Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Reykv. hefur beint til mín nokkrum spurningum og athugasemdum. Ég ætla að reyna að svara þeim í stuttu máli.
    Ég byrja á því að svara spurningunni um lækkun raforkuverðs um fjórðung til fiskiðnaðarfyrirtækja. Þetta mál er í athugun í starfshópi sem ég skipaði fyrir nokkrum vikum. Hann mynda fulltrúar orkuvinnslu- og dreifingarfyrirtækja ásamt fulltrúum iðnrn. Þetta er vandasamt mál og ég veit að hv. 1. þm. Reykv. kannast við það frá sinni fyrri tilveru sem iðnrh. Ég mun fyrir mitt leyti freista þess að ná þarna árangri á næstu vikum og mánuðum til þess að ná lækkun allt að fjórðungi á þessum gjaldskrárliðum. Það er hins vegar erfitt um vik meðan verðstöðvun stendur því að einhvers staðar kynni að þurfa að breyta öðrum þáttum gjaldskránna eða finna til þess annan fjárstyrk. Ég vil ekki gefast upp við þetta verk. Ég mun finna leið til þess að ljúka því. Ég minni hins vegar hv. 1. þm. Reykv. á að í tölunum sem hann sjálfur las í inngangi sinnar ræðu, og höfðu þó margir lesið áður, um það hvernig Þjóðhagsstofnun teldi að nú væri háttað afkomu sjávarútvegsins, er ekki reiknað með þessari lækkun. Það er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að Þjóðhagsstofnun sýnir í sínu stöðumati á líðandi stund núna fyrir fáum dögum lakari afkomu en að var stefnt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu og það mun líka verða. En ég minni bara á það að þetta er ein af skýringunum og þegar þetta verður fram komið verður staðan þeim mun betri.
    Næsta spurning laut að raunvaxtalækkun. Ég var því miður ekki í salnum þegar hv. 1. þm. Reykv. fór með spurninguna en eins og ég skildi hana mun hann hafa innt eftir því hvað liði þeirri 3% lækkun raunvaxta sem ríkisstjórnin stefndi að. Svarið er að hún stefnir enn að þessari lækkun. Hún hefur þegar náð fram, á þann mælikvarða sem almennastur er og eru verðtryggðir vextir, raunvextir verðtryggðra skuldabréfa í viðskiptabönkunum, þeim árangri að bestukjaravextir á slíkum bréfum hafa lækkað úr 9,5% í 7,75% eða um 1,75%. Þetta er ekki einhlítur mælikvarði. Þetta er einn af mörgum. Hv. 1. þm. Reykv. mun hafa nefnt ríkisskuldabréfavextina sem hafa lækkað á bilinu 0,2--0,7%. Ég vil fremur líta á raunvextina í viðskiptabönkum sjávarútvegsins. Þar hefur þegar náðst verulegur áfangi í þá átt sem ég veit að hv. 1. þm. Reykv. vill stefna í með mér og öðrum sem vilja ná raunhæfri lækkun vaxta. Þar held ég að sígandi lukka sé best og ég treysti á það að fá stuðning hv. 1. þm. Reykv. og annarra þm. hér í þessu hv. þingi til þess að koma því lagi á ríkisfjármálin að við getum náð þarna frekari áföngum. Betra jafnvægi í ríkisfjármálum er forsenda þess. Það þýðir að við þurfum að hækka skatta, við þurfum að lækka útgjöld og þar með er komið til Teits og Siggu að leggja því máli lið, ef þeir vilja ná raunhæfri lækkun vaxta.
    Þriðja spurningin laut að vaxtamun á afurðalánum. Vaxtamunurinn hefur þegar lækkað úr 1,95% í 1,25%,

eða um það sem að var stefnt.
    Fjórða atriðið sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi var hvað við væri átt með endurskipulagningu sjávarútvegsins og fjárhags hans. Ég ætla ekki að rekja það í ítarlegu máli. Þarna er fyrst og fremst um það að tefla að ná samruna og samstarfi fyrirtækja. Sums staðar þarf að losa fyrirtæki úr rekstri. Þetta þekkir hv. 1. þm. Reykv. mætavel sem vitnar hér títt og ótt í reynslu sína af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum. Það er gott að hann hefur slíka þekkingu því þá veit hann betur hvað við er átt. Það er víða svo að hægt er að ná slíkum árangri. Það tekur tíma. Það er líka nauðsynlegt, eins og hv. 1. þm. Reykv. nefndi, að fá meira eigið fé í rekstur og stofnfé þessara fyrirtækja. Ég tel að það eigi svo sannarlega að vera ein af viðmiðunum Atvinnutryggingarsjóðsins að þau fyrirtæki sem geta sýnt að þau geta aflað eigin fjár eigi að ganga fyrir öðrum um stuðning úr þeim sjóði. Ég tel líka að fyrstu dæmin um ráðstöfun fjár úr sjóðnum sýni að þar er einmitt farið eftir slíkri hugsun.
