Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér hefur verið á dagskrá er eitt af þýðingarmeiri málum sem varða íslenskan sjávarútveg, þ.e. staða skipasmíðaiðnaðar í landinu. Það er ekkert launungarmál að það var ætlunin að þetta mál yrði á dagskrá fyrir viku síðan. Það hafði verið undirbúið með þeim hætti að fjölmargir málmiðnaðarmenn héðan af Reykjavíkursvæðinu höfðu hug á að fá að fylgjast með þessari umræðu en fóru hingað erindisleysu fyrir viku þar sem málið komst ekki á dagskrá. Nú er sú staða komin upp á nýjan leik að á þingpöllunum eru mjög margir málmiðnaðarmenn af Reykjavíkursvæðinu sem höfðu haft hug á því að fá að fylgjast með umræðum um þetta mál. Því harma ég það, virðulegi forseti, að þetta mál skuli tekið út af dagskrá þó að ég viðurkenni fúslega að það mál sem nú fer á dagskrá, staða íslensks sjávarútvegs, er ekki síður mikilvægt. En gagnvart þeim gestum okkar sem sitja á þingpöllum og ætluðu að fylgjast með þessu máli væri æskilegt að fá að vita hvenær framhaldsumræðan fer fram.