Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. viðskrh. kvaddi sér ekki hljóðs þegar frsm. lauk máli sínu. Ég hefði nú talið eðlilegt að hann tjáði sig um till. vegna þess að hún kemur frá tveimur stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar á hv. Alþingi. Till. gengur hins vegar nokkuð á skjön við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað í þessu máli, því lýst hefur verið yfir að breyta eigi lánskjaravísitölunni frá og með næstu áramótum og meira að segja er búið að tilkynna með hvaða hætti það eigi að gerast.
    Það vakti jafnframt athygli mína að hv. flm., 10. þm. Reykv., lýsti því yfir að þessi ákvörðun hefði verið tekin í mikilli skyndingu. Um það get ég verið honum alveg sammála, eins og raunar mjög margt annað sem kom fram í hans ræðu. Það á nefnilega að auka vægi launanna í lánskjaravísitölunni sem hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar að þegar kaupmáttur vex á nýjan leik í þjóðfélaginu, sem vonandi verður áður en mjög langt um líður og er auðvitað okkar framtíðarmarkmið, þó mun greiðslubyrði lána þyngjast umfram það sem verið hefði. Það er það sem þessi breyting á lánskjaravísitölunni frá og með næstu áramótum þýðir.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann ætli að styðja till. eða ekki. Ég ætla ekki að taka afstöðu með eða á móti till. eins og sakir standa. Ég áskil mér rétt til þess að gera það síðar. En við óbreyttir þingmenn á Alþingi eigum að sjálfsögðu rétt á því að fá að vita hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar og viðkomandi fagráðherra eru þegar stjórnarþingmenn flytja mál sem varða það sem ríkisstjórnin er þegar búinn að ákveða. Því vildi ég spyrja viðskrh. um það hver hans afstaða er í þessu máli. Hvernig ætlar hann að greiða atkvæði um till.? Eða er hann e.t.v. með önnur ráð undir rifi í þessu máli?