Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Forseti. Ég vil þakka þær ágætu undirtektir sem þessi till. hefur fengið hjá þeim þingmönnum sem til máls hafa tekið. Hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir kom víða við í sínu máli. Sjálfsagt er það alveg rétt hjá henni að menn þurfa að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar talað er um atvinnugreinar sem öllu eiga að bjarga. Ég hygg að það sé alveg rétt. En ég vil biðja þingmanninn að lesa tillöguna með athygli og gera sér grein fyrir því að þarna er nánast verið að fara fram á það að þessi nýja atvinnugrein njóti sömu starfsskilyrða og aðrar atvinnugreinar njóta. Ef grg., sem með þessari till. fylgir, er lesin, en ég hafði því miður ekki tíma til að fara ítarlega í gegnum hana í mínu máli, þá verður mönnum ljóst að svo er ekki. Hvorki nýtur þessi grein sambærilegra starfsskilyrða og aðrar útflutningsgreinar hér innan lands né heldur sambærilegra starfsskilyrða við það sem þessi grein, fiskeldið, nýtur meðal annarra þjóða, meðal okkar helstu samkeppnislanda.
    Í því sambandi er rétt að benda á að fiskeldið er ein af fáum greinum sem ekki hefur kvartað undan gengisskráningu íslensku krónunnar eða þeim aðstæðum sem flestar útflutningsgreinar kvarta undan nú og eru reyndar að bera þær flestar ofurliði. Það sem undan er kvartað er auðvitað það að afurðalánakerfi er ekki til samræmt hér í landinu.
    Þingmaðurinn benti nokkuð á að erfiðleikar hefðu skapast hjá fiskeldisstöðvunum vegna sölu eldisseiða. Það er alveg rétt. Og það er líka rétt sem kom fram í máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar að líklega hafa seiðaeldisstöðvar fyrir lax verið byggðar af of lítilli fyrirhyggju miðað við það að matfiskeldið fylgdi ekki á eftir. Ég vil hins vegar bera nokkuð hönd fyrir höfuð fiskeldisstöðvanna í þessu sambandi því að ég hygg að lokun markaðarins í Noregi hafi komið mönnum mjög á óvart. --- Ég sé að þingmaðurinn Stefán Valgeirsson hristir höfuðið. En ég vil benda á það að þó nokkuð margar þessara seiðaeldisstöðva höfðu þegar gert samninga við erlenda aðila um kaup á seiðunum og þeir samningar voru reknir til baka vegna mikillar framleiðslu í Noregi. Það er ekki tími til að fara ítarlega í þetta. Ég veit um seiðaeldisstöðvar hér sem stofnuðu fyrirtæki með Norðmönnum sem beinlínis áttu að sjá um þessa seiðasölu, Norðmönnum sem höfðu annast þessa seiðasölu undanfarin ár og voru alveg jafnblindir og Íslendingarnir á að markaðurinn skyldi lokast, alveg fram í mars--apríl á þessu ári. En hvað um það. Það gekk ekki eftir. Hins vegar ef byggt er upp matfiskaeldi hér í landinu til samræmis við þessa seiðaframleiðslu sem möguleg er, þá býður það upp á gífurlega útflutningsmöguleika.
    Menn verða að gera sér grein fyrir því að erfiðleikar fiskeldisfyrirtækjanna eru fyrst og fremst vegna þess að afurðalánakerfi er ekki til staðar. Það er deilt um veð í lifandi fiski. Langflest þau fiskeldisfyrirtæki sem nú hafa afurðalán, og það hafa þau ekki öll, fá lán sem svarar um 37,5% af verðmætum í stöðinni. Í sjávarútvegi og landbúnaði er

hér um að ræða 75%. Þ.e. fiskeldisfyrirtæki --- ef við tökum matfiskastöð sem er búin að framleiða matfisk fyrir um 100 millj. kr., matfisk sem verður slátrað eftir u.þ.b. ár en er komin að verðmæti í 100 millj. kr. --- hefur í mörgum tilvikum rekstrarlán upp á 37,5 millj. kr. Það vantar því um 60 millj. kr. á sem bera þarf í heilt ár í viðbót auk þess vanda sem hleðst upp á því ári.
