Leyfi frá störfum vegna umönnunar barna
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Það eru nú ekki meðmæli með þeirri sem hér stendur að það var ekki fyrr en nú í morgun, þegar ég fór að undirbúa mig undir að mæla fyrir þessu þingmáli sem hér er á dagskrá, að ég tók eftir afleitum mistökum við framlagningu þess, og er best að taka það skýrt fram strax að þau mistök eru algjörlega á mína ábyrgð en ekki starfsmanna þingsins. Ég gerði þegar í stað ráðstafanir til þess að fá þskj. prentað upp með þeim breytingum sem áttu að fylgja handritinu frá upphafi og því hefur nú verið dreift og var dreift hér í upphafi fundar í sinni réttu mynd. En ég vil benda hv. þm. á það að í prentaðri dagskrá deildarinnar er þskj. af eðlilegum ástæðum á annan veg.
    Þetta frv. er sem sagt að finna á þskj. 135, volgu úr prentsmiðjunni, og meðflytjendur eru hv. þingkonur Þórhildur Þorleifsdóttir, Kristín Einarsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.
    Þetta frv. kom fyrst fram hér á Alþingi fyrir tveimur árum. Þá sat Sigríður Dúna Kristmundsdóttir í Ed. fyrir þingflokk Kvennalistans og bar þetta frv. fram þar. Þar hlaut frv. talsverða umfjöllun og umræður en var að þeim loknum vísað til ríkisstjórnarinnar með meiri hluta atkvæða í Ed., en vonandi fær það verðugri afgreiðslu þessu sinni.
    Þetta frv. kveður á um rétt foreldris til að taka sér launalaust leyfi frá starfi fyrstu tvö árin eftir fæðingu barns síns og að geta gengið að því starfi aftur og sömu kjörum að þeim tíma liðnum. Þetta frv. tekur ekki beint til fjárhagslegrar afkomu foreldra ungra barna heldur til atvinnuöryggis þeirra.
    Þótt hér sé vitanlega um að ræða réttindi til handa báðum foreldrum, hvort sem er móður eða föður, þá dylst það vafalaust engum að þau munu fyrst og fremst nýtast konum. Umönnun og uppeldi ungra barna fyrstu æviár þeirra hafa lengst af verið í höndum kvenna og svo er enn þótt breytinga verði nú sem betur fer vart hjá ungu fólki.
    Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist hröðum skrefum og nálgast nú atvinnuþátttöku karla. Ástæður þess að báðir foreldrar vinna utan heimilis eru margar, en oftast er þar um brýna nauðsyn að ræða.
    Í skýrslu Byggðastofnunar ,,Byggð og atvinnulíf 1985`` kemur fram að karlar höfðu að meðaltali 59% hærri laun á ársverk en konur árið 1985. Nýrri skýrsla er því miður ekki tiltæk en samkvæmt mínum heimildum er ekkert sem bendir til breytinga í þessu efni, alla vega ekki breytinga til batnaðar. Þessi mikli munur á meðaltalslaunum karla og kvenna á sér ýmsar orsakir. Ein sú veigamesta er að ábyrgð á heimili og umönnun og uppeldi barnanna hvílir að langmestu leyti á herðum kvenna og er nú kvenþjóðin orðin harla langeyg eftir einhverju áþreifanlegra en skilningi í orði hvað það varðar.
    Hinu getum við ekki breytt, og viljum auðvitað ekki breyta, að það er hlutverk konunnar að ganga með börnin og fæða þau en af því leiðir að atvinnuferill kvenna er iðulega rofinn þegar þær

eignast börn sín, flestar hverfa þá af vinnumarkaði um stundarsakir og sumar lengur en lögbundið fæðingarorlof leyfir. Því miður geta það alls ekki allar sem vilja þar eð fjárhagsástæður leyfa ekki slíkan munað, þ.e. að dvelja heima launalaust, og enn síður geta heimilin komist af án launa föður barnsins sem eins og allir vita eru oftast mun hærri en móðurinnar. Það er sem sagt oftast konan sem hverfur af vinnumarkaðnum um stundarsakir til þess að sinna börnum og heimili. Vilji hún síðan hefja störf utan heimilis á nýjan leik hefur hún sjaldnast tryggingu fyrir því að geta gengið að starfi sínu aftur og er því oftar en ekki í sporum nýliða á vinnumarkaðnum. Þetta er ein orsök þess að konur eiga mun örðugra en karlar með að byggja upp atvinnuferil sinn og það hefur þá ásamt ýmsu öðru í för með sér skerta tekjumöguleika. Hér er því m.ö.o. á ferðinni ein af orsökum lágra meðallauna kvenna. Frv. þetta miðar að því að taka á þessum þætti hins kynbundna launamisréttis og gera foreldrum kleift að hverfa tímabundið af vinnumarkaði án þess að gjalda fyrir það með algjörri óvissu um atvinnuferil að leyfi loknu.
    Þeim til hughreystingar sem vilja helst ekki að félagslegar aðgerðir kosti svo sem nokkuð í peningum skal það undirstrikað að þetta frv. hefur engan reiknanlegan kostnað í för með sér. Þetta er réttindamál sem gengur út frá því að umönnun barna eigi að vera eðlilegur þáttur í skipulagi vinnumarkaðarins. Það á að tryggja það að öryggisleysi um atvinnuferil og ótti við tekjutap síðar meir verði ekki til þess að koma í veg fyrir að foreldri geti sinnt barni sínu óskipt fyrstu tvö árin í ævi þess.
    Svo sem fram kemur í niðurlagi grg. var frv. áður flutt á 109. löggjafarþingi og var að lokinni umfjöllun vísað til ríkisstjórnarinnar, en það er ráð sem stundum er gripið til hér á hv. Alþingi þegar meiri hlutinn treystir sér ekki til að samþykkja mál sem annars þykir gott. Í nál. meiri hl. hv. félmn. í Ed. kom m.a. fram sá vilji meiri hl. að ríkisstjórnin hefði frumkvæði að því að koma á fót viðræðunefnd aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar til þess að gera tillögur um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna. E.t.v. er það fyrir áhrif þessa að í
stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar var ákvæði varðandi þetta atriði þar sem kanna átti hvernig unnt væri að gefa foreldrum færi á að fá launalaust leyfi vegna umönnunar barna ,,þegar sérstaklega stendur á,, eins og sagði í kafla um fjölskyldu- og jafnréttismál á bls. 22 í starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Ekkert slíkt er að finna í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er hvorki viðamikið né flókið og ætti ekki að þurfa frekari skýringar við. Við sem stöndum að því leggjum það nú fram öðru sinni í þeirri von og í trausti þess að umræða síðustu ára hafi opnað augu nægilega margra til þess að tryggja slíku máli framgang, máli sem krefst engra fjárútláta,

hvorki af hálfu ríkisins né annarra aðila, og kann e.t.v. að þykja léttvægt á mælistiku þjóðfélagsins en er mikilvægt réttindamál fyrir ung börn og foreldra þeirra.
    Að svo mæltu legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.