Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Við ræðum hér í dag og kvöld mikið alvörumál: Afkomu sjávarútvegsins sem er sá grundvöllur sem allt hvílir á í þessu landi. Eins og margir hafa rætt á þessum fundi benda nýjustu tölur til þess að afkoma sjávarútvegsins sé sýnu lakari en talið var þegar ríkisstjórnin greip til þeirra aðgerða sem hún ákvað með bráðabirgðalögum í lok september. Talið er að nú geti staðið svo að hagur sjávarútvegsins í heild sé 3--4% lakari en þá var áætlað. Þessi lakari staða skýrist að því að talið er að hálfu af því að hún hafi ekki verið rétt metin, grundvöllurinn hafi ekki verið réttur fundinn, og að hálfu af því að fisksölukjör og fiskaflahorfur séu nú lakari en þá var talið.
    Hv. 1. þm. Suðurl., sem hóf þessa umræðu, rakti í sínu máli að rætur þessa vanda væru margar. Undir það er auðvelt að taka. Hann nefndi líka að til kæmu bæði breyttar ytri aðstæður, eins og ég hef nefnt, en hann lagði líka áherslu á að skipulagsvandamál í sjávarútveginum ættu hér stóran hlut að máli. Það er hægt að taka undir þetta og eins það sem hann nefndi að engar almennar aðgerðir gætu bjargað öllum fyrirtækjum í þessari atvinnugrein við ríkjandi aðstæður og einnig það, sem er mjög mikilvægt, að raunhæfar aðgerðir til úrlausnar hlytu að fela í sér kaupmáttarrýrnun. Um þetta er ekki deilt. Um þetta virðast allir hér vera sammála og þá er eðlilegt að spurt sé: Um hvað er þá deilt? Ég vil í djúpri alvöru og vinsemd minna hv. 1. þm. Suðurl. á að þær tillögur sem við ræðum nú, og hann gagnrýnir, eru mjög líkar þeim sem ræddar voru undir hans forustu í september. Þær eru að mínu áliti alveg sama eðlis.
    Hann benti réttilega á að víða væri við að glíma staðbundin og greinarbundin vandamál. Ég held að það geti verið þáttur í þessum síendurtekna vanda sjávarútvegsins að menn einblína um of á elsta hluta sjávarútvegsstarfseminnar, á hina hefðbundnu fiskverkun og hina hefðbundnu útgerð en taka sjaldan með í dæmið nýjungarnar, nýju greinarnar, og segja sem svo: Þetta nýja gengur núna sæmilega. En það kemur málinu eiginlega ekki við. Þetta er mjög mikil veila í aðferðinni við að nálgast þessi vandamál. Ég tel að nú sé mikilvægt að huga að endurskipulagningu útgerðar og fiskvinnslu í heild sem, eins og margir hafa nefnt, hlýtur að taka alllangan tíma.
    Menn ákváðu í haust að reyna að rjúfa víxlhækkun milli innlends kostnaðar og gengis sem því miður hefur oft hrakið okkur út í óðaverðbólgu á liðnum árum. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að grípa til þeirra aðgerða sem gert var með verðstöðvun, launastöðvun, verðjöfnunarbótum og fjárhagslegri endurskipulagningu sjávarútvegsins með tilstyrk Atvinnutryggingarsjóðsins. Þetta var tilraun til þess að skapa hlé, hlé til góðra verka, hlé til þess að ná tökum á árinni. Ég sé ekkert enn sem bendir til þess að annað verklag sé hyggilegra. Hins vegar er okkur mjög vel ljóst að vandinn er stærri en við héldum þegar þetta verk var hafið. Það þýðir ekkert annað en horfast í augu við það og verður líka gert. Hins vegar

er það ekki hygginna manna háttur að hætta í miðjum klíðum og segja: Við byrjum alveg upp á nýtt. Þetta dugir alls ekki sem við höfum tekið okkur fyrir hendur, þegar verkið er alls ekki farið að sýna hvort það getur tekist. Þegar nú er komið sögu er ekkert sem segir að við getum ekki náð tökum á málinu.
    Ég minni á að hv. 1. þm. Suðurl. ræddi það oft á liðnu ári og réttilega, og sætti fyrir það gagnrýni, að menn þyrftu að huga að skipulagsmálum sjávarútvegsins, menn mættu ekki alltaf fara undansláttarleiðina. Það mætti ekki alltaf fylgja lögmáli minnsta viðnáms og láta undan síga þegar upp komi þrýstingur á gengið og slá undan, heldur þyrftu menn að huga að því, sem hann nefndi hér réttilega og ýmsir aðrir hafa tekið undir með honum, að það eru grundvallarveilur í okkar sjávarútvegsskipulagi, veilur sem hægt er að bæta úr en verður ekki bætt úr ef menn reyna jafnan að láta fljóta yfir hvern stein.