    Nefnd hefur nýlega skilað tillögum um úrbætur og ég á von á því að hér á hv. Alþingi komi fram frv. innan tíðar um nýja greiðslutryggingadeild við Ríkisábyrgðasjóð sem geri kleift að veita þessum fyrirtækjum afurðalán í svipuðum mæli og aðrar útflutningsgreinar njóta hér innan lands og í svipuðum mæli og aðrar þjóðir hafa leyst þennan vanda, samkeppnisþjóðir okkar. Það væri mikið skref fram á við.
    Ég vil jafnframt benda á að söluskattur af rekstrarkostnaði hefur ekki verið endurgreiddur í þessum atvinnugreinum, svipað og hefur verið gert í nánast öllum öðrum útflutnignsgreinum, nema kannski að loðdýraeldinu undanskildu.
    Og ég vil biðja menn að velta fyrir sér raforkukostnaði, lántökuskatti sem lagður hefur verið á, við fráleitar aðstæður vil ég segja, vegna þess að ríkisstjórnin lagði skatt á erlendar lántökur til að draga úr erlendum lántökum og draga úr þenslu. Samhliða því veitti hún fiskeldisfyrirtækjunum heimild til að taka erlend lán til frekari uppbyggingar vegna þess að hjá því varð ekki komist þar sem seiðin seldust ekki úr landi. Það er þess vegna alveg fráleitt að segja í öðru orðinu: ,,Við veitum ykkur heimild til erlendrar lántöku vegna þess að það er ekki unnt að draga hana og það verður ekki hjá því komist til þess að bjarga þjóðarverðmætum,,, en segja í hinu orðinu: ,,Við ætlum að leggja sérstakan lántökuskatt á ykkur til þess að reyna að hindra að þið takið þessi lán.`` Þannig mætti lengi telja, en hér er eingöngu verið að fara fram á að starfsskilyrði séu samræmd.
    Arðsemi í þessari grein er auðvitað mjög mismunandi, svo ég haldi áfram varðandi mál hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur, mjög mismunandi eftir greinum. Margir hafa mikla trú á hafbeit. Ég hygg að markaðsverð á laxi í dag sé um
300--350 kr. á kg, nokkuð mismunandi eftir stærðarflokkum. En framleiðslukostnaður er ekki nema svona 250--270 kr. Arðsemi er samkvæmt öllum reikningum glettilega mikil ef vel gengur. Ég skal fúslega játa það að menn eru auðvitað mishæfir í þessari grein og gengur misvel eins og í öllum öðrum atvinnugreinum. Hvort sem talað er um trésmíði eða bakaraiðn þá gengur mönnum misvel og sjálfsagt er það eins í þessari grein. Hér er ekki kvartað undan afkomuskilyrðum, hér er kvartað undan starfsskilyrðum sem þarf að bæta og það er fráleitt að búa ekki þessari grein slík starfsskilyrði þegar litið er til þeirra möguleika á aukningu þjóðartekna sem í húfi eru.
    Ég hygg að flestir þeir þingmenn sem hér töluðu hafi komið nokkuð inn á sjúkdómavarnir. Við sem að

þessu eldi störfum erum þeirrar skoðunar að það þurfi að koma fram gleggri starfsskipting milli þeirra sem að sjúkdómavörnum og sjúkdómaeftirliti vinna. Þar á ég við rannsóknadeild fisksjúkdóma á Keldum, embætti yfirdýralæknis fisksjúkdóma og dýralæknana um land allt. Það er engan veginn nægilega ljóst hvernig starfsskipting og verkaskipting er á milli þessara aðila. Það er eðlilegt að dýralæknar séu almennt ekki nægilega vel inni í fisksjúkdómum. Greinin er ný og menntun þeirra er í flestum tilvikum á öðrum sviðum, en þar er venjulega um að ræða mjög vel menntaða og hæfa menn sem án mikilla erfiðleika eiga að geta sett sig inn í það sem um er að ræða.
    Hv. þm. Árni Gunnarsson talaði nokkuð um það að ekki væri fjallað sérstaklega um fóðuriðnaðinn. Það er alveg rétt. Hann er í rauninni sérstakt mál. Fóðuriðnaðurinn er kominn vel á legg hér á landi og er á réttri braut. Fiskafóður er þegar orðið talsverð útflutningsvara og verður það vafalaust í vaxandi mæli. Innan fóðuriðnaðarins verður gífurleg aukning á næstu árum ef allt fer í fiskeldi sem fram horfir hér.
