Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg viss um að þessi þáltill., sem er flutt af þeim Guðmundi G. Þórarinssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni, sé þess eðlis að hún kalli virkilega á þessar umræður. Málið, lánskjaravísitalan, kallar sannarlega á umræður af þessu tagi og þá á frjálsan tíma ræðumanna. En till. til þál. um endurskoðun á lánskjaravísitölu, endurskoðun sem mér finnst felast í orðunum að þarna eigi að breyta ef það finnst eitthvað athugavert við útreikningsaðferð á lánskjaravísitölu, er út af fyrir sig einskis virði. Og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að hæstv. ráðherra, sem er okkar mesti fagmaður í þessum málum, er með þetta í vinnslu og við þurfum ekkert að vera að flytja svona till. Við höfum engan hæfari mann með þjóðinni til þess að vinna þá vinnu sem hann er að vinna. Það sem ég hefði viljað sjá, hvort sem það er frá stjórnarliðum eða öðrum, er þáltill. um að fella lánskjaravísitöluna niður á sama hátt og það er búið að fella niður launavísitöluna. Hver er reiðubúinn til að trúa því að lánskjaravísitala sé eins konar hitamælir? Það er alveg rétt sem kom hérna fram hjá hv. þm. Júlíusi Sólnes. Það er notað sem meðal líka, en er ekkert meðal. Menn læknast ekki af því að éta hitamælinn.
    Við höfum hvað eftir annað talað um þá staðreynd að menn hafa fengið vísitölutryggt lán úr húsnæðiskerfinu. Ég kom hér með dæmi einu sinni um einstakling sem hafði fengið 80 þús. kr. að láni árið 1980 og hafði alltaf staðið í skilum og 1985, eftir að hafa staðið í skilum í fimm ár, skuldaði hann tæp 600 þús. kr. Og ætlið þið svo að segja að lánskjaravísitalan hafi ekki neitt að segja? Hún eykur í krónutölu kvaðir sem eru á einstaklingnum en launin standa í stað. Orkan í manninum, ég er margbúinn að tala um það, sem hann á eftir að breyta í krónur og aura, hefur ekki sama gildi og krónan sem hann fær að láni. Og á meðan svo er er þjóðfélagið allt skakkt. Við höfum það daglega fyrir framan okkur að fyrirtæki og fjölskyldur fara á hausinn vegna þess að fólk vinnur ekki fyrir daglegum þörfum og fyrirtækin ekki heldur. Ég er alveg sannfærður um að það ætti að taka og skoða betur tillögu sem ég var með sem fjmrh. um hið fræga pennastrik sem var notað þegar á þurfti að halda í einstaka neyðartilfellum en aldrei viðurkennt. Hvað haldið þið að það mundi bjarga miklu ef þetta pennastrik yrði notað á vísitöluþátt þeirra lána fyrirtækja og fjölskyldna sem nú eru að fara á hausinn? Hvað haldið þið að það mundi bjarga miklu ef einstaklingar og fyrirtæki skulduðu höfuðstólinn einan? Ég tel að það sé kominn tími til að hugsa ekki eingöngu um þá sem eiga peninga til að vinna fyrir sig heldur líka um þá sem þurfa peninga til að koma sér áfram á hvaða sviði sem er.
    Ég hef eins og allir lesið og hlustað á í öllum fjölmiðlum, aðallega ríkisfjölmiðlunum, þann boðskap ríkisstjórnarinnar að verðbólgan sé að koma niður, hún sé komin niður í núll og vísitalan hraðminnki frá degi til dags. Hún var komin á annað hundrað prósent árið 1983 þegar Sjálfstfl. og Framsfl. tóku þá við

stjórnarstörfum. Hún var komin niður í rúmlega 20% eða á milli 20 og 30% í tíð hæstv. fyrrv. forsrh. Þorsteins Pálssonar. Hún er sögð vera komin niður í núll núna, í annarri stjórnartíð hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. En getur nokkur landsmaður sagt mér hvar það kemur fram annars staðar en í áróðri frá ríkisstjórninni í fjölmiðlum og aðallega ríkisfjölmiðlum? Það kemur ekki fram í lækkandi verðlagi. Það kemur ekki fram í lækkandi húsaleigu. Það kemur ekki fram í neinu þar sem fólk þarf að borga. Það kemur bara fram í eyrum þeirra sem hlusta. Og hver trúir svo ríkisstjórninni þegar svona staðreyndir blasa við? Það trúir ekki nokkur maður, ekki nokkur maður vegna þess að fólkið í landinu er vel upplýst fólk. Það veit hvað það þarf frá degi til dags. Frá morgunmat til kvöldmatar veit það nákvæmlega hvað það þarf vegna þess að það getur ekki eytt meiru en það nauðsynlega þarf. Það á ekki peninga fyrir því. Ég hef ekki séð kaupmáttinn aukast undanfarið vegna boðskapar ríkisstjórnarinnar. Kaupmátturinn fer hraðminnkandi þrátt fyrir að verðbólgan er komin niður í núll og vísitalan sama og engin. Það er skýringin á þessu sem þarf að koma fram.
    Ég held að það sé rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að vegna þeirra blekkinga sem þjóðin hefur orðið fyrir eru þingmenn stjórnarinnar sjálfir orðnir hræddir, þeir eru orðnir hræddir við að styðja stjórnina. Ég veit ekki um neitt frv. sem er stjfrv. og er í nefnd núna sem hefur stuðning stjórnarinnar í annarri deildinni hvað þá báðum. En við skulum bíða. Samkvæmt umræðum sem hér voru fyrir nokkrum dögum í hæstv. sameinuðu Alþingi koma lánsfjárlögin úr nefnd í byrjun næstu viku eða kannski þessari viku. Það reynir kannski á það því að formaður þeirrar nefndar sem fer með þau í Ed. tjáði þingheimi að það yrði lagt fram þegar 15 umsagnaraðilar hefðu gefið sítt álit. ( Gripið fram í: Það voru bráðabirgðalögin.) Bráðabirgðalögin. Já, fyrirgefðu. Ég er að tala um bráðabirgðalögin. Þau koma þá fram mjög fljótlega. Hvað sagði ég? ( Gripið fram í: Lánsfjárlög.) Já, fyrirgefðu.
    Forseti hefur óskað eftir því að ég ljúki máli mínu og ég sé enga ástæðu
til annars en að gera það. Þetta mál er hægt að ræða lengi, en ég tel að ég hafi sagt nokkurn veginn allt það sem ég vildi hafa sagt.