Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason komst svo að orði hér áðan að verðbólgan væri vandamálið. Það er sannarlega ástæða til þess að velta því fyrir sér af hverju verðbólgan blossar upp. Á hverju þrífst verðbólgan? Á hverju nærist hún? Verðbólgan nærist að verulegu leyti á háum vöxtum. Peningarnir eru of dýrir. Peningarnir eru teknir fram yfir manninn, fram yfir manneskjuna. Arður af peningum er settur hærra en arður af vinnu. Tekjur sem maður aflar sér með höndunum eða höfðinu eru skattlagðar. Tekjur sem safnast af peningum hafa verið skattfrjálsar. Atvinnulífið getur ekki þrifist og staðið undir fjármagnskostnaði eins og hann hefur verið undanfarið í þessu þjóðfélagi. Erfiðleikar okkar í þjóðarbúskapnum núna eru að verulegu leyti, leyfi ég mér að fullyrða, vegna þess að við höfum rofið þetta samhengi. Við höldum uppi háum vöxtum, mikilli leigu fyrir peningana, hærri leigu en atvinnulífið getur borið.
    Ég fagna því að hér hafa orðið þessar umræður vegna þess að þær eru upplýsandi og gagnlegar. Lánskjaravísitalan, eins og hún hefur verið, er órökrétt og á það var ágætlega bent af hv. 1. flm. Hún hækkar sjálfa sig sjálfkrafa. Það er ekki bara það að Einbjörn togi í Tvíbjörn og Tvíbjörn í Þríbjörn og Þríbjörn í Fjórbjörn, heldur fer Einbjörn að toga í Fjórbjörn --- og að því leyti er þetta orðið öfugt við ævintýrið og rófan bara gengur ekki með þessum látum.
    Það er innibyggt mein í lánskjaravísitölunni sem skrúfar hana upp sjálfkrafa og á það benti hv. 1. flm. prýðilega í ræðu sinni. Lánskjaravísitalan verður að vísu ofurlítið löguð 1. janúar. Það er skárra að miða við launin, að láta launin vega þyngra en þau hafa gert, m.a. vegna þess að við hækkandi laun hafa menn væntanlega skárri greiðslugetu. Um þessa breytingu varð samkomulag við stjórnarmyndunina. Ég lít á þetta sem bráðabirgðaástand, þetta hlýtur að vera áfangi til að vinna sig út úr lánskjaravísitölunni. Við þurfum að losna við lánskjaravísitöluna. Það hlýtur að vera takmarkið og um það þurfum við fyrr en varir að taka um það pólitíska ákvörðun. Við þurfum að reyna að rjúfa þennan vítahring. Það hlýtur að vera framtíðarmarkmiðið og því verðum við að ná. Það er vandrötuð leið að því marki sem er framkvæmanleg og formleg, en þá leið verðum við að finna.
    Hv. 3. þm. Suðurl. Eggert Haukdal minnti á frv. sem hann flutti í fyrravetur um afnám lánskjaravísitölu og í minningum mínum frá síðasta þingi hygg ég að það hafi verið eitt merkasta þingmálið sem fram kom á Alþingi sl. vetur. Ég var einn af þeim mönnum sem eru hv. þm. þakklátir fyrir þann málflutning sem hann hafði þá í frammi.