Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Eggert Haukdal:
    Frú forseti. Í ræðu sinni áðan vakti hv. 2. þm. Vestf. athygli á frv. því sem ég flutti fyrir réttu ári síðan um lánskjör og ávöxtun sparifjár, en meginmál þess frv. var að afnema lánskjaravísitöluna. Þetta frv. fékk mikinn stuðning úti í þjóðfélaginu, en það fékk lítinn stuðning meðal ráðamanna og það fékk líka lítinn stuðning meðal óbreyttra þingmanna. Þessi umræða, eins og umræðan allar götur síðan, hefur sýnt að almennt er ráðamönnum, þingmönnum órótt út af lánskjaravísitölunni. Það er ekkert óeðlilegt að þeim sem komu á þessu kerfi fyrir tæpum tíu árum sé farið að líða illa þegar litið er til þess til hvers kerfið hefur leitt fyrir fyrirtækin og heimilin, þau eru mörg í strandi.
    En í staðinn fyrir að viðurkenna að lánskjaravísitalan sé sprungin fara menn aðrar leiðir. Þeir eru að reyna að friða samviskuna með því að setja í endurskoðun, endurskoða þennan bölvald, þennan höfuðmeinvætt verðbólgunnar á Íslandi. Það á að laga hana, segja menn, í staðinn fyrir að ganga bara hreint til verks, hafa kraft og dug í að setja þetta kerfi af, afnema lánskjaravísitöluna. En til þess virðist krafturinn ekki vera.
    Lánskjaravísitalan var sett í athugun í nefnd á þessu ári. Hvað kom út úr því? Nefndinni var nánast gefin fyrirsögn um að hún skyldi segja að þetta væri allt í lagi, það þyrfti engu að breyta. Þó glopraðist út úr henni að það mætti breyta þessu kerfi. Veðurfræðingurinn hafði að vísu sérstöðu, einn maður í nefndinni, hann vissi að það þarf að gá til veðurs í náttúrunni og hann sá að það þurfti líka að líta eftir veðrinu í peningamálunum, en það hefur bara vantað að undanförnu hjá þeim sem til forustu hafa verið valdir um þessi mál, Seðlabanka og fleirum.
    Fundartími er orðinn skammur og ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Menn vilja ekki viðurkenna að lánskjaravísitalan sé verðbólguvaldur, en kaupgjaldsvísitalan var afnumin af því að hún er verðbólguvaldur. Þessar vísitölur á að sjálfsögðu báðar að afnema, allar vísitölur eru vitlausar. Núna er tækifærið, verðbólgan er í núlli. Hún getur senn farið á fulla ferð aftur, en vel væri ef svo yrði ekki. Nú ættu menn að ganga til þess leiks, einmitt við þetta tækifæri, að afnema lánskjaravísitöluna að fullu og öllu.