Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. fyrir það að staðfesta hér skýrt og skorinort að tillagan er flutt vegna þess að hann hefur ekki traust á þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið um breytingar og þeirri vinnu sem hæstv. viðskrh. hefur látið fara fram í því efni. Auðvitað er það útúrsnúningur einn að ég hafi verið að amast við því að þm. Framsfl. flyttu tillögur af þessu tagi. Til þess hafa þeir auðvitað þinglegan rétt og er ekkert nema gott eitt um það að segja. Hitt er alveg augljóst að tillagan er borin fram vegna þess, eins og hv. flm. orðaði það held ég alveg skýrt og skorinort, að hann hefur ekki traust á því sem ákveðið hefur verið og vill að það sé athugað betur. Það er ekki hægt með skýrari hætti að staðfesta það að hér er um að ræða vantraust á það sem hæstv. viðskrh. hefur verið að gera og staðfestir orð mín um það efni.
    Það var athyglisvert sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér. Hann sagði að hér væri enn eitt dæmi um það að sérfræðingar hefðu teymt Alþingi á villigötur. Frv. um vísitöluna og lögin um vísitöluna eru þó kennd við fyrrum formann Framsfl. Eitt stærsta baráttumál Framsfl. var löggjöfin um vísitöluna. Þetta er enn eitt dæmið um það að sérfræðingar hafi teymt Alþingi á villigötur. Það virðist vera orðið þannig með sérhvert mál sem Framsfl. kemur að að þeir eru alltaf plataðir. Það kemur alltaf í ljós eftir á að einhverjir sérfræðingar eða óvandaðir samstarfsmenn plötuðu þá til þess arna.
    Hitt er svo athyglisvert við þessa umræðu að hæstv. viðskrh. staðfestir að breytingar á vísitölunni eigi að koma til framkvæmda svo sem hann hefur lýst um næstu áramót. Hér liggur hins vegar fyrir tillaga um það að það sé ófullnægjandi endurskoðun, tillaga frá áhrifamönnum í stjórnarliðinu. Og tveir aðrir stjórnarþm. a.m.k., bæði úr Framsfl. og Alþfl., hafa talað hér og varað við þessu hringli með vísitöluna eða sagt að það sé óeðlilegt að búa til svona tengingu vegna þess að menn hafi misjöfn laun. Samt sem áður ætlar hæstv. ríkisstjórnin að láta breytinguna koma fram þó að enginn stjórnarþm. hafi mælt með því, heldur hafi allir stjórnarþm. sem hafa talað mælt á móti þessari breytingu. Svo hleypur hæstv. viðskrh. í það að segja að þetta sé tillaga Seðlabankans sem ekki þurfi atbeina Alþingis til. Það er rétt að skýrt verði alveg hreint berum orðum fyrir Alþingi hver sé vilji Seðlabankans í þessu efni. Er þetta sérstakt baráttumál Seðlabankans, að fá þessa breytingu fram? Vegna orða hæstv. viðskrh. er alveg nauðsynlegt að fá þá afstöðu alveg skýra.
    Hæstv. viðskrh. taldi nauðsynlegt að draga hér fram tillögugerð í fyrrv. ríkisstjórn. Auðvitað er það rétt að ég gerði um það tillögu að launavísitalan yrði tekin inn að 1 / 3 vegna þess að einn af þáverandi stjórnarflokkum gerði um það kröfu, og það var verið að reyna að miðla málum, ná samstöðu, og þess vegna var tillaga af þessu tagi flutt í þeim tilgangi að ná samstöðu. Ég tel og taldi þá að það gæti verið verjandi að tengja launin inn í vísitöluna að einhverju

leyti, í hæsta lagi að 1 / 3 hluta, og skal alveg standa við það fullkomlega. Ástæðan var hins vegar þessi og er rétt að hæstv. viðskrh. taki það til greina, og hann getur ekki notað þetta sem ástæðu fyrir því hér á hinu háa Alþingi að það sé eitthvert sérstakt áhugamál seðlabankastjóranna að þessi breyting nái fram um áramót. Hann verður þá að gera grein fyrir því hér og flytja þann boðskap seðlabankastjóranna hingað inn á Alþingi en ekki fara með þessum hætti á flótta í málinu. Staðreyndin er þessi: Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun sem allir þeir stjórnarþm. sem hér hafa talað hafa varað sterklega við. Það verður að fá alveg skýr svör um það hér hjá hæstv. ráðherra hvort þetta breyti engu um áform ríkisstjórnarinnar, hvort kröfuna um aðra endurskoðun eigi að hafa að engu eða hvort eigi svo aftur að breyta vísitölunni eftir örfáar vikur eða örfáa mánuði. Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari því. Hann skaut sér undan því í fyrri hluta umræðunnar. Það er nauðsynlegt að fá svar við því: Á að gera þá breytingu? Í annan stað er nauðsynlegt að fá svar við því, alveg skýrt, hvort ríkisstjórnin ætlar sér að standa við hitt loforðið sem gefið var í stjórnarsáttmálanum um að afnema vísitöluna með öllu.
    Nú er engin verðbólga til staðar. Hefur ríkisstjórnin trú á því sjálf að það sé varanlegur árangur? Það hefur það enginn annar í þjóðfélaginu. Hafi hæstv. ríkisstjórnin hins vegar trú á því sjálf hlýtur hún að láta þetta fyrirheit koma til framkvæmda þegar í stað. Þess vegna er unnt að krefja hæstv. ráðherra svara um það hvort þetta fyrirheit kemur til framkvæmda nú þegar eða ekki eða hvenær það komi til framkvæmda. Á það að ná til spariskírteina ríkissjóðs? Nú seljast þau ekki. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til að örva sölu á þeim? Það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að þingið fái skýr svör við þessu. Auðvitað er þetta í beinum tengslum við vaxtaákvarðanir. Nú þegar verðbólga er því sem næst engin er auðvitað alveg óþolandi að vextir séu jafnháir og þeir eru. Allir gera sér grein fyrir að þeir fara upp í tengslum við verðbólgu. Þegar verðbólga vex, þá hækka vextirnir. Þegar verðbólgan er hins vegar nánast horfin verður að gera þá
skýlausu kröfu að vextirnir fylgi alveg jafnhratt niður. En því fer auðvitað víðs fjarri að það hafi gerst eftir að breyttir stjórnarhættir voru teknir upp. Þess vegna eru þær spurningar áréttaðar hér í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja um vantraust stjórnarþm. á þessari breytingu: Verður tekið tillit til þess vantrausts eða á að hringla með vísitölugrunninn frá einum mánuði til annars? Á að afnema vísitöluna fyrir fullt og allt þegar verðbólgan er komin niður eins og núna? Hefur ríkisstjórnin traust á því að verðbólgan sé varanlega búin að vera? Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum.