Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram og öllum hv. þm. er kunnugt er hér svo sem ekki nýtt mál á ferðinni. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því í framsöguræðu sinni hvernig hann hefði barist fyrir þessu máli sem nýr þingmaður hér 1978 og dyggur stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem fann þetta upp. Þá var hæstv. núv. forsrh. ráðherra í þeirri ríkisstjórn og fjmrh. var þá Tómas Árnason, sem mælti fyrir frv. á haustþingi 1978. Þá var gert ráð fyrir að þessi sérstaki skattur yrði lagður á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og væri 1,4%. Og þá var honum ætlað að gefa ríkissjóði 550 millj. gamalla króna, þ.e. á árinu 1979.
    Rökstuðningurinn fyrir skattlagningunni þá var í fyrsta lagi að þessi skattur yrði lagður á til þess að draga úr þeirri þróun sem orðið hafði, að menn verðtryggi fé sitt í verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eins og það hét hjá hæstv. þáv. fjmrh. Þá voru að vísu ekki alveg sömu möguleikar og kannski eru nú á að tryggja fé sitt. Það dugði ekki þá sem nú að leggja fé sitt inn á bankareikninga. Nú er svo komið að hæstv. núv. ríkisstjórn þykir sem menn fái of mikið í sinn hlut ef þeir hafa fé sitt á bankareikningum. Þess vegna eru nú uppi ráðagerðirnar um að lækka vextina með handafli eins og það hefur verið kallað. Þá kann að vakna freisting hjá mönnum, eins og var áður, að tryggja fé sitt í steinsteypu og þá er fundið ráðið núna til þess að koma í veg fyrir það með því að hafa uppi ráðagerðir um að tvöfalda þennan sérstaka skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Og það er það sem hér er gert ráð fyrir, að skatturinn fari í 2,2% og álagningin er áætluð 410 millj. kr. á árinu 1989, en innheimtan 425 millj. kr. að meðtalinni innheimtu af eftirstöðvum fyrri ára eins og segir í grg. með frv. Sem sagt: Til þess að koma í veg fyrir það að menn fari að fjárfesta áfram í skrifstofu- og verslunarhúsnæði á að leggja á skatta og þá dugar ekkert minna en 100% hækkun frá því sem nú er.
    Það má sjálfsagt til sanns vegar færa að fjárfesting í verslunar- og skrifstofuhúsnæði hafi verið mikil og e.t.v. úr hófi hér á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Maður verður sjálfsagt að álykta svo ef rétt er hermt að mikið af slíku húsnæði standi nú ónotað, engin sé eftirspurnin, hvorki til að kaupa það né taka það á leigu. En ég næ því ekki alveg saman hvers vegna þá skuli vera tvöfaldaður skatturinn ef nota á þennan rökstuðning. Ætli það dugi ekki til þess að draga úr mönnum kjarkinn að fara að byggja frekar skrifstofu- og verslunarhúsnæði, ef það sem fyrir er gengur ekki út? Ég skil ekki að menn haldi áfram að byggja slíkt húsnæði ef þetta er svona sem sagt er, að það seljist ekki og heldur ekki sé hægt að leigja það. Það skyldi þó aldrei vera að þarna liggi annað á bak við en það að reyna að leiða menn á réttar brautir í fjárfestingum? Það skyldi ekki vera það að alþýðubandalagsmenn geti látið gamlan draum sinn rætast, að reyna að ná sér niðri á þeim sem stunda verslun og viðskipti í landinu? Núna hafa þeir fjmrn.

og óneitanlega betri aðstöðu en áður til að koma þessu áhugamáli sínu fram. Og því skyldu þeir ekki nota þá aðstöðu sína? Þeir geta vafalaust reiknað með stuðningi frá ýmsum í röðum framsóknarmanna og alþýðuflokksmanna þótt þeir flokkar hafi ekki áður fallist á að tvöfalda skattinn.
    Sannleikurinn er nefnilega sá að hér er um að ræða eina aðförina að atvinnurekstrinum í landinu, að vísu atvinnugrein sem aldrei hefur átt neitt sérstaklega upp á pallborðið hjá þeim alþýðubandalagsmönnum.
