Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Það eru nú liðnir u.þ.b. tveir mánuðir síðan hæstv. ríkisstjórn tók við völdum í landinu. Hún opinberaði stefnu sína strax í upphafi, þá stefnu sem hún hugðist fylgja í efnahagsmálum. Sú stefna felst fyrst og fremst í því að falsa gengi íslensku krónunnar með erlendum lántökum annars vegar og hins vegar með nýjum skattaálögum á almenning. Það er yfirlýst stefna, sem kemur fram í efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar, þeirri fyrstu, að taka erlend lán beinlínis til að þurfa ekki að leiðrétta gengi íslensku krónunnar. Það er gert til að halda verðbólgunni niðri um skeið, en öllum er ljóst að sú ráðstöfun dugir ekki nema um nokkurra vikna skeið, kannski örfáa mánuði. Það sem er merkilegt er að Alþb., flokkur hæstv. fjmrh., hélt fund fyrir örfáum dögum, miðstjórnarfund, og lýsti þar yfir að ekki kæmi til greina að leiðrétta gengi íslensku krónunnar þrátt fyrir að hæstv. forsrh. hafi þá örfáum dögum áður sagt frá því opinberlega að gengi krónunnar þyrfti að leiðrétta og hafði hann þá áður talað um að 15% væri sú tala sem þyrfti að hafa til viðmiðunar. Þannig hefur Alþb. mótað sér þá stefnu að vera gegn hreyfingum á gengi íslensku krónunnar og það virðist vera þrátt fyrir að utanaðkomandi aðstæður gætu hæglega breyst og reyndar hafa þær verið að breytast að undanförnu þegar bandarískur dollar hefur fallið í verði á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum.
    Einn liður í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er auðvitað stefnan, ef hægt er að tala um stefnu í því sambandi, sem birtist í fjárlagafrv. Hún er sú að á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn ætlast til þess að almenningur í landinu, einstaklingar, fjölskyldur og heimili dragi saman seglin vegna þeirra áfalla sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir vegna verðfalls á erlendum mörkuðum ætlar ríkissjóður ekki að taka neitt á sig. Hann ætlar að halda sínu og ná jöfnuði í ríkisfjármálum og gott betur með því að auka skattheimtuna á fyrirtækin í landinu, þau fyrirtæki sem nú eru að berjast í bökkum, og skattheimtu á venjulega borgara þessa lands sem þurfa samt sem áður að taka á sig þá kjaraskerðingu sem ríkisstjórnin stefnir að og hefur lýst yfir að þurfi að vera u.þ.b. 7% á næsta ári.
    Það frv. sem hér er til umræðu, virðulegur forseti, er fyrsta frv. sem varðar tekjuhlið fjárlaga og það er þess vegna eðlilegt að hér fari fram nokkuð almennar umræður um skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar. Það er afar eðlilegt að bent sé á það að Alþb. styðji nú virðisaukaskattinn og þann söluskatt sem lagður var á þar til virðisaukaskatturinn tæki gildi og ég tek undir það með þeim hv. ræðumönnum sem hér hafa talað áður í dag að hér er um mikilvæga og mjög merkilega stefnubreytingu að ræða hjá Alþb.
    Þegar Alþb. fyrir einu ári og einum mánuði var í stjórnarandstöðu kom inn á þing sem varamaður núv. hæstv. fjmrh., eins og hann hefur stundum gert, og hafði sig talsvert í frammi í umræðum hér á Alþingi. Þar á meðal talaði hann hinn 15. okt. 1987 í umræðum utan dagskrár um efnahagsákvarðanir

ríkisstjórnarinnar og réðst þar af mikilli hörku á fyrrv. fjmrh., hæstv. utanrrh., og gekk svo langt að brennimerkja þennan fyrrv. ráðherra. Með leyfi forseta sagði hæstv. fjmrh.: ,,Það stendur þess vegna, hæstv. fjmrh., enn þá á þér krafan um að draga matarskattinn til baka. Þegar þú ert búinn að því getur þú komið og rætt við samtök launafólks.`` --- Og síðan: ,,Fyrr en þú gerir það ertu brennimerktur sem maður sem ekki er hægt að treysta.``
