Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Þetta mál hefur verið rætt hér á Alþingi áður þar sem ég fjallaði um það í allítarlegu máli og sé því ekki ástæðu til að fjalla um það í löngu máli hér, enda hefur flest af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar verið rætt hér áður og andsvör við því. Ég vildi aðeins gera það að umtalsefni sem hann sagði að það hefði á engan hátt verið reynt að hafa samstarf við umhverfisverndarsamtök. Það er ekki rétt. Þeim var strax í upphafi kynnt þessi áætlun og var farið yfir hana með þeim. Þeir hafa hins vegar aldrei viljað hlusta á rök í þessu máli, því miður. Og þegar hv. þingmaður talar um það að nú eigi að rétta fram sáttarhönd gagnvart þessum aðilum fjallar það væntanlega um það að fallast á allt sem þeir segja, hvort sem það er rétt eða rangt, og taka undir allan þeirra málflutning. Það hefur verið reynt að tala við þessa aðila. Þeir hafa fengið margvísleg gögn. Það stendur enn til boða og það hefur verið reynt að nálgast þá og það er sjálfsagt að halda áfram að gera það.
    Ég vil líka gera að umtalsefni annað atriði sem kom fram í máli hv. þm.: Hvers vegna hófust þessar rannsóknir ekki strax? Það var einfaldlega vegna þess, sem hann virðist ekki gera sér nægilega grein fyrir, að það var tvennt sem var ákveðið af Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það var í fyrsta lagi að hætta veiðum í atvinnuskyni og í öðru lagi að stórauka rannsóknir.
    Við Íslendingar tókum þessa samþykkt alvarlega þótt vitað sé að sjónarmið þeirra sem hann talar hér fyrst og fremst fyrir, að því er mér virðist, voru þau að það ætti engin alvara að búa þar að baki, það ættu engar rannsóknir að eiga sér stað. Okkar vísindamenn voru beðnir um slíka rannsóknaáætlun. Það tók alllangan tíma að undirbúa þessa áætlun, jafnframt lagalegur undirbúningur. Það var því um mjög eðlilegan tíma að ræða.
    Hv. þm. vitnaði í erlendan líffræðing eða vísindamann. Ég minnist þess ekki að þessi vísindamaður hafi unnið í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins, a.m.k. koma hans sjónarmið ekki fram í þeirri skýrslu. Og að því er vísndamenn varðar vitna ég fyrst og fremst til vísindamanna á þeim vettvangi. Ég hef heldur ekki orðið var við það að margir þeirra líffræðinga sem hann vitnaði til hafi lagt sig sérstaklega fram um það að kynna sér þessa áætlun. Við hljótum fyrst og fremst að treysta á þá vísindamenn sem sérstaklega hafa unnið að þessu máli.
    Hv. þm. vitnaði til þess að við hljótum að vinna í samræmi við niðurstöðu Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við höfum gert það. Við förum eftir samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við förum eftir stofnskrá Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við förum hins vegar ekki eftir öllum tilmælum sem koma frá Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það verður að gera greinarmun á því. Þó hefur það verið svo að við a.m.k. teljum, þó að aðrir segi að svo sé ekki, að við

höfum farið eftir ályktunartillögu Alþjóðahvalveiðiráðsins frá 1986 og 1988, en við teljum hins vegar ályktunartillöguna frá 1987 vera ólöglega, í andstöðu við stofnskrá og samþykktir ráðsins og höfum haldið um það langt mál og lagt fram um það langar greinargerðir. Og við munum ekki fara eftir ályktunartillögum sem við teljum ólöglegar. Það veit ég að hv. þm. skilur. Ég vil að öðru leyti vitna til þess sem ég hef áður sagt í þessu máli. Ég tel að það sé ekki þess eðlis að hægt sé að reikna það út í debet og kredit eins og mér fannst hv. þm. vera að gera hér með ýmsum tölum. Þetta er ekkert bókhaldsmál. Og ég er ósammála flestu af því sem hann sagði hér. Það vantaði að sjálfsögðu þær röksemdir inn í það mál sem hafa verið settar fram af okkar vísindamönnum. Hann dró hér upp einhliða mynd af málinu. Ég vitna hins vegar til þess sem ég hef áður sagt hér á Alþingi og skal ekki þreyta þingheim með því að endurtaka það.