Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Sú till. til þál., sem hér liggur fyrir, flutt af hv. 3. þm. Norðurl. e., um endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga er flutt, eftir því sem ég best veit eftir löng samtöl við flm., af djúpstæðum áhyggjum af því hvernig komið er í þessum málum. Hún er flutt af fullri alvöru og umhyggju fyrir hagsmunum Íslendinga og hún er ekki flutt af neinum talsmanni grænfriðunga. Það veit ég eftir löng samtöl við flm. tillögunnar. Það þýðir hins vegar ekki að við séum sammála að öllu leyti hvernig á að halda á þessu máli.
    Flm. sagði m.a. að tillagan væri flutt vegna skemmdarverka Greenpeace á efnahag Íslendinga og það er alveg hárrétt athugað. Auðvitað eru það skemmdarverk sem Greenpeace hefur í frammi og það eru skemmdarverkamenn gagnvart okkar efnahag sem þar eru að starfi. Það má segja um önnur umhverfissamtök eins og Sea Shepherd, sem Greenpeace-menn sögðu hér um árið að þeir vildu ekkert hafa með að gera vegna þess að þar væru skemmdarverkamenn að starfi, að það sem þeir höfðu í frammi með því að sökkva tveimur hvalveiðibátum og rusla til í hvalveiðistöðinni hér um árið hafi nánast verið prakkarastrik miðað við það sem Greenpeace-menn ætlast fyrir þessa dagana. Þeir ætla sér beinlínis að stefna atvinnu fjölda fólks á Íslandi í hættu. Það gerðu Sea Shepherd-menn ekki í raun og veru. Þeir ætla sér að þrengja þannig að efnahag okkar Íslendinga að við eigum ekki að sjá okkur annað fært en láta undan í máli þar sem mér virðist augljóst að öll rök séu okkar megin.
    Flm. sagði einnig réttilega að hvalveiðar hefðu enga efnahagslega þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Þetta sannar enn og aftur að hann er enginn talsmaður grænfriðunga því að það eru einmitt rök grænfriðunga að hvalveiðar séu stundaðar á Íslandi af gróðafíkn, vísindaveiðar okkar séu einungis feluleikur fyrir atvinnuveiðar vegna þess að hvalveiðar skipti okkur efnahagslega svo miklu máli.
    Þá vill flm. einnig stöðva þann gegndarlausa áróður sem Greenpeace-menn hafa í frammi og ég held að sé rétt að það verði gert, en um leið fullyrðir hann að við séum búnir að tapa þessu áróðursstríði. Það held ég að sé rangt mat á aðstæðum. Við erum ekki búnir að tapa því. Við erum varla byrjaðir að fara í áróðursstríð vegna þess að fram til þessa höfum við varla mætt grænfriðungum í eitt einasta skipti. Okkar málstaður er varla nokkurs staðar kunnur. Það eru einungis grænfriðungar sem hafa getað komið sínum áróðri á framfæri. Við höfum ekki gert það. Við höfum ekki staðið í áróðursstríði.
    Það er held ég löngu tímabært að við förum að láta menn vita af því hver okkar afstaða er í þessum málum, hvers vegna við höfum gripið til vísindaveiða á hvölum og hvers vegna afstaða Íslands er á þann hátt í þessu máli, jafnvel þó að þessar veiðar hafi um þessar mundir enga beina efnahagslega þýðingu fyrir Íslendinga.
    Það vill svo til að áróður grænfriðunga er á þann

veg að þeir þurfa að grípa til þess a.m.k. að hagræða sannleikanum, ef ekki að hafa í frammi hrein ósannindi gagnvart okkur. Þannig segja þeir og halda fram blákalt að allir hvalir séu í útrýmingarhættu og vísindaveiðar okkar Íslendinga stuðli beinlínis að því að hvölum verði útrýmt. Þeir gera ekkert með þær talningar sem farið hafa fram á hvalastofnunum sem leiddu í ljós að af þeim þremur tegundum sem um er að ræða, þ.e. hrefnu, sandreyði og langreyði, séu til a.m.k. 30 þúsund dýr sem talin hafa verið syndandi í höfunum í kringum Ísland. Þeir gera ekkert með það þó að við tökum einungis 78 dýr úr þessum stofnum, halda því jafnframt blákalt fram að stofnarnir séu í hættu, 30 þúsund dýr, meðan við veiðum 78 þar úr. Þeir gera ekkert með það að einungis eitt ár er eftir af okkar vísindaveiðum. Við eigum einungis eftir að taka 78 dýr. Af áróðrinum mætti halda, og það halda t.d. Þjóðverjar sem hlusta á þennan áróður, að við stundum gegndarlausar hvalveiðar. Þetta er gefið í skyn og þetta er ekki rétt. Þess vegna er það viss galli á þessari þáltill. þegar stungið er upp á að við hættum vísindaveiðum í þrjú ár þegar einungis eitt sumar, einn fjórði, er eftir af okkar vísindaveiðum. Það eru ekki þrjú ár sem liggja fyrir höndum heldur einungis eitt ár.