    Það er mjög erfitt að meta afkomuna á líðandi stund vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í gengismálum og verðlagsmálum úti í heimi á síðustu missirum. Það var einmitt þess vegna sem það tók svo langan tíma á liðnu ári að átta sig á því hvernig málum væri raunverulega háttað. Ég gagnrýni menn ekki fyrir það. Ég segi hins vegar að þegar komið var fram á haust var ljóst að ekki varð undan því vikist að taka á þessum vanda. Á honum var líka tekið og ég harma að ekki skyldi takast um það víðtækari samstaða en raun ber vitni því hér er mikið í húfi.
    Ég ætla svo, virðulegi forseti, að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf. Hann nefndi tvennt sem ég tel ástæðu til að nefna sérstaklega. Í fyrsta lagi spurði hann um breytingar á reglugerðinni sem Atvinnutryggingarsjóðurinn starfar eftir. Hann spurðist fyrir um hvort rétt væri að í 2. gr. reglugerðarinnar hefði verið aukið orðunum ,,þegar til lengri tíma er litið``, þegar litið væri á það hvort fyrirtæki sem fengju fyrirgreiðslu úr sjóðnum væru komin með viðunandi rekstrarafkomu. Það er rétt, þetta var gert og ástæðan er ákaflega einföld. Það kom í ljós þegar fara átti að framkvæma hlutina að þeir aðilar sem undirbjuggu ákvarðanir sjóðsstjórnarinnar vildu skilja þessi orð í reglugerðinni þannig að þetta væri
bundið við stöðuna nánast á þeim degi sem tillögurnar voru fram lagðar í sjóðsstjórninni. Þeir töldu nánast að þeir mættu hvorki líta fram né aftur við þetta mat. En það gefur alveg auga leið að þegar meta á afkomu fyrirtækis eftir fjárhagslega endurskipulagningu verða menn að líta í gegnum hagsveifluna, líta bæði fram og aftur nokkur ár. Það getur t.d. staðið svo á í rekstri einhvers fyrirtækis að eitthvert sérstakt áfall hafi orðið árið 1988 sem litar allar tölur um reksturinn, eða þá hitt að fyrirtæki hafi orðið fyrir sérstöku happi það ár. Þessi tilvik verður að jafna út. Þess vegna á að mínu áliti að líta nokkur ár aftur í tímann þegar hagur fyrirtækis er metinn í þessari tilraun sem nú er gerð til að bæta fjárhagslegt og rekstrarlegt skipulag sjávarútvegsins. En það þarf líka að skyggnast nokkuð fram og það dylst engum að eins og málum er nú

háttað er staða sjávarútvegsins í öldudal. Við verðum hins vegar að horfa lengra, sjá fram á veginn og þess vegna var reglugerðinni breytt. Í því felst enginn undansláttur heldur eingöngu skýring á því sem við skyldi miðað. Þetta tel ég einfalt mál og auðskilið hverjum sem skilja vill og verð nú að segja blátt áfram að ég skil alls ekki þá kátínu sem þessar upplýsingar vöktu hér þegar hv. 1. þm. Vestf. talaði. Mér skilst að mönnum þætti skoplegt að svo skjótt eftir að reglugerðin hefði verið sett þyrfti að breyta henni. Það tel ég þvert á móti sýna að menn lögðu af stað í þessa umfangsmiklu vinnu án þess að sjá fyrir alla hluti í smáatriðum og um leið og ljóst varð að þarna var um framkvæmdaþröskuld að ræða var alveg sjálfsagt og heiðarlegt að breyta því strax, sem hæstv. forsrh. reyndar gerði með því að breyta reglugerðinni. Þetta var fyrra atriðið.