    En við vildum gjarnan fá að vita hvað þeir framsóknarmenn segja um þetta. Þess vegna var óskað eftir því að hæstv. forsrh. og formaður flokksins yrði viðstaddur þessa umræðu og ég fagna því að hann hefur séð af tíma til þess að vera hér við umræðuna. Það hefur þegar verið minnst á það hér í umræðunni að tillögur hafi verið uppi á flokksþingi Framsfl. um að styrkja með opinberum framlögum dreifbýlisverslunina í landinu. Ég held að það sé alveg ómögulegt að segja að þær ráðagerðir sem hér eru uppi með þessu frv. séu líklegar til þess að renna stoðum undir dreifbýlisverslunina í landinu eða verslunina yfirleitt.
    Þess vegna er alveg nauðsynlegt að fá upplýst hjá hæstv. forsrh. og formanni Framsfl. hvort það sé rétt sem hæstv. fjmrh. sagði hér í umræðunni í dag --- hann greip reyndar fram í ræðu þingmanns sem var í ræðustól --- að þetta væri stefna Framsfl. og hún birtist hér í þessu frv. Og það er afar mikilvægt að fá því svarað þegar við 1. umr. hvort hæstv. fjmrh. hafi skýrt rétt frá og verið að túlka hér með framlagningu frv. stefnu Framsfl.
    Maður veit ekki hvort þær tillögur, sem uppi voru á borðum framsóknarmanna á flokksþingi þeirra og fluttar voru af kaupfélagsstjóran KEA, hafa kannski bara verið hugsaðar til þess að styðja við kaupfélagsverslunina í landinu. Það kæmi í sjálfu sér ekkert á óvart þó hugsunin hafi ekki náð lengra heldur en til þess að styðja við kaupfélagsverslunina. En það fáum við sjálfsagt upplýst líka. Mér sýnist að í þessu felist alveg dæmalaus tvískinnungur. Það er verið að leggja skatta á eina atvinnugrein um leið og a.m.k. einn stjórnarflokkurinn er að tala um að nauðsynlegt sé að styrkja þá sömu atvinnugrein, alla vega úti á landsbyggðinni. Það sem veita á með annari hendinni skal sem sagt tekið aftur með hinni.
    Mér er alveg ljóst að Sjálfstfl. kyngdi því á sínum tíma eftir að hann kom í ríkisstjórn 1983 að þessum skatti var viðhaldið. En skatturinn var þá lækkaður eins og hér hefur þegar komið fram. Í fjármálaráðherratíð hv. þm. Alberts Guðmundssonar var hann lækkaður úr 1,4% í 1,1% og þannig hefur hann haldist síðan. Og það er mikill munur á því hvort þessi skattur er 1,1% eða 2,2% eins og nú er lagt til.
    Raunar er það heldur ekki ný tillaga að skatturinn skuli fara í 2,2%. Þegar framlenging skattsins var til meðferðar í hv. Ed. fyrir einu ári lýsti núv. hæstv. menntmrh. Svavar Gestsson þeim draumi sínum að skatturinn yrði hækkaður. Og ekki bara það, heldur

yrði þetta varanlegur skattur þannig að ekki þyrfti að vera að þvælast með þetta mál fyrir Alþingi á hverju einasta hausti. Hann yrði gerður varanlegur og hann yrði hærri. Núv. hæstv. menntmrh. fékk góðar undirtektir við þessa draumsýn sína. Þær fékk hann hjá fulltrúa Kvennalistans sem talaði í hv. Ed. Og þær eru staðfastar í trúnni kvennalistakonur eins og menn vita svo ríkisstjórnin getur sjálfsagt dregið andann léttara og treyst því að frv. nái fram að ganga hér í hv. Nd. Þar er sjálfsagt komin skýringin á því hvers vegna frv. er lagt fram í hv. Nd. en ekki hv. Ed. eins og þótt hefur öruggara með þau frv. sem þeir vita ekki alveg með vissu hvort hafi meiri hluta í báðum deildum. Það er sjálfsagt skýringin á því að málið er nú til umræðu hér í Nd.
