Aðför
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vil mjög taka undir með hv. 11. þm. Reykv. Guðmundi Ágústssyni. Hér er um mjög vel unnið frv. að ræða og það er jafnframt rétt hjá honum að það er nauðsynlegt að frv. um aðskilnaðinn komi jafnframt fram og það mun verða lagt fram á Alþingi nú alveg á næstunni. Það er tilbúið til framlagningar. Vegna fsp. hans um afstöðu Framsfl. vil ég taka fram að Framsfl. stóð að því í síðustu ríkisstjórn að þetta frv. var lagt hér fram. Hitt er svo annað mál að það eru aðilar í einhverjum flokkanna á Alþingi, þar á meðal Framsfl., sem hafa vissar efasemdir um málið. Ég tel þetta mál vera þess eðlis að það sé eðlilegt að það sé unnið í því hér á Alþingi og alls ekki þannig að þar megi engu hvika og engu breyta. Það var hér lengi til meðferðar frv. til l. um lögréttu og var lagt fram nokkrum sinnum á Alþingi. Ég tel mjög mikilvægt að frv. komi fram sem allra fyrst þannig að það geti hlotið umfangsmikla umfjöllun á Alþingi, en ég mun leggja á það áherslu að frv. verði afgreitt á þessu þingi og það mun verða flutt sem stjfrv. alveg á næstunni.