Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Mér fannst nokkuð merkileg yfirlýsing hæstv. sjútvrh. að ein leið til þess að bæta stöðu sjávarútvegsins nú um stundir væri það að stefna að því að fá meira verðmæti og auka gæðastjórnun, með því væri hægt að laga stöðu sjávarútvegsins nokkuð. Í sambandi við þá ráðleggingu mundi ég óska eftir því að þeir sem það gerðu þyrftu ekki að eiga von á því að sjútvrn. sækti þá menn með lögum og reyndi að hnekkja á þeim vegna þess að þeir væru að gera þá hluti. Það er hægt að hvetja menn til að gera hluti sem þessa en ég tel það nokkuð vafasamt að hægt sé að kalla það siðlegt ef á sama tíma eru þeir hlutir gerðir eins og þeir sem hafa verið gerðir gagnvart fyrirtækinu Jökli hf. á Hellissandi. En ekki meira um það.
    Við höfum heyrt hér ræður tveggja fyrrv. ráðherra úr síðustu ríkisstjórn, hæstv. fyrrv. forsrh. og núv. sjútvrh. Þeir hafa dregið upp dökka mynd af stöðu sjávarútvegsins, annar eftir það að hafa verið forsrh. í rúmt ár og ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hinn eftir það að hafa verið sjútvrh. undanfarandi rúm fimm ár og er það enn. Þeir hafa lýst því yfir héðan úr þessum ræðustól í dag að búast megi við því að mörg fyrirtæki geti ekki hafið starfsemi eftir áramót. Þetta er lýsing hæstv. ráðherra á þeirra eigin störfum. Mér finnst að það hafi verið fleiri í fílabeinsturni en ráðherrann sem sat inni við Hlemm. Það er eins og líka hafi verið fílabeinsturn við Lindargötuna og nú upp á síðkastið við Skúlagötuna og líka hér við Lækjartorg.
    Sú umræða sem hér hefur verið og á sjálfsagt eftir að halda áfram í kvöld staðfestir hverslags ráðleysi hefur verið hér á undanförnum árum og ekki síst á síðustu missirum og mánuðum, staðfestir það að meginhluti fiskvinnslufyrirtækja á landinu stendur nú frammi fyrir því að eiginfjárstaða þeirra er komin niður fyrir núllið. Því hefur verið lýst héðan úr þessum ræðustól núna að sum þeirra séu þannig á vegi stödd að þau eigi ekki nema brot --- Nú, forseti biður mig um það að hætta hér ræðu minni. Mér er ljúft, ef það getur lagað til fyrir hv. þm. sem forseti nefnir, að lofa honum að komast hér að. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Ég get haldið ræðu minni áfram í kvöld.