Rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Flm. (Unnur Stefánsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um könnun á rekstrarskilyrðum garðyrkju og ylræktar á þskj. 117. Meðflm. mínir eru hv. þm. Guðni Ágústsson, Margrét Frímannsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Friðrik Sophusson og Ingi Björn Albertsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á rekstrarskilyrðum garðyrkju og ylræktar í landinu. Sérstaklega skulu könnuð áhrif skattabreytinga sem urðu í ársbyrjun 1988.``
    Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á framleiðslu grænmetis og gróðurhúsaafurða hér á landi. Samtals mun útiræktun vera í um 30 ha lands (kartöflu- og rófuakrar ekki með taldir). Um 170.000 m 2 eru undir gleri. Samtals munu um 500 ársverk, ég endurtek, 500 ársverk vera í þessari búgrein. Samhliða aukinni framleiðslu hefur fjölbreytni aukist. Neysla grænmetis mun nú vera um 28 kg á íbúa á ári og er áætlað að innlend framleiðsla fullnægi um 40% neyslu. Veruleg framþróun hefur því orðið á sviði garðyrkju og ylræktar á undanförnum árum sem m.a. er árangur af umfangsmiklu rannsókna- og tilraunastarfi við Garðyrkjuskóla ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Bændaskólann á Hvanneyri.
    Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun stendur þessi búgrein frammi fyrir miklum vanda vegna mjög aukinnar samkeppni frá innfluttri vöru.
    Á undanförnum árum hafa tollar á innfluttu grænmeti verið lækkaðir úr 70% í 30%. Í gildandi tollalögum eru ákvæði um að 1. janúar 1989 lækki tollar í 20%, fari í 10% í janúar 1990 og falli alveg niður 1. janúar 1991. Hér er m.a. um að ræða tolla af afskornum blómum, kartöflum, tómötum, káli og gulrótum. Þessari breytingu, ef til framkvæmda kemur, mun fylgja stóraukinn þrýstingur á innflutning garðyrkjuafurða og er vonlítið að íslensk framleiðsla, eins og nú er að henni búið, geti staðist þá samkeppni.
    Þess er einnig að geta að um síðustu áramót var lagður 25% söluskattur á allt grænmeti og hefur hann ekki fengist endurgreiddur líkt og gert er með kjöt, fisk, mjólk og fleiri matvörur.
    Svipuðu máli gegnir um innfluttar pottaplöntur og afskorin blóm. Þar er tollur nú 30%, en var til skamms tíma 80%. Þá er og þess að geta að oft er hægt að fá afganga á mörkuðum erlendis fyrir brot af gangverði og við slíkt er auðvitað ekki hægt að keppa.
    Fjármagnskostnaður flestra þeirra landa, sem við okkur keppa, er ekki nema hluti af því sem hér er. Má t.d. geta þess að útlánsvextir í Hollandi eru um 6,5% og verðbólga nánast engin. Bankaþjónusta fyrir garðyrkjubændur er mjög góð sökum þess hve þessi atvinnugrein er þýðingarmikil fyrir þjóðarbúið. Gasverð er greitt verulega niður til gróðrarstöðva eða um 20%. Ráðunauta- og tilraunastarfsemi er afar öflug. Einnig er rétt að geta þess að víðast eru þessar greinar ríkisstyrktar á einn eða annan hátt.

    Norðmenn styrkja garðyrkju á margvíslegan hátt. Enn fremur stýra Norðmenn markaði mjög markvisst eftir innlendu framboði þannig að innflutningur markast af ástandi á markaði hverju sinni. Sömu viðhorf eru í Finnlandi.
