Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfi Konráð Jónssyni að þessi umræða er afar skringileg. Fyrir nokkrum mánuðum heyrðum við að því var haldið fram af ráðandi mönnum í Framsfl. að það ætti að leggja lánskjaravísitöluna niður, það væri meginverkefnið, ekkert annað dygði. Ég hygg að menn hafi komist að því að það þyrfti að útfæra hvernig það skyldi gerast, en svör við því voru víst engin. Nú kemur tillaga um að breyta þessari vísitölu, lánskjaravísitölunni, og skipa sérstaka nefnd í það.
    Vafalaust gengur mönnum gott eitt til. Ég hef hins vegar í mínum þingflokki margoft varað við því að hringla í lánskjaravísitölunni og hef haldið því fram að hún væri í eðli sínu ekki vandamálið heldur verðbólgan í landinu. Takist okkur að slá niður verðbólguna, eins og nú er að takast, verður lánskjaravísitalan ekki til ama. En að hverfa hins vegar frá þeirri umræðu, einangra sig við lánskjaravísitöluna og kenna henni um allar ófarir. Þar er rangt að farið. Það er verðbólgan sem er vandamálið.
    Í stjórnarsáttmálanum er ákvæði um að endurskoða lánskjaravísitöluna og ég verð að játa að ég get tekið undir það með hv. flm. að það hefur verið gert af fljótræði. Ég hef upplýsingar um að hefði sú lánskjaravísitala sem menn tala þar um verið í gildi á sl. ári hefði hún mælt 3% hærri greiðslubyrði en raunin varð á. Ég vara sterklega við því að menn standi í þessu hringli án þess að vita hvað verði um framhaldið. Ég tel að við hv. alþm. ættum að gefa því meiri gaum hverjar eru rætur vandans. Það er verðbólgan, sú ófreskja, sú skepna sem eyðileggur allt efnahagslíf, en ekki hitamælirinn eða mælitækið sem gert er til þess að tryggja að menn greiði til baka það sem þeir fá lánað. Hugsunin er ekki sú að menn greiði meira heldur það sem þeir fá lánað að verðmæti.