    Við erum í dag að ræða um að fresta gildistöku virðisaukaskattsins og framlengja þannig það söluskattskerfi sem nú er í gildi. Einn þátturinn í því söluskattskerfi er skattur á matvæli, sá skattur sem hæstv. fjmrh. var að ræða í umræðum utan dagskrár fyrir rúmu ári þegar hann var í stjórnarandstöðu. Nú talar hann í umræðu um framlengingu virðisaukaskattsins og segir það án þess að segja það að hann hafi snúið við blaðinu og styðji nú svokallaðan matarskatt. Það hlýtur þess vegna að vera krafa þeirra, sem hlustuðu á hæstv. fjmrh. segja þessi orð í fyrra, að spyrja hvað hefur breyst. Hvernig stendur á því að hæstv. fjmrh. gat fyrir ári lýst því yfir að þáv. hæstv. fjmrh. væri brennimerktur nema hann drægi matarskattinn til baka, en nú þegar hann ári síðar kemur hér í þennan ræðustól og flytur framsögu fyrir fyrsta tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar, því óneitanlega er þetta það, minnist hann ekki einu orði á hvort hann sé brennimerktur maður sem ekki geti talað við samtök launafólks? Þessi orð hæstv. ráðherra frá því í fyrra eru þess eðlis að maður hlýtur að biðja um skýringar á því hvað við var átt og hvort hæstv. ráðherra vilji láta kalla sig brennimerktan mann því nú hefur hann tekið við þar sem frá var horfið og í raun og veru fetað dyggilega í fótspor fyrirrennara síns og haldið áfram þeirri stefnu að leggja skatt á matvæli. Á þetta vildi ég, virðulegur forseti, minna því að þessi ummæli hæstv. fjmrh. undirstrika kannski betur en flest önnur ummæli hve gífurlega mikil stefnubreyting hefur átt sér stað. Fyrir ári sagði hæstv. fjmrh.: Sá sem lagði á matarskattinn er brennimerktur. Nú kemur hæstv. fjmrh. í ræðustól og óskar eftir því að matarskattinum verði haldið a.m.k. út næsta ár.
    Það er alveg ljóst að frestun á gildistöku virðisaukaskattsins er auðvitað
liður í því að afla ríkissjóði tekna. Það þýðir ekkert að kenna embættismönnum um að þeir hafi ekki bolmagn eða getu til þess að breyta skattkerfinu. Þessi mál hafa verið í undirbúningi og auðvitað hefði verið hægt að gera þessar breytingar ef menn hefðu viljað. En það skal þó sagt til þess að sannsögli sé viðhöfð að þessi ákvörðun hans markast af því að fyrirrennarar hans og fyrrv. ríkisstjórn höfðu hugleitt það mál náið hvort ekki væri ástæða til að fresta gildistökunni. Og fyrrv. hæstv. ráðherra orðaði þetta beinlínis með þeim hætti, þegar hann rökstuddi þessa frestun, að með því væri hægt fyrir ríkissjóð að ná inn u.þ.b. 1200 millj. kr. sem ella mundu glatast vegna þess að nýi virðisaukaskatturinn gæfi ekki ríkissjóði jafnmiklar tekjur og söluskatturinn. Þess vegna er alveg óþarfi að fela sig á bak við embættismenn og skattkerfið. Menn

eiga að segja það sem satt er í þessu máli. Þessi frestun er auðvitað til komin vegna þess að hæstv. ráðherra þarf á þessum 1200 millj. kr. að halda.
    Fyrir nokkrum vikum gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir stöðu ríkissjóðs. Hann gerði það í framhaldi af fyrri yfirlýsingum sínum um að það hefðu orðið milljarða mistök í ríkisfjármálum hjá fyrirrennara hans, hæstv. utanrrh., sem þá fór með málefni fjmrn. Hæstv. fjmrh. sagði ekki löngu fyrir stjórnarskiptin að í raun og veru væru ytri skilyrði þjóðarbúsins ákaflega hagstæð og þau mundu áfram verða Íslendingum í hag. Þess vegna væru það ófyrirgefanleg mistök að láta ríkisfjármálin fara í þá hönk sem þau óneitanlega fóru og hæstv. ráðherra var að gera grein fyrir á Alþingi þegar hann gerði grein fyrir skýrslu sinni um ríkisfjármálin. Niðurstaða hans í þeim umræðum var sú að líklega mundi halli á ríkissjóði verða 3,5 milljarðar á þessu ári --- 3,5 milljarðar --- í stað þess að vera innan við milljarður eins og fyrirrennari hans hafði spáð í september.
    Örfáum vikum síðar, hálfum mánuði síðar, kemur svo hæstv. ráðherra í ræðustól á Alþingi og segir réttilega að það sé kannski kominn tími til fyrir hann að þegja því að í hvert skipti sem hann opni munninn bætist við milljarður á halla ríkissjóðs og nú sé líklegt að halli á ríkissjóði verði 5 milljarðar. Ef fram heldur sem horfir og hæstv. ráðherra fær að ræða meira um ríkisfjármálin getum við reiknað í huganum hve hallinn verður orðinn mikill ef hann hækkar um 1 milljarð eða 1,5 milljarða á hálfs mánaðar fresti. Við getum líka þakkað guði fyrir að hann skuli ekki hafa verið fjmrh. allt árið því þá væri hallinn alveg gífurlega miklu meiri en hann er í dag, þ.e. ef marka má orð fjmrh., að í hvert skipti sem hann opni munninn um ríkisfjármálin aukist hallinn um 1 milljarð.