    Hv. þm. nefndi einnig að hann saknaði þess að ekki væri getið sérstaklega um umhverfisþáttinn. Flutningsmenn hugðu nú að að honum yrði komið í þættinum um heildarlöggjöf varðandi fiskeldi og sjálfsagt eru margir hliðarþættir við fiskeldið sem hefði mátt koma að í þessari till. og þykir þó mörgum hún vera ítarleg eins og hún liggur fyrir.
    Ég skal taka undir með hv. þm. Árna Gunnarssyni að þessi till. hefði líklega átt að koma fram 20 árum fyrr. En betra er seint en aldrei. Við þekkjum vissulega baráttu frumkvöðlanna, t.d. Skúla á Laxalóni, og þeirra slag við kerfið í gegnum árin. Enn halda þessi áflog áfram og enn býr fiskeldi við einna lökust starfsskilyrði allra atvinnugreina á Íslndi. Þessari till. er ætlað að bæta þar um.
    Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva hefur haft það á stefnuskrá sinni að vistun fiskeldis verði í sjútvrn. en ekki landbrn. Það er nokkuð einróma álit þeirra sem að fiskeldi vinna, eftir því sem ég kemst næst og hef hlustað á á fundum þeirra. Sjálfur hef ég ekki mikla sannfæringu fyrir því og vil taka undir með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að ég hygg að það skeri ekki endanlega úr hvar þessi grein er vistuð. Síðan ég fór að vinna að þessum málum á vegum landssambandsins virðist mér að landbrn. eigi sérstakar þakkir skildar fyrir sína framgöngu og vilja til að starfa að þessum málum.
    Hv. þm. Árni Gunnarsson kom nokkuð inn á það að það hamlaði eldi á áli að innflutningur á honum hefði ekki verið heimilaður, en benti á innflutning á ýmsum öðrum tegundum. Ég er þeirrar skoðunar að vel megi safna gleráli við strendur landsins, ekki síst við Suðurland, og hefja frumeldi á áli með íslenskum stofnum ef menn vilja. Það er ekki nauðsynlegt að flytja inn ál til að byrja slíkt eldi. Áll gengur hér upp að suðurströndinni og með vesturströndinni úr Þanghafinu og það væri vel hægt að safna honum saman, og er raunar gert í einhverjum mæli, og ala

hann til áframeldis.
    Ég hef þegar talað langt mál og væri þó hægt að lengja það mjög. Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að sjókvíaeldi sé áhættusamt. Ég hygg að reynslan hafi sýnt það nokkuð. Þar ber margt til. Í fyrsta lagi það að þar sem sjór er hvað heitastur við Ísland og minnst er hætta á undirkælingu þar er skjól minnst og hlé minnst. Þar sem skjólið er mest og best þar er mest hætta á undirkælingu og sjór yfirleitt kaldari en það er talið hafa áhrif á vaxtarhraða. Þess vegna er vandi að velja sjókvíaeldi rétta staði. Reynslan úr Hvalfirði sýnir okkur að þar sem fjörur eru mjög miklar er áhættan talsverð. Ég hygg að strandeldi eigi mikla framtíð, e.t.v. í samvinnu við sjókvíaeldi í nokkurs konar fareldi þar sem fiskurinn væri fluttur að vori úr landstöðvunum eða strandstöðvunum út í sjókvíar þegar hann þarf á mestu rými að halda og síðan slátrað að hausti fyrir veturinn áður en verður gerast válynd.
    Hafbeitarmöguleikum mega menn heldur ekki gleyma. Þar eru miklir möguleikar. Til eru þeir, og þeir eru ófáir, sem telja að hafbeit sé vaxtarbroddurinn í fiskeldi á Íslandi, þar leynist ótæmdir möguleikar. Á það skal ég ekki leggja dóm, en ég hygg að þar sé mjög vaxandi atvinnugrein.
    Ég vil líka taka undir með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni varðandi bleikjueldið. Við bleikjueldi mundi ég binda miklar vonir víða um sveitir jafnvel þar sem ekki er hægt að láta bleikjuna ganga í sjó. Bleikjan hefur
mjög mikla sérstöðu að því leyti að hún vex vel við lægra hitastig en lax og urriði, eða sjóbirtingur, og gæti þess vegna búið yfir miklum möguleikum og svo mætti lengi telja. Í grg. er sérstaklega minnst á ferskvatnshumar sem mikill markaður er fyrir t.d. í Svíþjóð á ákveðnum árstímum og gæti boðið upp á mikla möguleika.
    Ég vil svo, forseti, að loknum þessum umræðum leggja til að þessari till. verði vísað til síðari umr. og hv. atvmn.