum fyrir seiði til langframa, en á þetta var treyst. Þess vegna hafa ýmsar stöðvar nú fengið skell af þessari framleiðslu. Það þurfti að byggja upp samtímis matfiskseldisstöðvar í langtum meira mæli en gert var og fara hægar með seiðaeldisstöðvarnar. Í svona atvinnugreinum, þar sem ekki er allt skipulagt fyrir fram, er alltaf hætta á slíkum mistökum. Það verður að harma það að stjórnvöld skyldu leyfa að farið var út í eins margar klak- og seiðaeldisstöðvar og gert hefur verið á undanförnum árum. Hitt hefur aftur alveg legið eftir, að tryggja þessum stöðvum rekstrarfjármagn. Og það er það sem hefur valdið fyrst og fremst áföllum og vandræðum.
    Ég hef reynt að kynna mér þessi mál nokkuð og ég hef þær skoðanir, hvort sem þær reynast rangar eða réttar, að sjókvíaeldi, eins og það hefur verið framkvæmt, sé allt of áhættusamt til þess að reka það í stórum stíl, og við ekki betri veðurskilyrði sem við búum við hér verði aldrei hægt að komast hjá áföllum. Það er auðvitað hugsanlegt að hægt sé að hafa --- það er gert víða --- fisk í eldi yfir sumarmánuðina og fram undir desembermánuð, en áhættan er allt of mikil víðast hvar, ef ekki alls staðar, að hafa það allt árið. Og þá erum við komin að þeim atriðunum hvaða möguleika við höfum á þessum landstöðvum. Ég held að það séu þær sem við eigum fyrst og fremst að keppa að að byggja. En það er ekki sama hvernig það er gert og það er enginn vafi á því að víða hefur sú fjárfesting verið allt of mikil og handahófskennd og þeir sem hafa staðið að slíkri uppbyggingu hljóta að lenda í erfiðleikum, vonandi að það verði samt ekki þannig að það ríði þeim að falli. Ég held að mjög mikill skortur sé á eftirliti með því hvernig að þessu er staðið, að undirbúning og eftirlit hafi skort.
    Það hefur verið talað um það hér að eðlilegt væri að fara með fiskeldið frá landbrn. í sjútvrn. Ég verð að segja það að ég sé ekki að það leysi nokkurn vanda. Ég held að þetta sé meira trúaratriði en að hægt sé að benda á það með nokkrum rökum að það leysi vanda. Ef menn eru þeirrar skoðunar að það verði fyrst og fremst þessar landeldisstöðvar sem við byggjum í framtíðinni og byggjum á, þá sé ég ekki tilganginn í því að færa þetta frá landbrn., a.m.k. sé

ég ekki að það skipti neinu meginmáli.
    Ég vonast til að það verði þannig í framtíðinni að við tökum upp eldi á miklu fleiri fisktegundum en er í dag. Að vísu hef ég ekki trú á því að við höfum mikinn ábata af því að fara að framleiða ál. Ekki hefur það gefist í Noregi. Þeir hættu því þar. Danir aftur á móti telja sumir hverjir að grundvöllur sé fyrir slíkan rekstur þar og hann hefur gefist þar sæmilega, en Norðmenn hurfu frá þessu. Verðið á regnbogasilungnum er það lágt, það er ekki nema eins og hálft það verð sem við fáum fyrir laxinn. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu þó að margt væri hægt að ræða um þessi mál.
    Ég vil benda á það í þessu sambandi að það eru ýmis rök sem benda til þess að bleikjueldið sé eins og sakir standa áhugaverðasta eldið, og e.t.v. að reyna að fá hingað sandhverfu. Eldi á sandhverfu hefur gengið mjög vel í Noregi og bendir til þess að það sé fiskur sem við vissar aðstæður hér mundi gefast mjög vel í eldi. En hann þarf verulegan hita.
    Það hefði verið gaman að geta rætt þessi mál frekar. Ég sé ekki betur en allt bendi til þess að við höfum meiri möguleika í fiskeldi en á flestum öðrum sviðum. Og ég vil undirstrika það sem frsm. till. sagði áðan, ég er sannfærður um að það er nokkuð áhugaverðara fyrir okkar þjóð að beina augum okkar og getu að fiskeldi en að reyna að fá hér stóriðjurekstur í landi í einhverjum mæli sem gæti orðið til þess að við mundum ekki halda þeim stimpli sem við höfum þó, að við höfum nokkurn veginn hreint land.