    Víðast í grannlöndum okkar geta garðyrkjubændur fengið hagstæð lán til lengri tíma á viðráðanlegum vöxtum fyrir allt að 80% af byggingarkostnaði. Ef byggingarkostnaður hér á landi er borinn saman við byggingarkostnað í grannlöndum okkar sést að hann er okkur mjög óhagstæður. Samkvæmt mati Stofnlánadeildar landbúnaðarins er byggingarkostnaður á m2 í gróðurhúsi nú í kringum 8000 kr. Til samanburðar má geta þess að byggingarkostnaður í Hollandi og Bretlandi er talinn vera u.þ.b. 2000--2500 kr. á m2. Í Danmörku er kostnaður talinn um 3000--4000 kr. á m2 eftir byggingum.
    Ef leitað er skýringa er m.a. þess að geta að hér á landi eru gerðar miklu meiri kröfur varðandi vindálag en víðast annars staðar sem þýðir mun meiri notkun á stáli í burðargrindur og þéttara á milli glerpósta. Þá er og 25% söluskattur á stáli til gróðurhúsabygginga, en slíku er ekki til að dreifa í grannlöndum okkar. Þegar við bætist svo miklu meiri fjármagns- og flutningskostnaður er ekki furða þótt þess sjái stað einhvers staðar. Þá eru allar rekstrarvörur miklu dýrari hér en í löndunum í kringum okkur og er ekki óalgengt að þar muni 50--100%.
    Um blómaframleiðslu erlendis er það að segja að hún hefur í verulegum mæli flust til landa þar sem hitastig er þannig að upphitunarkostnaður er lítill sem enginn. Af slíkum löndum má t.d. nefna Ísrael, Keníu, Suður-Afríku, Kólumbíu, Ekvador o.fl. Í þessum löndum þarf aðeins lítilfjörleg skýli fyrir gróður og vinnulaun eru yfirleitt mjög lág. Nokkuð hefur orðið vart við að evrópsk stórfyrirtæki hafi sett upp útibú í þessum löndum og annars staðar til að styrkja stöðu sína.
    Varðandi innflutning hér á landi er rétt að geta þess að aðstaða til skoðunar á heilbrigði plantna er nánast engin og þess eru dæmi að einstakir ræktendur hafa beðið tjón sem nemur hundruðum þúsunda króna því að heilbrigðisvottorð frá ýmsum löndum eru oft næsta lítils virði. Sama gildir einnig varðandi efnainnihald í innfluttu grænmeti; þar má heita að ekkert
eftirlit sé með magni varnarefna. Sjálfsagt er að sett sé upp aðstaða til að kanna þessa hluti og eðlilegt að innflytjendur greiði kostnað sem því fylgir.
    Í gærkvöldi birtist í Ríkisútvarpinu frétt um að stöðvuð hefði verið sala á gráfíkjum frá Tyrklandi vegna gruns um að þær innihéldu krabbameinsvaldandi efni. Enn fremur kom fram að ekki er aðstaða til að ljúka rannsókn málsins hér á landi vegna þess að tækjabúnaður er ekki fyrir hendi og verður að senda sýni til útlanda. Þessi frétt er talandi dæmi um hve illa við stöndum að þessum málum.
    Þess má geta í sambandi við innflutning í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi að standist plöntur eða grænmeti ekki skoðun varðandi heilbrigði eða efnainnihald er

varan annaðhvort endursend umsvifalaust eða henni eytt á staðnum. Sömu viðhorf eru t.d. í Bandaríkjunum og Japan.
    Virðulegi forseti. Af fyrrgreindum orsökum er íslensk garðyrkja nú í varnarstöðu. Því er með þingsályktunartillögu þessari lagt til að rekstrarstaða og þróunarmöguleikar búgreinarinnar verði kannaðir, m.a. verði rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar borin saman við þá aðstöðu sem hliðstæðri framleiðslu er búin í nálægum löndum. Í framhaldi af því verði kannað á hvern hátt megi styrkja stöðu búgreinarinnar, svo sem með lækkun gjalda af aðföngum og fjárfestingarvörum, lækkun orkuverðs, hóflegum fjármagnskostnaði og fleiri slíkum aðgerðum.
    Virðulegi forseti. Að lokinni umræðunni geri ég það að tillögu minni að þáltill. verði vísað til síðari umr. og félmn.