Nýting innlendra orkugjafa
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Flm. (Ólöf Hildur Jónsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um nýtingu innlendra orkugjafa á vegum sveitarfélaga og ríkisins. Till., sem er á þskj. 131, er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna orkunotkun fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga þar sem fram komi hlutfall notkunar á a. olíu, b. raforku og c. jarðvarma. Að niðurstöðum fengnum verði gerð áætlun um notkun innlendrar orku til upphitunar í byggingum á vegum ríkis og sveitarfélaga og jafnframt verði leitað leiða til að samræma verðlagningu innlendra orkugjafa.``
    Markmið þessarar till. er að leiða í ljós hvaða orkugjafar eru notaðir í fyrirtækjum og stofnunum í opinberri eigu hérlendis, að leitað verði leiða til að nýta eingöngu innlenda orkugjafa og verðlag á þeim verði jafnað um land allt. Þótt olía sé nú notuð í litlum mæli við upphitun íbúðarhúsnæðis kemur hún enn víða við sögu þegar um er að ræða atvinnuhúsnæði og ekki síst við upphitun sundlauga þar sem nýtanlegan jarðvarma er ekki að finna.
    Mikill verðmunur er á orkugjöfum, ekki aðeins á olíu og ódýrum jarðvarma heldur ekki síður á rafmagni og jarðvarma svo og á milli einstakra hitaveitna. Þessi verðmunur veldur ekki aðeins mikilli mismunun í hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis eftir byggðarlögum heldur einnig miklum aðstöðumun hjá sveitarfélögum í landinu.
    Flest sveitarfélög þurfa að standa undir upphitun húsnæðis eins og skóla og íþróttahúsa, félagsheimila og sundlauga, auk ýmiss konar atvinnuhúsnæðis. Þar sem eingöngu er völ á olíu eða rafmagni til upphitunar verða þessir rekstrarþættir afar þungir í skauti ekki síst fyrir fámenn sveitarfélög. Hár upphitunarkostnaður sundlauga veldur því líka að þær eru ekki nýttar nema hluta úr ári. Kemur það sér auðvitað afar illa fyrir þá sem stunda vilja sund að ekki sé talað um þá sem heilsu sinnar vegna þurfa á sundiðkun að halda. Þessir þættir ásamt mörgum öðrum geta vegið þungt varðandi viðhorf fólks til búsetu. Ekki síst þegar yngra fólk á í hlut að ekki sé talað um þá sem leggja vilja stund á sund sem keppnisíþrótt.
    Þá er augljóst að sveitarfélög sem búa við hátt orkuverð hafa úr minna fjármagni að spila en hin sem búa við hagstætt orkuverð. Þetta bitnar óhjákvæmilega á framlögum til annarra þátta, t.d. í íþrótta- og æskulýðsmálum og menningarmálum.
    Ég tel að það eigi að vera hlutverk hins opinbera, ríkis í samvinnu við sveitarfélögin, að leita lausna á þessum vanda. Undirstöðuþættir í daglegu lífi eins og orka til heimilisnota og húshitunar eiga að vera sem næst á sama verði hvar sem fólk býr á landinu. Það krefst aðgerða til jöfnunar, en allt of hægt hefur miðað í þeim efnum. Þá er það sjálfsagt markmið að nýta innlenda orku í stað innfluttrar hvar sem því verður við komið, til að spara gjaldeyri og auka um leið öryggi íbúanna. Jöfnun á verði innlendrar orku mundi hvetja sveitarfélög til að leggja af olíunotkun og auðvelda þeim að skipta yfir í jarðvarma eða

rafmagn. Með því yrði líka jafnaður sá mikli aðstöðumunur sem nú ríkir á milli sveitarfélaga vegna mismunandi kyndingarkostnaðar og þau sem nú standa höllum fæti gætu haldið uppi meiri og betri þjónustu við íbúa sína en nú er.
    Íslensk stjórnvöld hafa til þessa talið sér fært að skipta auðlindum landsins niður á þegna þjóðfélagsins. Nægir þar að nefna nýtingu fiskistofna og landgæði til búskapar. Hins vegar vekur það furðu að stór hluti orkuöflunar er afhentur einstaka sveitarfélögum og stofnunum án tillits til afkomumöguleika annarra sem ekki hafa jafngreiðan aðgang að þessum auðlindum. Nauðsynlegt er að skoða með hvaða hætti þessum auðlindum verði skipt milli þegna landsins og ekki er óeðlilegt að jöfnun orkukostnaðar í stofnunum ríkis og sveitarfélaga verði fyrsta skrefið að jöfnu orkuverði fyrir alla landsmenn. Ef sama stefna ætti að ráða um skiptingu auðlinda sjávar og ríkir í orkumálum ættu einungis Breiðfirðingar að veiða fisk í Breiðafirði og þeir einir ættu að hirða hagnaðinn af því. Þá gætum við Snæfellingar vafalaust byggt hringsnúandi veitingahús á Snæfellsjökli, en ósköp er ég hrædd um að dýrt yrði að kynda það.
    Tillagan sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að unnið sé að þessu máli í tveimur áföngum. Í fyrsta lagi fari fram könnun á orkunotkun og þá um leið orkuverði í stofnunum og fyrirtækjum í opinberri eigu. Í framhaldi af því verði gerð áætlun um úrbætur sem fælu í sér að innlend orka verði tekin í gagnið alls staðar þar sem það getur talist þjóðhagslega hagkvæmt og verð á þeirri orku verði jafnað og samræmt til að draga úr og afnema þá mismunun sem nú ríkir.
    Virðulegi forseti. Ég sit á hv. Alþingi sem varamaður í stuttan tíma. Engu að síður vænti ég þess að þessi þáltill. verði athuguð þar sem hún snertir hag fjölmargra byggðarlaga og er mikið réttlætismál. Ég þakka fyrir það tækifæri sem mér hefur hér verið veitt til að mæla fyrir henni. Að umræðu lokinni legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. atvmn.