Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það vakti nokkra athygli, sem fram kom í máli hæstv. sjútvrh., hvað það vakti mikinn fögnuð hjá honum að þessi umræða skyldi nú fara fram á Alþingi. Hann margendurtók þakklæti sitt til stjórnarandstöðunnar fyrir að hafa haft frumkvæði að þessari umræðu. Það vakti líka athygli að ráðherrann lýsti því yfir að það væri ekki bara ríkisstjórnin sem stæði frammi fyrir vanda í sjávarútvegi, sem hér væri til umræðu, heldur væri sá vandi þingsins alls.
    Það er núna liðið u.þ.b. eitt og hálft ár síðan fram fór mikil pólitísk þjóðmálaumræða. Þá fór Framsfl. með forræði fyrir sjávarútvegsmálum eins og hann gerir nú. Og þá var líka forustan í ríkisstjórninni í höndum Framsfl. Ein megináherslan hjá Framsfl. í þeirri umræðu var að sýna fram á hversu giftusamlega hefði tekist í málefnum sjávarútvegsins þau fjögur ár sem hann hafði þá farið með þau mál. Það var ekki eins og menn væru að lýsa þeim árangri í íslenskum krónum, heldur var talað um að verðmæti sjávarafurða hefði aukist um 500 millj. dollara frá því að Framsfl. fór að stjórna hér veiðum og vinnslu, 500 millj. dollara. Þetta var boðskapur Framsfl. til þjóðarinnar þá. Og var það nokkuð mikið þó að fólkið í frystihúsunum, sem fékk að heyra þennan boðskap, vildi fá einhverjar íslenskar krónur af þessari köku? Og var það heldur nokkuð mikið þó að sjávarútvegurinn og fiskvinnslan færu að leitast við að laga ýmislegt til hjá sér? Þetta var árangur sem Framsfl. skilaði þjóðinni og þessu ætlaði Framsfl. að halda áfram.
    Nú er liðið rúmlega eitt og hálft ár frá því að þessi umræða fór fram og enn þá ræður Framsfl. yfir sjávarútvegsmálum og enn þá fer Framsfl. með forustu í ríkisstjórn og menn beri nú saman hvernig til hefur tekist.
    Það er vissulega ástæða til að rifja upp þá umræðu sem hæstv. núv. forsrh. hefur sérstaklega haft í frammi á síðustu vikum og mánuðum. Þegar septemberstandið var á honum lýsti hann því m.a. yfir að hans þolinmæði væri fyrir löngu þrotin vegna þess að ekki hefðu verið hafðar í frammi aðgerðir til að bæta hag sjávarútvegsins í landinu og koma efnahag þjóðarinnar á réttan kjöl. Fyrsti boðskapur ríkisstjórnarinnar, þar sem þrír ráðherrar voru í málsvari, byggðist alveg sérstaklega á því að nú væri verið að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það væri í rauninni umhugsunarefni og athugunarefni hvað hæstv. forsrh. er búinn að lýsa þessari gangsetningu oft yfir á þeim stutta valdaferli sem núv. ríkisstjórn hefur haft.
    Þetta rifja ég sérstaklega upp til að vekja athygli á því hvernig þessi umræða af hendi Framsfl., sem hefur verið í forræði fyrir þessi mál, hefur þróast bæði fyrr og síðar. Þegar þetta er rifjað upp þarf engan að undra þó að nálega ekkert nýtt hafi komið fram í ræðu hæstv. sjútvrh. áðan.
    Á það hefur verið bent áður, m.a. af mér, að afstaða núverandi ríkisstjórnar liggur fyrir að því er

varðar sjávarútvegsmál og aðgerðir í efnahagsmálum. Þær niðurstöður liggja fyrir í frv. til fjárlaga sem nú bíður 2. umr. og þetta hefur verið rakið að stórum hluta til af hv. 1. þm. Vestf. En í forsendum frv. er þó kveðið enn skýrar að að því er varðar laun og verðþróun því þar er beinlínis gert ráð fyrir að laun lækki á árinu að raungildi um 8--9%. Boðskapur hæstv. sjútvrh. að þessu leyti er því ekkert rýr. Hann er bara endurtekning á því sem kemur fram í fjárlagafrv.
