Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Frú forseti. Í fyrsta lagi til þess að eyða öllum misskilningi vil ég taka það skýrt fram að ég hef mikla trú á þeirri verðbólguhjöðnun sem náðst hefur. Hún er ákaflega mikill og góður árangur. Hún veitir lífsnauðsynlegt hlé til þess að ná betri tökum á okkar efnahagsmálum. Hins vegar er ég raunsær maður og vil halda þessu lengur áður en ég segi að fullnaðarsigur sé unninn.
    Ég mun fylgja því fast eftir að menn reyni að koma efnahagsmálum hér svo fyrir að það verði ekki lengur til umræðu hvort víxlhækkun verðlags og lánskjara sé sérstakt vandamál. Hún bara hverfur af sjálfu sér. Ég vil ekki tímasetja þetta. En ég segi það líka skýrt að bankarnir munu sýna það í verki núna 1. des. að þeir lækka vextina vegna þeirrar miklu hjöðnunar verðbólgu sem orðið hefur þannig að vextirnir verða lægri en þeir hafa verið um árabil ef ekki áratuga bil og lægri eða jafnir þeim sem gerast í okkar nágrannalöndum.
    Um þá endurskoðun sem er tillaga þm. tveggja, sem flytja hér þáltill., vil ég að lokum segja þetta: Hún er annars eðlis en þær breytingar sem hér hafa verið ræddar mest af hv. 1. þm. Suðurl. Hún er akademísk athugun á því hvort þessir verðmælikvarðar séu í allra besta lagi. Það er sjálfsagt að slík athugun fari fram, en ég held að það væri hyggilegast að allshn. leiti álits sérfræðistofnana og annarra fróðra manna um málið áður en hið endanlega form ályktunarinnar verður ákveðið.