    Ég vil ekki líta á Súgandafjörð eða Suðureyri sem algilt dæmi um ráðstafanir af þessu tagi. Eins og kom fram í máli hæstv. sjútvrh. stendur þar alveg sérstaklega á og ég veit að hv. 1. þm. Reykv. gerir ekki ágreining við mig eða hæstv. sjútvrh. þegar við segjum að þar hafi sannarlega þurft að grípa til einhverra ráða. Ég bendi á að sú víkjandi lánveiting sem fjmrh. hefur boðið þeim Súgfirðingum upp á með skilyrðum, einmitt um eiginfjárframlag, um eftirgjöf eða breytingu á skuldum annarra lánardrottna --- allt þetta er mál sem hefur mikla sérstöðu, sérstaklega vegna þess að hér er um að ræða fjárhæðir frá hálfu ríkisins sem stóðu á biðreikningi skulda við Útvegsbanka Íslands hinn gamla og gegnir alveg sérstöku máli um og hefur ekkert fordæmisgildi gagnvart bankarekstri að öðru leyti. Þetta vil ég segja alveg skýrt og ég vil reyndar benda á að sá maður í bankakerfinu sem kannski hefur nú mest rætt þann möguleika að bankarnir ættu að koma inn í fjárhagslega endurskipulagningu sjávarútvegsins með þeim hætti að breyta skuldum í víkjandi lán eða hlutafé mun vera flokksbróðir hv. 1. þm. Reykv., bankastjóri Sverrir Hermannsson. Þar má vera að hann hafi stundum farið með himinskautum eins og honum er stundum hætt við að gera, en þó er hann nú sennilega nokkuð nærri
kjarna máls að sums staðar þurfi menn að viðurkenna orðna hluti. Um það hlýtur þó jafnan að fara að lögum en lögin um viðskiptabankana takmarka heimildir þeirra til þess að eiga í hlutafélögum og reyndar til þess að veita víkjandi lán og um það hef ég reyndar ekki fleira að segja, einfaldlega vegna þess að það er hvergi á stefnuskrá þessarar stjórnar að víkja frá þeim ákvæðum viðskiptabankalaganna sem um þetta gilda.
    Þetta ætti kannski að nægja um þetta mál, þ.e. um óbeinar skuldbreytingar, og það sem ég kallaði að rýmka til í viðskiptum Seðlabankans við viðskiptabanka sjávarútvegsins til þess að gera þá

betur í stakk búna að sinna þessum brýnu þörfum, að tryggja sæmilega örugga fjármögnun undirstöðuframleiðslunnar. Það er mál sem ég tel að þurfi ekki að skýra nánar. Við vitum vel að þessar bankastofnanir hafa oft og einatt lent þar í yfirdrætti með refsivöxtum. Við sumar aðstæður getur verið réttlætanlegt að breyta þessum reglum í einstökum tilfellum. Hvergi með almennri reglu en þarna er eitt um málið að segja að þarna geta komið upp dæmi sem nauðsynlegt er að taka á. Ég rifjaði líka upp að á árunum 1983--1984, á árunum 1980--1982 og reyndar á árunum 1974--1977 voru gerðar ráðstafanir af þessu tagi, og þótti ekki stefna í heimsendi þótt á það væri litið. Allt þetta verður þó að sjást í heildarsamhengi peningamála og lánamála landsins og það er vissulega rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að erlendu skuldirnar setja okkur þarna ákveðin mörk. Við erum þar hvergi á heljarþröm, en þurfum þó að gæta okkar.
    Ég tel að fullyrðingar þær sem hv. 1. þm. Reykv. hafði við lok sinnar ræðu um að dómur Þjóðhagsstofnunar sýndi að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við neitt af því sem hún hefði ætlað sér að gera og mat hennar á málinu væri út í hött, eru einmitt það, fullkomlega út í hött. Við erum alls ekki komnir að niðurstöðu í þessu máli og það er svo fjarri því að það sé stefnuleysi að halda áfram við það verk sem hafið var þegar þessi stjórn var mynduð, að vinna áfram eftir því verklagi sem þá var ákveðið. Það er einmitt stefnufesta. Að hlaupa nú til og slá undan væri uppgjöf og stefnubreyting sem enn eru engin rök til, og ég segi það ósköp blátt áfram að mér þótti það nú koma úr hörðustu átt þegar hv. 1. þm. Reykv. vék að því að gott væri að fá sér hlé þegar menn þreyttust á því verki sem þeir hefðu tekið að sér, því hverjir voru það sem viku frá verkinu? Hverjir voru það sem slepptu árinni í brimróðrinum? Hverjir voru það sem hlupu fyrir borð?