    Nú er það svo að öðru hvoru hafa ráðherrarnir verið að tala um gengisfellingu og á tímabili talaði t.d. hæstv. forsrh. um að það væri alveg nauðsynlegt að lagfæra gengið. Ég held að það hafi verið sl. föstudag sem allar yfirlýsingar um það voru dregnar til baka og kannski hefur það verið niðurstaðan af langa fundinum sem forsrh. var áður búinn að boða að ætti að halda í ríkisstjórninni þar sem málefni sjávarútvegsins yrðu algerlega krufin til mergjar. Það sem virðist hafa komið út úr þeim fundi var sem sagt áréttingin um að genginu ætti ekki að breyta.
    Áherslur sjútvrh. um kauplækkun áðan eru virkilega umhugsunarefni. Ég veitti því sérstaklega eftirtekt að verkalýðsforingjar Alþfl. fylgdust vel með þeirri umræðu. Þeir voru þá mættir í þingsal, bæði Karvel Pálmason og Karl Steinar Guðnason, og fylgdust vel með orðum ráðherrans. Það skyldi þó ekki vera að hæstv. sjútvrh. væri með þessu að segja þeim í Alþfl. fyrir um það að þeir skyldu velja á milli þess að lækka gengið eða lækka launin. Það verður tæpast séð að það hafi verið sérstök ástæða til að leggja jafnríka áherslu á þessi efni af hendi hæstv. sjútvrh. nema til að árétta að aðra hvora leiðina yrðu menn að velja því að eins og ég hef áður sagt liggur það fyrir sem ásetningur ríkisstjórnarinnar að það eigi að ná fram árangri í rekstri sjávarútvegsins með því að draga úr launum í landinu.
    Það styttist væntanlega í það að menn ræði hér fjárlagafrv. Þá gefst tími og tækifæri til að fjalla með nákvæmari hætti um efnahagsmál. En þó er vert að spyrja: Hvernig ætla menn að koma því saman að lækka launin í landinu og auka skattheimtuna? Einhvern veginn virðist það ganga býsna illa upp, ekki síst vegna þess að það liggur fyrir að skattþolið í því formi sem það er nú er nánast brostið. Það innheimtast ekki einu sinni allir þeir skattar sem fólkið
í landinu verður nú að greiða í sameiginlegan sjóð, ríkissjóð. Hvernig skyldi það þá ganga þegar verður bæði búið að auka skattana og lækka launin? En þetta er yfirlýst stefna núv. ríkisstjórnar svo að ekki verður um villst.
    Það er vert að leggja á það áherslu, eins og raunar hefur komið fram í þessari umræðu, að það er vissulega að ýmsu öðru að hyggja í landinu en bara afkomunni í sjávarútveginum. Menn hafa talað um það fyrr á þessu ári að gjaldeyririnn sem væri aflað í landinu, hvort sem það væri í sjávarútvegi eða í öðrum útflutningsgreinum, væri á útsölu og þar af leiðandi væri sá varningur sem fluttur er inn til

landsins með óeðlilega hagstæðum kjörum. Leiðrétting á genginu er þannig hluti af miklu stærra dæmi en því aðeins sem snýr að sjávarútveginum, miklu stærra dæmi. Það má vel vera að einmitt þessi stefna gefi það betur til kynna en nokkuð annað hvað núverandi ríkisstjórn er ráðlaus í þessum efnum.
    Virðulegi forseti. Ég vek sérstaka athygli á því sem kom hér fram í ræðu hæstv. sjútvrh. þar sem hann var að tala um að vandinn sem íslenska þjóðin stæði nú frammi fyrir væri ekki bara vandi ríkisstjórnarinnar. Það væri þýðingarmikið að ræða þessi mál vegna þess að þingið allt stæði frammi fyrir þessum vanda. Það skyldi þó aldrei vera að farið væri að bresta í böndunum hjá ríkisstjórninni? A.m.k. hefur verið afboðaður fundur í fjvn. sem átti að halda í dag og engin ákvörðun tekin um annan slíkan. Það skyldi ekki vera að það væri eitthvað farið að bresta í böndunum? ( SkA: Traustabrestirnir.) Já, ég vek athygli á því sem hér kom fram og í þessu felst að sjálfsögðu afar mikil játning, en það eru brestir samt. Ég óttast að traustabrestir af þessu tagi muni nú reynast býsna haldlitlir, hv. þm.