Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. 7. þm. Reykn. verður forseti að lýsa því yfir að nú skilur hann ekki alveg verklag þingsins eða til hvers er ætlast af forseta. Sjálfur er hann formaður þingflokks eins stjórnarandstöðuþingflokksins sem beðið hefur um umræðu utan dagskrár. Forseti hefur orðið við því þrátt fyrir miklar annir þingsins. Ég hlýt því að spyrja: Er hægt að ætlast til þess að forseti sameinaðs Alþingis miði verklag þingsins við það hvort ákveðnir hópar úti í þjóðfélaginu vilja fylgjast hér með umræðum? Til þess hef ég gert tilraun með því að hér hefur verið gefin út verkáætlun þingsins. Hv. þm. hafa síðan beðið um hverja utandagskrárumræðuna á fætur annarri og vilji þingmenn hafa áheyrendur eða að fólk úti í þjóðfélaginu vill fylgjast með umræðu, þá er eina leiðin til þess að forseti geti haldið þeirri dagskrá sem boðuð hefur verið. Ég mun því reyna að lokinni þessari umræðu um þingsköp að standa við það sem ég hef sagt, að umræða utan dagskrár fer fram að beiðni m.a. hv. 7. þm. Reykn. og frá því verður ekki vikið nema þingheimur mótmæli því.