Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að vekja athygli á þeirri að mörgu leyti merkilegu ræðu sem hér var nú flutt. Veit ég satt að segja ekki hvort allt það sem hv. þm. sagði var meint í alvöru eða hvort sumt var sagt í glensi. Hygg ég þó að sambland hafi verið af alvörunni og glensinu og fer vel á því. En það sem eftir stendur er að ákvörðun um breytingu á grundvelli lánskjaravísitölu hafi verið tekin í skyndingu, eins og margendurtekið var, og óljóst væri hver mundi verða afleiðingin af því að breyta þessum grundvelli á þann veg sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað, þ.e. hvort það þýddi hækkun eða lækkun á lánskjaravísitölu. Þetta hygg ég að sé nákvæmlega rétt. Menn þurfa að hafa í huga að þetta er ein dellan í viðbót við allar hinar og menn vita ekkert hvert þeir stefna. Þeir stefna alltaf í tvær eða þrjár gagnstæðar áttir, nema þeir taki allar fjórar höfuðáttirnar í einu.
    Í sambandi við þann kafla sem fjallaði um grínið þegar ein vísitalan hefur áhrif á aðra vonast ég til að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hafi verið með þetta allt saman skrifað, en ef ekki vonast ég til að blaðamenn sýni að þeir hafa góðan húmor og taki upp af böndum sínum kaflann sem um þetta fjallaði vegna þess að ég held að allt sem þar var sagt hafi verið rétt. En það kom auðvitað gífurlega hlægilega út þegar sagt var að þetta væri allt samfléttað og menn væru flæktir í öllu saman og því þyrfti að setja einn hóp í viðbót við alla hina hópana til þess að reyna að greiða úr þessari flækju. Það er auðvitað búið að gera efnahagslíf á Íslandi að flækju til þess að viðhalda og koma á kreppu, til þess að reyna að koma í veg fyrir að hér sé þensla eða með öðrum orðum full atvinna. Það á að reyna að koma á enn meiri kreppu og atvinnuleysi. Drepa þessa óskaplegu þenslu í þjóðfélaginu vegna þess að hún er svo ofboðsleg að svo til hver maður á Íslandi hefur vinnu. Þetta á nú að stöðva.
    En sá þáttur sem hér var fluttur áðan er alveg sér þáttur. Og ef a.m.k. þeir sem hafa einhverja smá kímnigáfu geta ekki haft gaman af þeim þætti, og hann hlýtur að vera til orðréttur á bandi, núna á næstunni eða t.d. í áramótaskaupi eða öðru slíku þá er illa farið. En ég er ekki að ásaka hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson fyrir það að segja sannleikann og jafnt þó að hann hafi sagt hann í gleði og glenstón, viljandi eða óviljandi, þá er það ekki ásökunarefni af minni hálfu. Svona eiga menn að tala, segja það sem þeim býr í brjósti og sem þeir telja réttast.
    Ég endurtek að það sem eftir stendur er að þarna er ein allsherjar hringavitleysa sem enginn í ríkisstjórninni hefur hugmynd um hvernig muni virka --- og nú horfir sá hæstv. ráðherra á mig sem lengst hefur fjallað um öll þessi fjármál, eða frá Ólafslögum og jafnvel löngu fyrr til þessa dags, og það er kannski rétt að spyrja hann hvort hann viti hvort þessi nýi grunnur muni bæta hag manna og þá hag hvaða manna. Og hvernig mun hann verka? Eða hvort það sé rétt hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni að nú þurfi að setja nýjan starfshóp til þess að greiða úr

flækjunni, eða reyna að greiða úr henni því auðvitað verður aldrei úr henni greitt.