Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Það var óhjákvæmilegt eftir ræðu hv. 5. þm. Reykv. að vekja athygli á því að í þessum umræðum hefur ekki komið fram hvort hæstv. viðskrh. sé sammála hæstv. forsrh. um það að nauðsynlegt sé að taka aftur inn verðtryggingu launa um leið og sú ákvörðun er tekin að halda lánskjaravísitölunni áfram. Það er auðvitað hörmulegt að hæstv. viðskrh. skuli hafa talað þrisvar þannig að hann getur ekki svarað þessu núna og enginn annar hæstv. ráðherra er við þannig að það er ekki hægt að spyrja þá að því hvort þeir séu þessu sammála.
    Ég hef í Ed. hvað eftir annað vakið athygli á ummælum hæstv. forsrh. og beint þeirri fsp. bæði til hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh. hvort þeir séu sammála þessari skoðun hæstv. forsrh. En vegna þess að við vitum að hæstv. forsrh. er góður verkstjóri og af því að við vitum að hann fer ekki að fleipra með hlutina, hann meinar á hverri stundu það sem hann segir, þá má auðvitað búast við því að þetta dúkki upp síðar, að það komi einhvern tímann til þess, svona a.m.k. eina ögurstund, að ríkisstjórnin vilji beita sér fyrir því að verðbætur komi á nýjan leik. Það eru að vísu hér inni margir stjórnarþm. Ég veit ekki hvort einhver þessara stjórnarþm. vilji upplýsa þingheim um sína skoðun á þessu máli.
    En ég sem sagt harma það enn og aftur, virðulegi forseti, vegna þess að þó að ríkisstjórnin sé kannski þríein, þá er meiri sundrung innan hennar en venjulega þegar við tölum um hið þríeina og þess vegna hefði verið notalegt að hafa einhverja fleiri ráðherra viðstadda sem gætu upplýst um þetta. Ég held að það sé ekki aðeins spurning um það hvort meiri hluti sé fyrir stefnumiðum hæstv. forsrh., eins og hann talar stundum á Alþingi, heldur orki mjög tvímælis að skoðanir hæstv. forsrh. þegar hann talar stundum séu skoðanir ríkisstjórnarinnar. En við verðum að bíða og sjá hvað setur, hvort einhvern tímann verði hægt að fá fleiri en einn ráðherra til að vera viðstadda umræðurnar. Ég hef að vísu tekið eftir því að ef fleiri skjótast inn í salinn og maður fer að spyrja, þá eru þeir fljótir að tínast út úr salnum aftur þannig að það sé bara einn málsvari fyrir ríkisstjórnina hverju sinni og þá er bara að svara því sem mönnum sýnist, öðru er sleppt. Einkanlega hef ég tekið eftir því að hinir óbreyttu ráðherrar, liðsmennirnir sjálfir, verkamennirnir í víngarði forsrh., eru mjög ófúsir að ræða einstakar yfirlýsingar forsrh. Ég hef stundum sagt að hæstv. sjútvrh. velti því fyrir sér hvernig Hornafjarðarmáninn sé þegar hann hlustar á hæstv. forsrh. Og ef Hornafjarðarmáninn er á réttum stað, þá eru áhrif sjútvrh. mikil á forsrh. og þá talar hann ekki af sér. En hins vegar ef það er Keflavíkurmáninn, þá er ekki von á góðu og þá kemur fyrir að hæstv. sjútvrh. hengir haus og segir ekki margt, en maður sér á svipnum á honum að tunglið er á röngum stað þegar hæstv. forsrh. talar undir slíkum kringumstæðum.