    Það er ljóst að þessar nýju upplýsingar um stöðu ríkissjóðs hljóta að valda því að gera verður verulegar breytingar á því fjárlagafrv. sem nú er til úrvinnslu og meðhöndlunar í hv. fjvn. Þess vegna liggur beinast við að spyrja hæstv. ráðherra nú, þegar hann mælir hér fyrir fyrsta tekjuöflunarfrv., hvernig hann hyggist bregðast við því það hlýtur öllum hv. þm. að vera ljóst að það er tilgangslaust að afgreiða fjárlagafrv. til 2. umr. fyrr en hæstv. ríkisstjórn hefur gert upp við sig hvernig hún ætlar að mæta þeim mikla halla sem nú er fyrirsjáanlegur í ríkisfjármálunum. Þess vegna hljótum við að spyrja að því: Hvað hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera? Liggur það fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hvernig á að mæta þessum aukna halla og hvað hyggst ríkisstjórnin gera í þeim málum þar sem skiptar skoðanir hafa orðið til þess að ekki er hægt að leggja fram tekjuöflunarfrv. í þá veru sem í upphafi stóð til að gera og á ég þá sérstaklega við öryrkja- og íþróttaskattinn sem hæstv. forsrh. sló af á félagsfundi hjá Framsfl. í Reykjavík þar sem hann sagði að það væri alveg óhætt að fara gegn þessum skatti því um þennan skatt væru einungis ,,lausleg áform`` í ríkisstjórninni? Og Framsfl. í Reykjavík, trúr sinni sannfæringu, samþykkti að vera

á móti þessum skatti. Hv. þm. Framsfl. í Reykjavík, Guðmundur G. Þórarinsson, lýsti því yfir í fjölmiðlum að hann væri bundinn af þeirri samþykkt sem auðvitað þýðir að það er ekki meiri hluti fyrir þeim skatti í þingsölum.
    Ef það er svo í þessu máli að það hafi einungis verið ,,lausleg áform`` innan ríkisstjórnarinnar um þessa tekjuöflun getur verið að það sama gildi um aðrar hugmyndir hæstv. fjmrh., að um þær séu einungis lausleg áform í ríkisstjórninni en ekki samþykktir sem ríkisstjórnarflokkarnir standa að. Nú við lok nóvembermánaðar hlýtur að vera kominn tími til þess að hæstv. fjmrh. geri hreint fyrir sínum dyrum, segi hreint út á hvaða grunni 1. gr. fjárlaganna byggir um tekjuöflun ríkissjóðs. Eru samþykktir í ríkisstjórninni og þingflokkum ríkisstjórnarinnar fyrirliggjandi? Hvaða samþykktir hafa verið gerðar og hvaða frv. verða lögð fram á næstu dögum? Það hlýtur að vera lágmarksskilyrði að þau frv. verði lögð fram á Alþingi áður en 2. umr. fjárlaga fer fram. Það er nefnilega ekki hægt að ætlast til þess að hv. alþm. afgreiði fjárlög til 3. umr. nema það liggi fyrir skýrt að á Alþingi sé meiri hluti fyrir þeim tekjuöflunaráformum sem hæstv. ráðherra ætlar að leggja fyrir þingið.
    Það er ástæða til þess og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann
geti gert okkur hér og nú nákvæmlega grein fyrir því hvaða áhrif hin nýja áætlun um hallann á ríkissjóði hefur á væntanlega tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári. Ætlar hæstv. ríkisstjórn áfram að stefna að því að á fjárlögum verði niðurstaðan sú að það verði 1200 millj. kr. tekjuafgangur? Nú er tækifærið til að skýra hv. Alþingi frá því hver er afleiðingin af þessum nýja útreikningi fjmrn.
    Það er jafnframt, hæstv. forseti, ástæða til að spyrja um fleiri atriði þó að þau tilheyri ekki því litla máli sem hér er til umræðu heldur vegna þess að hér er verið að opna umræðuna um tekjuöflunarfrv. ríkissjóðs, að hæstv. ráðherra noti þetta tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum um nokkur atriði. Þess vegna vil ég spyrja: Verður frv. til l. um skatt á happdrætti lagt fram á Alþingi eða hefur stefna ríkisstjórnarinnar breyst? Í öðru lagi: Stendur til áður en 2. umr. fjárlaga fer fram að lagt verði fram á Alþingi frv. um breytingu á tekjuskattslögum sem felst í því að setja á tvö skattþrep?
