Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Hæstv. forseti. Það voru einkum nokkur atriði í ræðu hv. 1. þm. Sunnlendinga sem urðu til þess að ég kvaddi mér hljóðs nú. Ég verð að játa það að ég er afar undrandi á þeim ræðum sem fyrrv. forsrh. íslensku þjóðarinnar flytur hér á Alþingi þessa dagana. Einhvern veginn er það svo að helst koma manni í hug sögur þjóðsagnanna um umskiptinga þegar maður heyrir þessar ræður. Ég veit eiginlega ekki almennilega hvar þessi maður hefur verið. Menn hljóta að verða að hafa það í huga að ræðumaðurinn sem flytur þessar ræður var forsrh. íslensku þjóðarinnar fyrir örstuttum tíma og var það í nokkuð langan tíma.
    Þegar staða atvinnuveganna er rædd komast menn auðvitað ekki hjá því að velta því fyrir sér hvernig sú staða hefur komið upp og þá verða menn að skoða það að þessi ræðumaður, hv. 1. þm. Sunnlendinga, var forsrh. íslensku þjóðarinnar í miklu góðæri. Hann var forsrh. íslensku þjóðarinnar á árum þegar fiskveiðar voru með því mesta sem Íslendingar hafa haft, þegar viðskiptakjör voru tiltölulega góð, og líklega með þeim bestu sem við höfum búið við ef litið er yfir nokkuð langan tíma, og útflutningur mikill, ytri aðstæður því góðar. Árangurinn af þessum valdaferli hv. 1. þm. Sunnlendinga er hins vegar sá að þrátt fyrir þetta góðæri kemur íslenska þjóðin út úr þessu stjórnartímabili fyrrv. forsrh. þannig að viðskiptahalli hefur aukist um 20 milljarða á stjórnartíma hans, eða nálægt því 25% aukning á erlendum skuldum sem eru að verulegu leyti eyðsluskuldir. Ekki bara viðskiptahalli og ekki bara gífurleg aukning á erlendum skuldum, heldur er staða útflutningsatvinnuveganna með slíkum hætti að menn velta því fyrir sér hvernig hægt hafi verið að koma þeim í slíka stöðu á svo stuttum tíma. Gjaldþrot blasa við um allt land og almennur samdráttur og eignatilflutningur innan þjóðfélagsins er með algjörum eindæmum frá þessari stjórnartíð hv. 1. þm. Sunnlendinga, ekki bara á milli einstaklinga og milli fyrirtækja, frá útflutningsfyrirtækjum yfir í þjónustugreinar, heldur á milli landshluta líka. Um allt land standa menn og spyrja sig: Hvernig var þetta hægt? Hvernig gat þáv. forsrh., hv. núv. 1. þm. Sunnlendinga, komið íslensku efnahagslífi í þessa stöðu á svo stuttum tíma sem hann var forsrh.? ( Gripið fram í: Var hann einn í stjórninni?) Hann var yfirmaður efnahagsmála. Því segi ég það, sérstaklega vegna þeirra ræðna sem þessi þingmaður flytur hér nú.
    Nú hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum. Hún hefur leikið biðleik sem ég vil kalla. Hún hefur gripið inn í efnahagslífið á ýmsan hátt til þess að skapa ráðrúm til efnahagsaðgerða. Hún ætlar að nota þann tíma til þess að móta efnahagsstefnu. Hún er hins vegar vart tekin við völdum þegar þessi hv. þm., forsrh. og yfirmaður efnahagsmála á Íslandi á þeim tíma þegar þessi staða skapaðist, stendur upp og fær ekki með orðum lýst vanþóknun sinni á því að núv. ríkisstjórn sé að koma öllu á kaldan klaka.
    Ég verð að játa það að ég er afar undrandi á

þessum málflutningi. Ég skil hann ekki og ég held að nær hefði verið að hæstv. fyrrv. forsrh. tæki jákvæðar á málunum og reyndi að bæta úr þeirri stöðu, sem hann átti svo drjúgan þátt í að koma þjóðinni í, en að nálgast málin á þennan hátt. Ég verð að játa það að eftir að hafa hlustað á þessar ræður hv. 1. þm. Sunnlendinga hér dag eftir dag, að hluta endurteknar, um ástandið sem hann á sterkastan þátt í að komið hefur upp í efnahagslífi Íslendinga og menn eru enn að spyrja sig að um allt land hvernig hægt var að koma á, er ég ekkert undrandi á því þó að almenningur kalli þessa samkundu stundum leikhús. Ef þetta er ekki leikaraskapur veit ég ekki hvað er leikaraskapur í stjórnmálum. Það hlýtur að vera leikaraskapur þegar þingmaður sem slíka ábyrgð ber, sem nýkominn er úr slíkum valdastól sem hann hefur verið í, með þá ábyrgð og þau völd sem hann hafði sem forsrh. og yfirmaður efnahagsmála á Íslandi, flytur slíkar ræður rétt kominn úr þessum stól og á engin orð til að lýsa vanþóknun sinni á því að ríkisstjórn sem nýkomin er til valda skuli ekki í einu vetfangi verið búin að kippa þessu öllu í lag.
    Ég skal hins vegar taka undir það að þessi ríkisstjórn sem nú situr við völd á mikið starf fyrir höndum. Hún á eftir að móta skýra efnahagsstefnu. Ég er einn af þeim sem bíða eftir því og binda við það vonir að það takist á þeim tíma sem hún hefur til ráðstöfunar á meðan þessi biðleikur varir sem gripið var til. Ég lýsti því yfir hvað eftir annað á meðan valdaferill hv. 1. þm. Sunnlendinga var sem forsrh. að sú efnahagsstefna sem þá var rekin væri hættulegasta efnahagsstefna sem ég hefði séð í framkvæmd á Íslandi frá því að ég fór að fylgjast með stjórnmálum. Þessu lýsti ég yfir bæði í blöðum, útvarpi og sjónvarpi og fékk þó ekki ráðið um breytingar. Fyrst og fremst hygg ég að þar hafi fastgengisstefnan ráðið mestu. Ég hef margsinnis lýst því yfir að það er mín skoðun að gengisstefna, önnur en sú sem tryggir útflutningsatvinnuvegunum sæmilega örugg starfsskilyrði, gengur ekki á Íslandi.
    Vaxtastefnan fór óneitanlega í vitleysu í stjórnartíð hv. þm. Þorsteins Pálssonar, ekki kannski fyrst og fremst vegna þess frelsis sem menn vildu eða voru að reyna að láta ríkja, heldur vegna þess að ríkisstjórnin breytti
aðstæðum stöðugt þannig að vaxtakerfið réð aldrei við neina aðlögun. Á sama tíma og ríkissjóður fer fram á milljarða eftir milljarða úr þessu innlenda lánakerfi og fastgengisstefnan setur útflutningsatvinnuvegina í slíka bóndabeygju að forstjórar þeirra standa allir í biðröðum í bönkunum til þess að fá lán er alveg augljóst að vaxtakerfið nær ekki nokkurri aðlögun.
    Ég held, þegar litið verður yfir Íslandssöguna, að menn muni skoða valdaferil hv. 1. þm. Sunnlendinga með mikilli athygli, þann tíma sem hann var forsrh., hversu mjög efnahagslíf íslensku þjóðarinnar hallaðist á þeim tíma og hversu mikil átök það verða við að koma því í lag aftur. Í ljósi þess hljóta menn að lesa ræður hans og hlusta á þær sem nú eru fluttar. Og þá hygg ég að dómur sögunnar um þennan hæstv. fyrrv.

forsrh. okkar verði ekki hagstæðar.