Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á hæstv. viðskrh. og verð að segja eins og er að mestallt skildi ég sem hann sagði en áttaði mig þó ekki á því hvernig hann fann það út að ég legði á það sérstakt kapp að fara illa með skuldara. Ég hef ekki hug á að leggja það til að farið verði vel eða illa með skuldara. Ég tel að það markmið sé eðlilegt sem sett var fram á sínum tíma í Ólafslögum og fjallaði um verðtryggingu, að menn greiði til baka það sem þeir fá að láni. Ég gat þess hins vegar áðan og tel að það blasi við hverjum manni sem það vill skoða af sanngirni að lánskjaravísitalan er ekki aðeins verðtrygging, heldur felur hún einnig í sér ávöxtun. Út úr þessu mega menn snúa eins og þeir vilja. Það er að sjálfsögðu skemmtiatriði hvers og eins að ná sem mestri hæfni í þeim efnum.
    Ég ætla að nefna örfá dæmi um viðfangsefnið sem Hagstofan fæst við við að reikna út vísitölur sem lánskjaravísitalan er byggð á. Einu sinni var volvóinn settur inn í vísitöluna og svo kom nýr volvó. Og þá kom spurningin: Hve mikið af verði nýja volvósins er vegna endurbóta á þeim gamla og hve mikið er verðbólga? Ég trúi því að þeir hafi skoðað bílinn bæði hátt og lágt en komust þeir að réttri niðurstöðu? Og svo hélt þetta áfram og eftir 10 ár stóð sama spurning enn: Hve mikið af volvóinum er verðbólga og hve mikið er endurbætur?
    Ég ætla ekki að fara í að ræða það í hvaða ógöngum þeir lentu forðum með silkisokkana þegar þeir urðu hreinlega úreltir í neyslugrunninum og þeir urðu að taka upp nælonbuxur í staðinn. Það getur hins vegar hver maður sest niður og farið yfir gamla grunninn, gömlu úttektina á því í hvað fjölskyldan eyddi sínu fé og fært sig svo yfir í það nýja og brotið um þetta heilann: Komust menn nú alls staðar klakklaust á milli? Ég er sannfærður um að hver maður sem skoðar þetta áttar sig á að þessar vísitölur eru enginn heilagur sannleikur. Þær eru eins og önnur mannanna verk tilraun til þess að komast að niðurstöðu, en miðað við þá þróun sem orðið hefur í misgengi á milli lánskjaravísitölu og annarra gjaldmiðla hygg ég að öllum sé ljóst að þarna hafa átt sér stað mikil mistök.
    Ég vil svo segja það varðandi þann ræðuflutning sem hér hefur verið viðhafður að mér þótti vænt um hvað hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur tekið gleði sína og finnst að hægt sé að fullyrða að það er mikil framför á hans stjórnarandstöðu frá því hann var í andstöðu við ríkisstjórn Gunnars heitins Thoroddsens til þeirrar andstöðu sem hann er í við þessa ríkisstjórn. Hann hefur áttað sig á því að það er engin lausn að setja bara undir sig hausinn og ætla að ryðja öllu um koll. En ég verð að segja eins og er að ég hef vissar áhyggjur af formanni Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., og varaformanni Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv. Þegar hv. 1. þm. Reykv. lýsir því yfir í reiði að hæstv. forsrh. sjáist aldrei í fundarsalnum er málflutningurinn kominn á það stig að ef þessi setning væri tekin sem mælikvarði á sannleiksgildi almennrar umræðu hjá hv.

þm. yrði niðurstaðan sú að það bæri ekki að trúa einu einasta orði. Nú veit ég náttúrlega að menn virða honum það til vorkunnar að honum þótti betra að vera ráðherra en þingmaður og þess vegna er dálítil reiði til staðar.
    Í þeirri ágætu bók eftir dr. Brodda Jóhannesson, ,,Frá mönnum og skepnum``, er minnst á það að ungur maður spyr annan eldri hvaða mann hann ætli að kjósa. Gamli maðurinn segir honum að hann sé að vissu leyti miklu meiri skoðanabróðir þess eldri sem væri í framboði í stjórnmálunum, en hann ætli að kjósa unga manninn af því að það sé svo mikið af reiðu blóði í þessum gamla stjórnmálamanni. Og strákurinn varð sér til skammar næsta vetur þegar hann spurði náttúrufræðikennarann að því hvort til væri reitt blóð í dýrum en náttúrufræðikennarinn kannaðist ekkert við þetta. En í lok þessarar sögu dregur hann upp þá mynd hvernig fór fyrir hönunum þegar þeir voru orðnir reiðir: Þeir slógust og slógust jafnvel þó að eigandinn kæmi og stráði korni til að bjóða þeim upp á eitthvað ætilegt sem hefði nú verið þegið undir öðrum kringumstæðum. Þeir voru svo gjörsamlega búnir að tapa áttum, reiðin var búin að beina þeim í svo ákveðinn farveg að þeir höfðu ekki valfrelsi lengur. Ég vænti þess að þeir ágætu ungu menn, sem vafalaust eiga eftir að starfa lengi í stjórnmálum, átti sig á því að það er ekki gott að láta reiðina stjórna gjörsamlega í stjórnarandstöðu og hyggilegra að fara að fordæmi hv. 2. þm. Norðurl. e. sem hefur þó tekið gleði sína hvað sem öllu öðru líður.