    Þá halda grænfriðungar því óspart fram að við Íslendingar séum að brjóta alþjóðalög, alþjóðarétt, og þess vegna séum við svo að segja réttdræpir. Það megi starta á okkur gegndarlausa veiði. Þeirra hermdarverk séu réttlætanleg vegna þess að við séum réttarbrjótar. Og hvernig er sú staða? Jú, við höfum haldið okkur nákvæmlega við sáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem segir í 8. gr. þess sáttmála að hverri sjálfstæðri þjóð sé í sjálfsvald sett hversu marga hvali sé leyfilegt að taka í vísindaskyni þegar um hvalveiðibann er að ræða. Allar aðrar samþykktir hvalveiðiráðsins hafa farið fram á þeim grundvelli að gefa ráðleggingar við því hvernig ætti að fara að meðan á hvalveiðibanninu stendur. Þetta eru einungis ráðleggingar sem hafa enga lagalega þýðingu í raun og veru. Það er einungis sáttmálinn sem er lagalega bindandi fyrir hverja þjóð fyrir sig, ekki ráðleggingar þó svo þær séu samþykktar af meiri hluta aðildarþjóðanna.
    En hverjar eru þessar aðildarþjóðir? Þegar við meðtókum þennan sáttmála, alþjóðahvalveiðisáttmálann, voru 17 aðildarþjóðir í ráðinu, þjóðir sem allar höfðu haft með hvalveiðar að gera. Núna eru um 42 þjóðir í ráðinu. Þetta eru þjóðir eins og Sviss, eins og Mónakó, eins og smáþjóðir í Karabíska hafinu sem varla nokkurn tíma hafa nálægt hvalveiðum komið. Þessar þjóðir eru að segja okkur fyrir um hvernig við eigum að haga okkar hvalveiðum og þessar þjóðir eru að gefa ráðleggingar. Eftir þessum þjóðum eigum við að fara. Þetta er að mínu mati út í hött.
    Ég vil aðeins koma inn á frekari rök þeirra grænfriðunga sem þeir halda fram í bæklingum sínum sem þeir dreifa á torgum í Þýskalandi þessa dagana. Þeir segja að við séum með þessar vísindaveiðar í

gróðaskyni. Sannanir? Jú, 49% kjötsins sem við öflum lendir í fínum kjötbúðum í Japan, kjöt af 35 hvölum svo að segja. Ég held að hver maður ætti að sjá í hendi sér að það er ekki hægt að halda uppi neinum iðnaði vegna kjötsölu af 35 hvölum. Það fellur um sjálft sig. En þetta dugar til þess að fjármagna hið vísindalega prógramm þannig að prógrammið beri sig sjálft.
    Þá er það einnig rangt að vísindaveiðarnar séu feluleikur fyrir atvinnuveiðar. Þær eru það ekki. Þær byggjast á alvarlegri starfsemi tíu líffræðinga sem leggja sinn metnað í vandaða vinnu við þetta prógramm.
    Hvað varðar áhuga Þjóðverja á hvalveiðum okkar Íslendinga, þá er það rétt sem flm. sagði. Grænfriðungar njóta mikilla vinsælda fyrir hin ýmsu störf að umhverfisverndarmálum. Þar á hvalveiðimálið ekki nokkurn hlut.
    Grænfriðungar höfðu stórátak í frammi sl. laugardag. Þeir komu fram í 79 borgum Þýskalands og dreifðu áróðri. Samkvæmt fréttum af árangri þeirra höfðu þeir safnað um 19 þúsund undirskriftum þar sem mótmælt var hvalveiðum okkar Íslendinga. Það geta verið margar undirskriftir á Íslandi, en þessi söfnun fór fram í 59 borgum Þýskalands. Þeir hafa sem sagt safnað um það bil 300 undirskriftum í borgum eins og Hamborg sem telja 2 1 / 2 milljón, borgum eins og Bonn sem telja 300 þús. o.s.frv. Þannig má útskýra þau læti sem urðu í gær þegar grænfriðungar stilltu sér upp fyrir framan verslanir og meinuðu fólki inngöngu. Það var auðvitað vegna þess að þeir álíta sjálfir að átak þeirra sl. laugardag hafi verið mikil mistök og hafi ekki verið þeim til framdráttar. Þeir treysta sem sagt ekki á að þeirra áróður hafi komist áfram til þýskra neytenda, að þýski neytandinn megi hafa sjálfstætt val um það hvort hann velur íslenskar vörur eða ekki. Þeir telja ofbeldi hið eina sem kemur til greina til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar kaupi íslenskar vörur. Þeir treysta ekki á að þeir geti haft áhrif á þýska neytendur. 19 þúsund undirskriftir náðust og það er sagt að 3000 manns hafi tekið þátt í þessu átaki frá grænfriðungum. Það vill segja að 16 þúsund manns hafa komið þar að auki. Þetta er varla dropi í hafið. Það er ekki nema helmingur þeirrar tölu sem við segjum að sé til af hinum þremur tegundum hvala sem synda í kringum Ísland sem við viljum veiða úr í framtíðinni. Ef 16 þúsund er mikill sigur eru 30 þúsund hvalir í kringum Ísland enn þá meiri sigur og ekki er hægt að segja að þeir séu í neinni hættu.
    Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að láta kúga okkur til hlýðni jafnvel þótt nokkrir grænfriðungar standi fyrir framan verslanir í Þýskalandi og varni því að við getum selt okkar rækjur. Við eigum að þola áföll í þessu máli. Þau eru tímabundin. En kúgun kemur ekki til greina.