Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Í máli hv. 1. þm. Vestf. kom fram ósk um það að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þessa umræðu. Sú ósk var studd alveg skýrum rökum. Þetta er að vísu ekki alveg nýtt mál hér inni á Alþingi. Það er gamalkunnugt, 10 ára gamalt. Þessi skattur var að vísu lækkaður í fjármálaráðherratíð hv. 5. þm. Reykv. en kemur nú inn í tillöguformi þar sem hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir að tvöfalda þennan skatt. Það hefur komið fram í umræðunni að forustuflokkur ríkisstjórnarinnar hefur lagt til sérstakar aðgerðir í þágu dreifbýlisverslunarinnar. Þetta frv. vinnur gegn þeirri yfirlýstu stefnu. Það hefur líka komið fram í umræðunni að núv. ríkisstjórn fylgir fram svokallaðri verðstöðvun. Frv. stríðir gegn þeirri stefnu. Það er þess vegna alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. taki þátt í þessari umræðu. Það er ekki unnt að láta hana fara fram án þess að þeir taki þátt í umræðunni og þingmönnum gefist kostur á að inna þá eftir þeim áleitnu spurningum sem upp hljóta að koma af þessu tilefni. Enn fremur, herra forseti, í ljósi þess að þetta er fyrsta frv. sem ríkisstjórnin leggur fram og hæstv. fjmrh. mælir fyrir sem felur í sér verulega hækkun á sköttum, og þegar fyrsta slíka stefnumarkandi frv. er til umræðu er viðeigandi að stuðningsmenn stjórnarinnar sýni einhvern stuðning á bak við stefnu hennar en hæstv. fjmrh. sé ekki hér einn og að menn eigi þess kost að ræða hér við þá aðra ráðherra sem málið snertir efnislega. Þess vegna fer ég þess vinsamlegast á leit, herra forseti, að umræðunni verði frestað þangað til þessir hæstv. ráðherrar geta verið hér við og tekið þátt í umræðunni.