    Að þessu er spurt vegna þess að hæstv. ráðherrar aðrir hafa sagt að slíkt sé nánast ógerlegt. Þarf ég ekki að vitna í hvaða mann ég á við. Það er maður sem hæstv. fjmrh. þekkir afar vel, bæði af nýjum og gömlu kynnum, enda hefur enginn gefið hæstv. forsrh. aðra eins einkunn eins og hæstv. fjmrh. þegar hann sagði að blaðrið í Steingrími Hermannssyni væri mesta efnahagsböl íslensku þjóðarinnar. Nú gæti reyndar forsrh. svarað fyrir sig og sagt að þegar hæstv. fjmrh. opnar munninn sé það mesta ríkisfjármálaböl sem uppi hefur verið á Íslandi. Þannig geta þeir skipst á ýmsum upplýsingum sem eru auðvitað gagnlegar fyrir áheyrendur um það hverjum

augum þeir líta hvor á annan.
    Þá vil ég enn fremur biðja hæstv. ráðherra um að nota það ágæta tækifæri sem hér býðst til að segja þinginu frá því hvort það standi til að leggja skatt á fjármagnstekjur eins og a.m.k. lausleg áform voru um í ríkisstjórninni á sínum tíma. Og ég vil jafnframt spyrja að því hvort það sé rétt að ekki verði lagðir skattar á vexti af ríkisskuldabréfum, spariskírteinum ríkissjóðs og hvort það sé rétt að ríkissjóður ætli þannig að láta þá sem spara fyrir ríkið njóta forréttinda fram yfir aðra sparendur í þjóðfélaginu. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji hyggilegt, æskilegt og eðlilegt að ríkissjóður njóti slíkra réttinda á meðan atvinnulífið í landinu þarf að gefa út skuldabréf sem aðrir sparendur kaupa en þurfa síðan að greiða skatta af þeim fjármagnstekjum sem af því kemur. Þetta er undirstöðuatriði og sjálfsagt alveg einstakt fyrirbrigði ef slíkt á að gerast.
    Þá vil ég enn fremur spyrja hæstv. ráðherra að því --- og taki nú hæstv. ráðherrann eftir --- hvort það geti verið að það sé hugmynd hæstv. ríkisstjórnar að leggja skatta á fjármagnstekjur innlendra sparifjáreigenda en sleppa þeim erlendu sem lána Íslendingum, en erlent fjármagn sem er í umferð í landinu skiptir mörgum milljörðum kr. Það er vitað mál að þegar íslenska ríkið og ríkisbankar og aðrir slíkir taka lán erlendis eru ekki greiddir skattar jafnvel þó að sá sparnaður myndi tekjur hér á landi. Ef hæstv. ráðherra ætlar að leggja skatta á fjármagnstekjur Íslendinga, sem hafa lagt fé til hliðar, en ekki að leggja skatta á þær tekjur sem verða til hér á landi en útlendingar eiga spariféð, þá er hann að ganga erinda útlendinga gegn Íslendingum. Ég trúi því illa að þessi fulltrúi Íslendinga á erlendri grund, einn sá frægasti sem uppi hefur verið í manna minnum, ætli að ganga erinda útlendinga með þessum hætti.
    Ég vona að hæstv. ráðherra hafi áttað sig á þessari spurningu og geti hér og nú eytt þeirri gífurlegu óvissu sem ríkir á fjármagnsmarkaðnum vegna þessa máls og vegna sífelldra yfirlýsinga um að nú eigi að taka peninga hér og taka peninga þar. Síðan hefur hæstv. ráðherra að vísu runnið af hólmi og tekið til baka orðin og sagt: Ég ætlaði ekkert að ráðast á þessa og hina. Ég ætlaði bara af taka af þessum ríku með breiðu bökin, bara þeim sem eiga 4 milljónir eða 3 milljónir, ekki þá sem eiga 1 milljón eða eitthvað þess háttar. En í raun og veru er enginn neinu nær.
    Þess vegna held ég að nú sé kjörið tækifæri fyrir hæstv. ráðherra að segja okkur frá því nú um mánaðamót nóvember og desember hvort ríkisstjórnin sé búin að taka ákvörðun í þessu máli vegna þess að hér er um tekjuöflun fyrir ríkissjóð að ræða og það er lágmarkskrafa alþingismanna að tekjuöflunarfrumvörpin verði komin fram og þau sýnd og það staðfest hvort það sé meiri hluti fyrir þeim áður en 2. umr. fjárlaga fer fram.
    Virðulegur forseti. Í trausti þess að hæstv. fjmrh. svari spurningum sem til hans er beint þrátt fyrir að það sé um önnur atriði en þau sem nákvæmlega er

verið að ræða um undir þessum ákveðna dagskrárlið læt ég máli mínu lokið.