Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni lagt fram till. til þál. á þskj. 33 um endurskoðun lánskjaravísitölu. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fimm manna nefnd til að endurskoða grundvöll lánskjaravísitölunnar.``
    Eins og flestir vita, ef ekki allir, er lánskjaravísitala sú, sem nú er í notkun og hefur verið í notkun síðan 1979, samsett af tveimur öðrum vísitölum, að 2 / 3 hlutum byggð á framfærsluvísitölu og 1 / 3 hluta á byggingarvísitölu. Lánskjaravísitala þessi hefur verið mjög umdeild og ný ríkisstjórn hefur ákveðið að breyta grunninum þannig að vísitala launa vegi helming en framfærsluvísitala og byggingarvísitala hvor um sig einn fjórða.
    Þessi grunnur var ákveðinn af nokkurri skyndingu og það er erfitt að sjá, ef horft er til framtíðar, hver áhrif hann muni hafa. Grunnur vísitölulauna er byggður að hálfu á vísitölu kauptaxta og að hálfu á vísitölu atvinnutekna á mann.
    Áformað er í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga er verðbólga hefur hjaðnað niður fyrir ákveðið stig. Þó svo yrði verður verðtrygging eldri fjárskuldbindinga tæpast afnumin. Í því sambandi er rétt að benda á að fjölmargir þegnar þjóðfélagsins eru með fjárskuldbindingar áratugi fram í tímann. Það er því mjög mikilvægt að endurskoða grunn lánskjaravísitölunnar.
    Svonefnd verðtrygginganefnd sem skilaði áliti í júlí sl. dró saman ýmsar mikilsverðar upplýsingar en lagði þó ekki nýjan grunn, enda er þar um vandasamt verk að ræða. Mér virðist að ekki sé síður ástæða nú til endurskoðunar á faglegum grundvelli og því er þessi tillaga hér endurflutt frá síðasta þingi þrátt fyrir skipun verðtrygginganefndar þar sem hún lagði ekki til nýjan grunn.
    Vísitala launa er mjög umdeild sem slík, ef litið er til þess nýja grunns sem nú er áformað að taka upp, en eðli hinna vísitalnanna tveggja er að mæla kostnað, annars vegar kostnað við framfærslu hinnar svonefndu vísitölufjölskyldu og hins vegar byggingarkostnað.
    Lánskjaravísitalan er notuð sem reiknigrunnur við verðtryggingu fjárskuldbindinga og sparifjár. Vextir ofan á lánskjaravísitölu eru metnir sem raunvextir og allt tal um raunvexti er ómarkhæft ef grunnurinn er ekki réttlátur.
    Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á að verðtryggða íslenska krónan er sennilega sterkasti gjaldmiðill veraldarinnar í dag og ef skoðuð er hreyfing verðtryggðu íslensku krónunnar samanborið við gengi gjaldmiðla ýmissa annarra þjóða kemur í ljós að á tímabilinu frá 1. janúar 1984 til nóvember 1988 hefur verðtryggða íslenska krónan hækkað 67,5% umfram dollar og 36,05% umfram sterlingspund. Gagnvart öðrum gjaldmiðlum er hækkunin nokkuð minni. Gagnvart danskri krónu hefur verðtryggða íslenska krónan hækkað um 15,5% umfram dönsku

krónuna og 8,5% umfram þýska markið sem er mjög sterkur gjaldmiðill.
    Hér kemur augljóslega fram það misvægi sem verður í lánakjörum útflutningsatvinnugreinanna hér og erlendis, ekki síst að þeir sem flytja út á Bandaríkjamarkað og eru með einhver af sínum lánum tryggð með lánskjaravísitölu eiga ekki bara við fall dollarans að stríða og fastgengisstefnu heldur líka það að lánskjaravísitalan hefur hækkað hina verðtryggðu íslensku krónu um nærfellt 70% umfram dollara. Út frá því hlýtur að verða nokkurt umhugsunarefni hvar menn reikna raunvexti.
    Eldri grunnur lánskjaravísitölu hefur nú verið í notkun í nærfellt tíu ár og þess vegna er auðvelt að bera saman þróun hennar við þróun ýmissa stærða í efnahagslífinu á þessu tímabili. Nýjan grunn má einnig reikna aftur í tímann og freista þannig að meta framtíð ef menn vilja gera svo.
    Nokkur atriði sem þarf að hafa í huga við endurskoðun á grunni lánskjaravísitölu eru:
    Í fyrsta lagi: Hvert er eðlilegt hlutverk þessarar lánskjaravísitölu? Og enn á ný bendi ég mönnum á að jafnvel þó að ríkisstjórn afnemi lánskjaravísitölu, þá orkar mjög tvímælis hvort unnt er að afnema hana af eldri fjárskuldbindingum, þannig að áratuga fjárskuldbindingar fram í tímann skipta hér gríðarlega miklu máli fyrir þá sem slíkar fjárskuldbindingar hafa tekið á sig. Þess vegna er spurningin um eðlilegt hlutverk lánskjaravísitölu mjög tímabær.
