Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Um fátt er meira deilt í íslensku þjóðfélagi en lánskjaravísitöluna og því er ekkert óeðlilegt að umræður um hana eigi sér stað með reglulegu millibili á hinu háa Alþingi.
    Þróun lánskjaravísitölu og verðlags á Íslandi er með ólíkindum ef farið er yfir tímabil sl. níu ára eða frá því að lánskjaravísitala var fyrst skráð í júníbyrjun 1979. Ég hef gert það að gamni mínu að reikna út þróun ýmissa stærða þetta tímabil, m.a. helstu gjaldmiðla í sölu útflutningsafurða okkar svo sem breskra punda, þýskra marka, bandaríkjadollars og dönsku krónunnar. Það vill svo einkennilega til að ef allar þessar tölur eru hundraðstilltar 1. júní 1979, eða um leið og lánskjaravísitalan var tekin í notkun, er ástandið orðið þannig 1. júní 1988 að lánskjaravísitalan er orðin 2051 stig á meðan breska pundið hefur rétt skriðið yfir 1000 stig, bandaríkjadollar reyndar kominn í 1209 stig, þýska markið í aðeins fleiri eða 1252 stig og danska krónan ekki nema í 934 stig. Þegar þessar tölur eru skoðaðar verður deginum ljósara af hverju atvinnulíf á Íslandi er nánast í rúst. Þessar tölur segja það einfaldlega berum orðum. Þeir sem hefðu t.d. fengið að taka lán 1. júní 1979 í dönskum krónum skulduðu núna helmingi minna en ef þeir hefðu tekið lán samkvæmt lánskjaravísitölu og þannig má lengi telja. Ég fæ ekki betur séð af þessum tölum og miðað við þessa þróun en gengið sé 30--40% of hátt skráð. Það er því fyllilega orðið tímabært að velta fyrir sér hvað lánskjaravísitalan er að gera efnahagslífi okkar þjóðar.
    Í stjórnarsáttmálanum er m.a. gert ráð fyrir tvennu, þ.e. að breyta lánskjaravísitölunni á þann hátt að launin vegi mun þyngra í vísitölunni, eða allt að 70%, en í núgildandi lánskjaravísitölu vega launin sennilega ekki nema u.þ.b. 25--30%. Í öðru lagi er vikið að því að þegar efnahagsástand er orðið með þeim hætti að verðbólga hafi um langt skeið ekki verið mjög mikil megi fella lánskjaravísitöluna niður. Að vísu minnist ég þess að hæstv. viðskrh. hafði um það einhver slík orð að það tímabil þyrfti að vera sjö sinnum sjö ár áður en vogandi væri að leggja niður lánskjaravísitöluna. En hann svarar því kannski sjálfur á eftir hvert álit hans er á þeim málum.
    Ég vil taka undir það með síðasta hv. ræðumanni sem hér talaði að mér óar við því að launin verði skyndilega 70% af nýrri lánskjaravísitölu, sem mér skilst að eigi að setja í gang eftir áramótin með handafli ef ekki vill betur. Því þegar stíflan brestur, þ.e. verðstöðvun lýkur og samningar verða aftur lausir, er enginn vafi á því að launþegar ætla sér að ná í eitthvað af þeim kaupmætti sem þeir misstu tímann sem samningar voru skertir eða bannaðir. Það má þá alveg búast við því að nýja lánskjaravísitalan stefni lóðrétt upp til himins og guð hjálpi okkur þá.
    Það er furðuleg afstaða ýmissa manna sem hafa stjórn á efnahagsmálum þjóðarinnar að halda að lánskjaravísitalan sem slík geti læknað meinsemdir efnahagslífsins. Þetta er eins og ef einhver læknir ætlaði sér að láta hitamælinn lækna sjúklinginn í stað

þess að láta hann gera það sem honum er ætlað, þ.e. að segja til um ástand sjúklingsins. Hitamælir getur aldrei læknað sjúklinginn. Nákvæmlega sama gildir um lánskjaravísitöluna. Hún getur sagt okkur hvert er ástand mála í þjóðfélaginu og hver verðlagsþróunin er en hún getur ekki læknað eitt eða neitt. Þess vegna er langeinfaldast að taka t.d. úr sambandi tengsl milli lánskjaravísitölu og fjárskuldbindinga. Hins vegar er mér persónulega sama þótt lánskjaravísitala yrði reiknuð og birt daglega um aldur og ævi til þess að menn geti haft hana til upplýsinga alveg eins og læknirinn hefur hitamælinn. En ég held að á meðan lánskjaravísitalan er beint tengd við fjárskuldbindingar virki hún nákvæmlega á sama hátt og þegar launavísitalan var beint tengd við launin, þ.e. sem olía á verðbólgubálið, hún skrúfar upp verðbólguna. Þetta hafa allar þjóðir í nágrenni við okkur séð fyrir lifandi löngu. Ég held t.d. að Finnar hafi verið með svipaða verðtryggingu og við Íslendingar fram til ársins 1967 þegar þeir sáu sitt óvænna og afnámu slíkar verðtryggingar með lögum, enda hefur efnahagsástand í Finnlandi lagast verulega síðan. Spurningin er hvort það sama mundi ekki geta gerst hjá okkur.
    Ég held að engin ástæða sé til þess að endurskoða lánskjaravísitöluna. Það sem fyrst og fremst þarf að gera er að huga að því hvort skynsamlegt sé að halda við þeim sjálfvirku vísitölutengingum sem við höfum búið við um mjög langt skeið eða hvort við ætlum að fylgja dæmi annarra vestrænna þjóða og nota vísitölur í þeim tilgangi sem þeim er ætlaður, til að segja okkur hvert ástandið er en ekki að ætla þeim að lækna efnahagsástandið.