Rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns hef ég verið fjarverandi um nokkra stund af Alþingi og hef því ekki fylgst með gangi mála og þá ekki upphafi umræðu um till. sem hér er á dagskrá.
    Vegna fyrirspurnar hv. 1. þm. Reykv. til mín um hvað líði starfi þeirrar nefndar sem ég skipaði í mars sl. með fulltrúum frá þremur ráðuneytum er rétt að gefa upplýsingar um það að ég óskaði eftir því, strax þegar nefndin hafði verið skipuð, að hún reyndi að hraða störfum eins og hún gæti. Innan nefndarinnar kom hins vegar fram ósk um að úttektin yrði rækileg, þannig að aflað yrði upplýsinga úr reikningum frá garðyrkjubændum um það hvernig staðan væri, sem ekki var nema eðlilegt. Öflun þessara upplýsinga, sem unnin var a.m.k. að einhverju leyti af Þjóðhagsstofnun, tók því miður miklu lengri tíma en ég hafði reiknað með og óskaði eftir. Þessi gögn voru að berast smátt og smátt eftir því sem leið á sumarið, og undir lok þess sem ég var í landbrn. ítrekaði ég einu sinni enn að nefndin reyndi að skila sem fyrst endanlegu verki sínu og niðurstöðum. Þá var mér tjáð að þau gögn sem óskað var eftir væru að mestu leyti komin. Ég vænti þess að ekki eigi a.m.k. að líða á löngu að álitið komi frá nefndinni.
    En þar sem þetta mál er hér til umræðu vil ég taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði um nauðsyn þess að meta stöðu garðyrkjunnar. Það hafa orðið ýmsar breytingar. Tollalækkanir á síðustu árum sem hafa breytt samkeppnisstöðunni fyrir íslenska garðyrkju. Og nú síðast, frá síðustu áramótum, álagning söluskatts sem að sjálfsögðu leggst jafnt á innlenda sem innflutta framleiðslu, en getur engu að síður haft áhrif á samkeppnisstöðu gagnvart öðrum vörutegundum. En þetta allt var ætlast til að nefndin tæki til ítarlegrar athugunar.
    Að undanförnu hefur einnig verið umræða um það hvert gildi íslenskrar garðyrkju sé og þá hafa heyrst þær raddir að það væri ekki ástæða til þess að leggja kapp á að framleiða það sem unnt er hér á landi þegar hægt er að fá innflutt grænmeti kannski á miklu lægra verði. Ég held að þarna sé um mjög mikinn misskilning að ræða. Það séu öll rök sem mæla með því að nýta þá framleiðslumöguleika sem hér eru eins og frekast er kostur, þar sem vitað er að við fáum hvergi betri vöru og hvergi hollari vöru en þá sem hér er framleidd. Sífellt eru að koma í ljós ný og ný atriði víða erlendis um mengun á sambærilegum framleiðsluvörum. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að ítreka þá skoðun mína að á samkeppnisstöðu íslenskrar garðyrkju verði að halda þannig að hún geti notað alla þá möguleika sem hér eru til að framleiða góða og holla vöru fyrir íslenska neytendur.