    Í öðru lagi: Núverandi lánskjaravísitala er mjög ,,vensluð`` þeim stærðum sem henni er ætlað að meta. Þar er í fyrsta lagi rétt að benda á að í framfærslugrunni frá 1. júlí sl. eru vextir og verðbætur af íbúðarhúsnæði reiknuð með sem hluti af framfærslukostnaði. Hækkuð lánskjaravísitala og aukinn fjármagnskostnaður þýða þess vegna hækkuð framfærsluvísitala. Hækkuð framfærsluvísitala þýðir síðan hækkaða lánskjaravísitölu vegna þess að
framfærsluvísitalan gengur beint inn í grunn lánskjaravísitölunnar. Hækkuð lánskjaravísitala þýðir síðan hækkuð framfærsluvísitala vegna þess að fjármagnskostnaðurinn gengur inn í framfærsluvísitöluna og sú hækkun framfærsluvísitölunnar veldur enn á ný hækkun lánskjaravísitölunnar. En ekki bara það, heldur hlýtur öllum að vera ljóst að fjármagnskostnaður gengur mjög inn í vöruverð. Hækkaður fjármagnskostnaður þýðir hækkað vöruverð, hækkað vöruverð þýðir hækkuð framfærsluvísitala, hækkuð framfærsluvísitala þýðir hækkuð lánskjaravísitala, hækkuð lánskjaravísitala þýðir hækkað vöruverð. Hækkað vöruverð þýðir hækkuð framfærsluvísitala og hækkuð framfærsluvísitala þýðir hækkuð lánskjaravísitala. Þannig verður sjálfgengi vísitöluleiksins augljósara.
    Flestir stærðfræðingar og hagfræðingar vita það að mælikvarðinn má ekki vera ,,venslaður`` þeim stærðum sem hann á að mæla, þá skekkist allt málið. Hér er þess vegna ekki bara um að ræða hættuna sem felst í sjálfum mælikvarðanum fram í framtíðina í sveiflukenndu efnahagslífi, heldur líka sjálfgenginu

sem um er að ræða.
    Við höfum varpað hér fram spurningunni hvort unnt sé að miða slíka lánskjaravísitölu meira við gengisskráningu eða viðskiptakjör þannig að inngrip stjórnvalda í efnahagslífið hafi ekki bein áhrif á lánskjaravísitöluna, til að mynda með óbeinum sköttum, með niðurgreiðslum og öðru slíku.
    Hinum nýja grunni lánskjaravísitölu sem ríkisstjórnin áformar er ætlað að draga úr misgengi launa og fjárskuldbindinga. Hins vegar getur misgengi við erlend lánskjör orðið mikið með alvarlegum áhrifum á útflutningsgreinarnar eins og ég gerði grein fyrir hér með því að lýsa hvernig lánskjaravísitalan, hvernig verðtryggða íslenska krónan hefur hækkað frá því 1. jan. 1984 um nær því 70% umfram dollara.
    Raunverð íslenskra peninga hlýtur að endingu að verða að nokkru leyti háð hagvexti og framleiðslu í landinu sem og viðskiptakjörum og gengi.
    Margt bendir til þess að lánskjaravísitalan henti illa við að tengja verðgildi peninga við verðgildi annarra eigna, hvort sem um er að ræða eldri eða nýrri grunn. Verðgildi peninga verður að meta að hluta eftir því hvað unnt er að fá fyrir þá, svo sem kaup á fasteignum, notuðum bílum eða nýjum o.s.frv., og er þess vegna háð ýmsum markaðsaðstæðum.
    Það er augljóst að á svipaðan hátt og ekki er unnt að tryggja lífskjör í landinu með lögum, þá er ákaflega erfitt að tryggja raungildi íslensku krónunnar með lögum.
    Það er mikill vandi að finna ,,réttan`` grunn fyrir lánskjaravísitölu. Mér virðist hins vegar ljóst að fyrri grunnur er mjög umdeildur og gallaður og nýi grunnurinn er ákveðinn af skyndingu og erfitt að sjá hvaða áhrif hann muni hafa fram í tímann fyrir þá sem þegar hafa tekið á sig áratuga skuldbindingar samkvæmt þessari vísitölu. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að vinnuhópur reyni á faglegum grunni að skoða málið. Hér er um gífurlega mikilvægt mál að ræða fyrir fjölda þegna þessa þjóðfélags, ef ekki þjóðfélagið allt, og því leggjum við til að nefnd verði skipuð og endurskoðun fari fram.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. allshn.