    Seinna atriðið varðar skuldbreytingabréf Atvinnutryggingarsjóðs og hvort viðræður hefðu átt sér stað við viðskiptabanka og Seðlabanka um hugsanleg kaup þessara aðila á skuldbreytingabréfum af þjónustufyrirtækjum sjávarútvegsins. Hv. 1. þm. Vestf. spurði hvort ekki þyrfti betri tryggingar fyrir þessum bréfum til þess að Seðlabankinn gæti keypt þau. Ég vil taka það skýrt fram að fram hafa farið viðræður við bankana og Seðlabankann um hvernig hyggilegast sé að standa að viðskiptum með þessi bréf. Hefði það ekki verið gert væri það nánast ámælisvert því þarna er um svo mikilvægan hlut að ræða í banka- og lánaviðskiptum sjávarútvegsfyrirtækjanna að menn þurfa að átta sig á því hvað gerist þegar þessi bréf koma í umferð. Það er hins vegar ekki rétt að farið hafi verið fram á það við Seðlabankann að hann kaupi þessi bréf. Ég tel það ekki hyggilegt. Ég vil hins vegar ræða það, og hef þegar gert það við Seðlabankann, hvort hann vilji rýmka til í viðskiptum sínum við helstu viðskiptabanka sjávarútvegsins þannig að þeir geti veitt sjávarútveginum betri þjónustu m.a. á þann hátt, ef svo stendur á, að þeir eignist skuldbreytingabréf frá lánardrottnum sjávarútvegsins og ýmsum viðgerðar- og þjónustufyrirtækjum hans. Þetta er ekki nýtt fyrirbæri eins og hv. 1. þm. Vestf. mun manna gerst vita. Við fyrri skuldbreytingar í sjávarútvegi hefur það oft og iðulega komið upp á að viðskiptabankarnir hafi tekið þátt í þessum skuldbreytingum á þann hátt að taka við slíkum bréfum til þess að greiða fyrir viðskipta- og þjónustufyrirtækjum sjávarútvegsins. Það er ekkert athugavert við þetta en það er heldur ekki hægt að gefa út um þetta neina almenna reglu.
    Það er nú einu sinni svo að ákaflega misjafnt er hversu mikið af lausaskuldum sjávarútvegsfyrirtækjanna lendir hjá bönkum og hversu mikið lendir hjá lánardrottnum sem veita þeim beina þjónustu. Það fer eftir bankaþjónustunni á hverjum stað, eftir venjum og viðskiptaháttum, sem mega ekki ráða því hvort fyrirtækin fá eðlilega fyrirgreiðslu eða ekki í þeim vanda sem þau nú hafa lent í. Ég tel að það eigi að liðka til í þessu máli og þá líklega helst þannig að þeir viðskiptabankar sjávarútvegsins sem

lent hafa í skuldum við Seðlabankann eða yfirdrætti fái þeim skuldbindingum breytt eða þær linaðar til þess að viðskiptabankinn geti veitt sjávarútveginum betri fyrirgreiðslu. Það er alls ekki rætt um að taka þessi skuldbreytingabréf beinlínis upp í bindiskyldukvaðir, hvað þá lausafjárkvaðir. Hins vegar er óbein skuldbreyting fyrir viðskiptabanka sjávarútvegsins mál sem ég tel ekki einungis ástæðu til að ræða, heldur tel ég það beinlínis skylt eins og nú stendur á. Skuldbreytingabréfin eru hins vegar eðli málsins samkvæmt eingöngu tekin sem greiðsla fyrir kröfur af þeim fyrirtækjum sem vilja heldur þessi bréf, eins og þau eru skilgreind af Atvinnutryggingarsjóðnum, en að eiga beina kröfu á fyrirtækin. Í þessu felst að þau taka sjálf áhættuna af því hvort þau geti fengið þessa peninga í hendurnar strax eða eingöngu á gjalddögum bréfanna. Þetta er sjálfviljug ákvörðun og ég tel ekkert athugavert við það þótt það þýði í sumum tilfellum að fyrirtækin sem taka við þessum bréfum sem greiðslu þurfi að þola af þeim einhver afföll. Það er m.ö.o. á vissan hátt sú eftirgjöf skuldar sem í því felst að kjósa heldur slíkan pappír en að eiga áfram beina kröfu á fyrirtækið. Þetta er ekki heldur mál sem hægt er að gefa um eina einfalda reglu.
    En ég vil að endingu segja það að tryggingarnar fyrir þessum bréfum eru býsna góðar vegna þess að Atvinnutryggingarsjóðurinn ábyrgist þessi bréf með eigum sínum og fjárhagslegum styrk að bakhjarli sem annars vegar er beint
fjárframlag og hins vegar lántökuheimild sem ríkið ábyrgist og veitir sjóðnum. Í þriðja lagi er svo sú staðreynd að þetta er stofnun sett á fót af ríkinu með sérstökum lögum sem felur í sér óbeina ábyrgð á öllu saman.
    Ég vil að endingu taka undir það með hv. 1. þm. Vestf. að nú þarf að leita allra leiða til þess að koma sjávarútveginum í betra horf. Það þýðir að við eigum ekki að láta reka undan vindi og segja sem svo að við grípum bara til minnstu viðnáms lausna. Við eigum einmitt að nota andstreymið til þess að taka virkilega á og bæta skipulag sjávarútvegsins. Ég leyfi mér að hafa þá skoðun á því að þessi ríkisstjórn hafi alls ekki nálgast þetta viðfangsefni með neinum hofmóði eins og mig minnir að hv. 1. þm. Vestf. hafi lýst afstöðu ríkisstjórnarinnar, því fer víðs fjarri. Afstaða ríkisstjórnarinnar er þvert á móti auðkennd af hógværð og vilja til samstarfs við alla þá sem vilja hér gott til leggja.