Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Frv. til laga, sem hér er flutt, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, hef ég ekki trú á að verði til þess að leysa þann efnahagsvanda sem þjóðin býr við.
    Í fyrsta lagi held ég að hæstv. núv. fjmrh. þyrfti að gera sér grein fyrir því að skattstofn Íslendinga er takmörkuð auðlind. Það er ekki hægt að sækja skatta í vasa borgara og fyrirtækja endalaust. Annars væri löngu búið að hækka þetta upp úr öllu valdi. Það eru ákveðin takmörk fyrir því hvað hægt er að sækja í vasa borgaranna. Það eru akkúrat þau mörk sem eru deiluefni hér.
    Matthías Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., sagði hér að hægt væri að leysa þetta með því að leiðrétta gengið. Ég er sammála því. Það er vegna þess að gengisskráningin er röng sem viðskiptahallinn hefur orðið svona mikill. Um það er talað nú að raungengið geti verið rangt í dag upp á 20%.
    Ég ætla að lesa úr lögum um Seðlabanka Íslands, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd, en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina.`` Hæstv. ríkisstjórn getur ekki skráð gengið eins og henni sýnist. Þar að auki má benda á að það samrýmist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að gera þessa eigur fyrirtækja upptækar með þessum hætti. Menn eru eitthvað að vandræðast yfir því að sjávarútvegurinn skuldi orðið svo mikið í erlendum gjaldeyri að ekki sé hægt að fella gengið þess vegna. Hver ber ábyrgð á því? Er það ekki ríkissjóður? Þessu hefur verið troðið upp á þessi fyrirtæki. Þeir geta leiðrétt gengið og tekið þennan mismun á sig. Það er vandalaust.
    Í dag láta menn líta svo út sem verið sé að leysa einhvern vanda með því að skuldbreyta yfir í erlend lán. Hvað skeður svo þegar gengið verður lagað, þegar loksins kemur að því að menn neyðast til að viðurkenna þetta? Þá fá menn þessa snöru um hálsinn á sér.
    Hefur verslunin á landsbyggðinni efni á að borga þennan skatt sem hér er flutt frv. um? Ég held ekki. Og hvað með sjávarútvegsfyrirtækin sem þurfa að borga líka þennan skatt af því skrifstofuhúsnæði sem þau hafa? Hafa þau efni á því að borga þetta? Það held ég hreint ekki. Ég held að það sé deginum ljósara að þessir peningar sem verið er að leggja til að verði sóttir til þeirra eru ekki til. Þetta er því enn eitt dæmið um þá sýndarmennsku sem maður verður vitni að þessa dagana.
    Herra forseti, er hægt að fá hæstv. fjmrh. í salinn? Hann var hér einhvers staðar. ( Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess. Hann er hér.) Ég ætlaði að spyrja hann einnar spurningar varðandi fjárlög þessa árs. Er ríkissjóður búinn að eyða því sem ákveðið var að eyða á fjárlögum þessa árs? Og ef hann er kominn fram yfir eins og hefur gerst áður, er hann þá á fittinu? ( Gripið fram í: Er hann hvað?) Á fittinu.

Hæstv. fjmrh. ætti að kynna sér ákvæði stjórnarskrárinnar um það að ekki er heimilt að greiða fé úr ríkissjóði nema samkvæmt fjárlögum eða þá aukafjárlögum sem hann ætti þá að manna sig upp í að búa til. Aðalatriði málsins er hins vegar það, varðandi þetta frv., að þeir peningar sem menn ætla að sækja eru ekki til. Og sú skattagleði sem hér er boðuð leiðir bara til þess að fólk hættir að vinna yfirvinnu sem þýðir minni peningur í kassann og það dregur úr verslun sem þýðir líka minni peningur í kassann. Þetta gæti þýtt það að ríkissjóður fengi í kassann 20--30% minna á næsta ári en hann áætlar. Þetta eru staðreyndir.