    Þegar þetta hliðstæða mál var til meðferðar í Nd. í fyrra flutti hæstv. núv. samgrh. Steingrímur Sigfússon till. um tvöföldun skattsins, þ.e. að hann færi í 2,2% eins og núna er lagt til. Við þann tillöguflutning sinn naut hann stuðnings fulltrúa frá Kvennalistanum, hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Þetta sýnist þess vegna allt vera blúndulagt og þótt þeir framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn hafi verið á móti tvöföldun skattsins í fyrra þá gegnir auðvitað allt öðru máli núna. Það eru allt aðrir menn með þeim í ríkisstjórn og það þarf auðvitað að gera eitthvað fyrir Alþb. Það gengur auðvitað ekki til lengdar að vera alltaf að ergja ráðherra Alþb. með alls konar leiðindauppákomum eins og þeir kratarnir hafa verið með á þessum stutta tíma sem núv. ríkisstjórn hefur starfað. ( Fjmrh.: Þeim fer nú að fækka líka.) Ja, við eigum eftir að sjá það. Við eigum eftir að sjá það. Við bíðum og sjáum hvað setur. Þeir hafa verið að breyta afstöðu Íslands, svo ég nefni dæmi, við atkvæðagreiðslur á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þannig hafa þeir verið að færa utanríkisstefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar til þeirrar utanríkisstefnu sem rekin var í tíð fyrri ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og hverfa þannig af þeirri braut sem utanrrh. Steingrímur Hermannsson markaði í fyrra. Svo eru kratarnir líka með meiningar um varaflugvöll sem kostaður yrði að einhverju leyti að mannvirkjasjóði NATO. Og þeir eru líka jafnvel að tala um stækkun álversins í Straumsvík. Allt er þetta auðvitað til þess að ergja ráðherra Alþb. og getur auðvitað ekki gengið nema að eitthvað komi í staðinn til að þeir megi halda þessum hætti áfram að vera að pirra svona ráðherra Alþb.
    Ég ætla að ítreka þá spurningu sem hér hefur komið fram og biðja hæstv. forsrh. að svara henni, hvort það ríki ekki verðstöðvun hér á landi. Við höfum litið svo á og hv. 1. þm. Vestf. nefndi það í sinni ræðu fyrr í dag. Samningar um kaup og kjör hafa ekki verið settir í gildi svo vitað sé. Sem sagt: Almenningur á að þola kjaraskerðinguna en ekki ríkið. Á meðan launþegar fá ekki umsamin laun, og með þessu er ég ekkert að segja að staðan leyfi það, á ríkið hins vegar að fá sitt, og ekki bara það sem það hafði, heldur þarf það að fá viðbót. Það þarf að fá viðbót. Þessi skattur er hækkaður um 100%. Hver á

að greiða þessa viðbót? Og ekki bara þessa því fjárlagafrv. segir okkur að meira eigi eftir að koma. Það eru auðvitað skattgreiðendurnir í landinu. Og ef það er ekki hinn almenni skattborgari þá á að auka óréttlætið með sérstakri skattlagningu sem tekur aðeins til hluta borgaranna og leggst á tilteknar fasteignir en ekki allar.
    Ég legg áherslu á það að við sjálfstæðismenn vorum andvígir þessari skattheimtu þegar hugmyndin kom fyrst fram 1978 og þegar frv. var þá samþykkt hér á hv. Alþingi. Að skattlagningunni stóðu þá sömu flokkar og standa að þessum hugmyndum núna um tvöföldun skattsins. Við sjálfstæðismenn beittum okkur fyrir lækkun skattsins 1983, eins og ég sagði áðan, þegar ekki voru aðstæður til þess að fella hann að fullu niður. Nú eru tillögurnar í þá átt að tvöfalda skattinn og því erum við sjálfstæðismenn algerlega andvígir.
    Það hefur verið óskað eftir því að hæstv. viðskrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Ég ítreka þá ósk að þessari umræðu ljúki ekki öðruvísi en að hæstv. viðskrh. verði viðstaddur framhald hennar. Hann þarf að gera grein fyrir því hver verðlagsáhrif frv. eru ef samþykkt verður. Það er nauðsynlegt að við fáum þær upplýsingar og því þarf hæstv. viðskrh. að svara. Ef hann getur ekki verið við umræðuna nú óska ég eftir að umræðunni verði frestað.