Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu stórmál sem er hin slæma staða sem undirstöðuatvinnugreinin, sjávarútvegurinn, býr við um þessar mundir. Það er fyllilega eðlilegt að þessi mál séu tekin til umræðu á Alþingi og það ber vissulega að fagna áhuga stjórnarandstöðunnar á að ræða þessi mál nú. Því er þó ekki að neita að ræður þeirra hv. þingmanna Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hljóma dálítið einkennilega. Vandi sjávarútvegsins er alls ekki nýr eins og hér hefur komið fram. Það má segja með sanni að vandinn hefur verið ljós um langan tíma þó að staðan sé e.t.v. verri en menn hafa vonað hingað til.
    Ég get ekki látið hjá líða í þessari umræðu að rifja upp, í örstuttu máli þó, nokkur atriði um það sem liðið er. Það vita þó vonandi flestir hv. þingmenn að vatnaskilin í afkomu sjávarútvegsins voru í september á sl. ári, 1987. Þá voru mörg sjávarútvegsfyrirtækin komin í taprekstur eftir tiltölulega góða afkomu á fyrri hluta ársins. Þá var þegar hafin umræða í þingflokkum og á Alþingi um hallarekstur fyrirtækja, en því miður sáu efnahagsaðgerðir hins vegar ekki dagsins ljós fyrr en upp úr mánaðamótunum febrúar--mars. Þær aðgerðir voru ónógar og okkur framsóknarmönnum var það a.m.k. ljóst. Í apríl voru málin komin á það stig að boðaður var sérstakur aukafundur miðstjórnar flokksins vegna ástandsins í efnahagsmálum og einkum þó ástandsins í undirstöðuatvinnugreininni, sjávarútveginum. Í framhaldi af þessum fundi var knúið á um efnahagsaðgerðir innan ríkisstjórnarinnar sem þá sat og í maí var svo komið að vegna utanaðkomandi þrýstings í þjóðfélaginu var knúin fram gengisfelling þann 16. maí, ef ég man rétt, og hét það að leiðrétta gengið, eins og svo mikið er talað um núna. Þessari leiðréttingu á gengi fylgdi mikil umræða um efnahagsmálin almennt og sú skoðun var almenn í þingflokki okkar framsóknarmanna að þessi gengisfelling væri einskis virði nema víðtækar aðgerðir fylgdu, einkum í sambandi við vaxtamál og fjármagnskostnað. Þann 20. maí var samþykkt viðamikil yfirlýsing sem ríkisstjórnin gaf út um aðgerðir til að draga úr fjármagnskostnaði og jafna starfskjör fjármálastofnana. Þessar aðgerðir voru í mörgum liðum. Því miður var það svo að næstu vikurnar gerðist sáralítið og sumarið leið án þess að þingmenn Sjálfstfl. eða forusta hans virtust hafa ýkja miklar áhyggjur af afkomu atvinnuveganna í landinu. Ég minnist þess að í sumar vorum við þingmenn Framsfl. kallaðir með stuttu millibili hingað til Reykjavíkur utan af landi, þeir sem þar áttu heima, á fundi með framkvæmdastjórn flokksins til að ræða þessi mál og kallað var í menn úr atvinnulífinu til viðræðu um afkomu í undirstöðuatvinnuvegunum en aðgerðir sáu ekki dagsins ljós.
    Þar kom að í lok ágúst og í byrjun september sauð upp úr og upp úr þessu ríkisstjórnarsamstarfi slitnaði m.a. vegna þess að Sjálfstfl. var ekki fáanlegur til þess að taka á vaxtamálum og verðlagsmálum með nógu afgerandi hætti. Einnig bar á milli um hvað fara

ætti í víðtækar aðgerðir til þess að bæta eiginfjárstöðu atvinnuveganna. Sjálfstfl. gerði vissulega tillögur um það en algerlega ónógar að okkar mati. Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja upp þessa forsögu þó að vissulega beri að fagna því nú að hv. þingmönnum virðist vera ljós sá geigvænlegi vandi sem þessar atvinnugreinar eiga við að stríða.
    Það var þannig í maí að gengisfellingu var ekki fylgt eftir með viðunandi aðgerðum. Nú virðist vera kominn aftur þrýstingur á um að leiðrétta gengið, eins og menn orða það hér í umræðunni. Ég lýsi því yfir sem minni skoðun að sú gengisleiðrétting er einskis virði nema aðgerðir fylgi til þess að draga úr verðlagsáhrifum þeirrar leiðréttingar. Ég vona að menn eigi ekki við það, þegar menn tala um vandamál sjávarútvegsins, að nóg sé að fella gengið og annað þurfi ekki að gera til bjargar þessum atvinnuvegi. Ég held að framtíðin skipti mestu máli og miklu máli skiptir að rætt sé um framtíð þessarar atvinnugreinar og vissulega ber að fagna því ef menn boða nú að þeir séu tilbúnir til samstarfs og samstöðu varðandi þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru. Vonandi fylgir hugur máli í því efni. Það er vissulega brýnasta verkefnið í dag að rétta hag þessarar undirstöðu. Mín skoðun er hiklaust að fyrir því verði önnur markmið að víkja og hversu góð sem þau önnur markmið kunna að vera verða þau að víkja um sinn fyrir þessu höfuðmarkmiði. Ef okkur tekst ekki að snúa þarna vörn í sókn er allt annað unnið fyrir gýg og allar aðrar umbætur byggðar á sandi. Við getum ekki aukið félagslega þjónustu eða bætt kjörin í landinu ef þessa undirstöðu vantar.
    Skattamálin hafa lítillega blandast inn í þessa umræðu þó að á öðrum vettvangi sé og hv. síðasti ræðumaður spurði hvernig það færi saman að lækka launin og auka skattheimtuna. Það kann að vera að það fari ekki saman en ef menn treysta sér ekki til þess að auka skattheimtuna er ekki nema ein leið eftir og það er að skera niður ríkisútgjöld enn frekar en orðið er. Það má vel vera að menn standi frammi fyrir því.
    Ég vil endurtaka að þau markmið að auka framkvæmdir, félagslega þjónustu eða að bæta kjör verða að víkja fyrir því að styrkja þessa undirstöðu ef við eigum að eiga von til að ná þessum góðu markmiðum á næstu árum.
    Ég vil ekki lengja þessa umræðu frekar en ég vil ljúka máli mínu með því
að ég vona að með umræðu um gengismálin eigi menn ekki við að endurtaka söguna síðan í maí um að leiðrétta gengið, eins og það var orðað þá, en hirða ekkert um þau áhrif sem fylgdu á eftir í þjóðfélaginu.