Áfengiskaup handhafa forsetavalds
Mánudaginn 05. desember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég sagði að það væri ekki ætlun mín að efna til almennra umræðna um þetta mál hér nú. Ég mun halda við þann ásetning minn og ekki fara að minnast á ýmis atriði sem hér hafa komið fram og gæti verið ástæða til þess að ræða frekar.
    Ég vil aðeins segja það við hæstv. forseta að ég hef þá trú að hæstv. forseti komist að hinu sanna í þessu máli áður en lýkur og það þurfi aðeins að gæta þess að ekki ríki neinn misskilningur í þessu.
    Hæstv. forseti vitnaði til ákvörðunar ríkisstjórnar frá 1971. Það vill svo til að ég er með blað um það efni og formálann fyrir því sem samþykkt var. Þar eru tíundaðar þær reglur sem þá giltu um áfengiskaup á kostnaðarverði og taldir upp allir aðilar, fyrst forseti Íslands, síðan handhafar forsetavalds o.s.frv. Það eru gerðar breytingar á þessum reglum nema um forseta Íslands og handhafa forsetavalds.
    Hæstv. fjmrh. lét liggja að því, en það var kannski misskilningur, að ég héldi fram að það ætti að ríkja launung á slíkum málum sem þessu og almenning varða. Það er misskilningur. Ég tók skýrt fram að það sem ég legði áherslu á væri að það yrði starfað þannig að það væru hafðar í huga almennar stjórnskipunar- og stjórnsýslureglur, svo sem um hlutlæga meðferð. Og ég sagði: Fylgja verður föstum almennum reglum um hvaða upplýsingar yrðu birtar í stað þess að láta handahóf og tilviljanir ráða.
    Hv. 2. þm. Vestf. var með dylgjur um það og harmaði það að ég hefði skýrt rangt frá áfengiskaupum mínum. Sárt bítur soltin lús. Hann mun eiga við viðtal sem ég átti við Sjónvarpið þar sem ég var spurður um áfengiskaup mín og þar nefndi ég tölurnar 100--200 flöskur. Það mun hafa misskilist þannig, og ég vil ekki fría mig neinni ábyrgð af því, hef sjálfsagt ekki talað nógu greinilega, að þetta var talið að væru áfengiskaup á hverju ári í fimm ár. En það sem ég meinti eða ætlaði að segja var að þetta hefði verið magnið í hvert sinn sem ég hefði gert kaup. Þegar ég tók eftir því að þarna hafði verið um misskilning að ræða bað ég Sjónvarpið, sem hafði birt þessi ummæli, að leiðrétta þetta skýrt og greinilega og það var gert. Ég hef að sjálfsögðu engu að leyna í þessu efni.