Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Maður er bæði stirður og syfjaður. Ég er búinn að sitja hér bróðurpartinn af deginum, frá því kl. 2 í dag þar til nú að klukkan er rúmlega hálfeitt að nóttu. ( Gripið fram í: Hver stendur fyrir þessari umræðu?) Alþingi er að störfum, virðulegi þm., sem virðist sofa líka því hann áttar sig ekki á því hvað er að ske í kringum hann. Hann spurði hver stæði fyrir fundum hér í þessu húsi.
    Það er ekki að ástæðulausu að ég hef þraukað þetta lengi. Ástæðan er einfaldlega sú að á dagskrá er stórt mál. Það er stór hluti af efnahagsvanda þjóðarinnar, stór hluti af því sem hæstv. forsrh. er með í huga þegar hann segir að íslenskt þjóðfélag sé að fara á hausinn.
    Ég bjóst við að þegar tveir hæstv. virðulegir ráðherrar svara fyrirspurnum hæstv. fyrrv. forsrh. um ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vandinn verði það mikill að landið fari á hausinn kæmu fram svör við fyrirspurnunum og það kæmi fram eitthvað þess virði að bíða þótt löng sé biðin eftir lausnum frá hæstv. ríkisstjórn eða frá hæstv. ráðherrum sem tekið hafa til máls og eru svaramenn ríkisstjórnarinnar hér í dag. En það hefur ekki komið. Og það gengur ekki að halda Alþingi gangandi bráðum hálfan sólarhring án þess að fá lausnir á vandamálum sem ríkisstjórnir hafa verið að glíma við undanfarið, og sami maður hefur þó verið með þennan málaflokk í a.m.k. tveimur ríkisstjórnum og hans flokkur í þremur ef ekki fleiri ríkisstjórnum samfellt.
    Hæstv. sjútvrh. byrjaði með því að fagna því að þessi umræða skyldi fara fram og það sé sjálfsagt að ræða þessi málefni atvinnuveganna yfirleitt við gerð fjárlaga og að þm. taki mið af þeim umræðum. Út af fyrir sig er það rétt, en ég vil ekki meina að þessi umræða sé beint tengd fjárlagaumræðunum. Að sjálfsögðu snertir útkoman í sjávarútveginum fjárlögin, en umræðan sem slík eða vandinn sem við erum að ræða, vandinn sem varð til þess að þessi umræða var sett af stað, er ekki beint tengdur fjárlögunum.
    Hæstv. ráðherra talar um að lausnin á vandanum lægi í því að lækka hlutfall launa. Hlutfall launa er of hátt á Íslandi, sagði hæstv. ráðherra. Ég er út af fyrir sig ánægður með að ráðherra skuli taka svona til orða vegna þess að það hættulegasta fyrir okkur hér á landi á þessu augnabliki, með stjórnvöld eins og þau eru, er það að verkalýðshreyfingin er veik í dag og hún þarf einmitt þessi ummæli ráðherra til að herða hana upp, til að láta hana skilja að saman geta þeir staðið gegn slíkum hugsunarhætti, gegn árangri ríkisstjórnarinnar ef ríkisstjórnin hefur valið sér þessar leiðir. Ég er alveg sannfærður um að þessi orð ráðherra eru þvílík hvatning til fólksins í landinu að upp úr þessu stígur verkalýðshreyfingin sterkari en nokkru sinni áður í samstarfi við hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Samstarfi við ríkisstjórn til að leysa vandamál þjóðarinnar því að verkalýðshreyfingin hefur verið til samstarfs hingað til. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur ekki verið notuð sem baráttuafl gegn landi og þjóð. Þá skulum við verða sammála að hún verður

hörð í baráttu til samstarfs ef rétt er á haldið. Hún lætur hins vegar ekki ógna sér á þennan hátt, hún lætur ekki segja sér enn þá einu sinni að nú skulum við leysa vanda þjóðfélagsins með því að skerða launin enn meira.
    Hæstv. ráðherra ræðir alls ekki málin sem hér eru á dagskrá. Hann dreifir huganum frá málunum með því að fara að tala um aðdragandann að slæmri stöðu atvinnuveganna eins og þeir eru í dag. Hann viðurkennir það að 17 ára stjórnarferill Framsfl. hefur þá borið þann árangur að staða atvinnuveganna er slæm. En hann segir: Það er ekki okkur að kenna. Það er því að kenna að framkvæmdir hafa verið of miklar, það er því að kenna að greiðslukort hafa verið tekin í notkun og þau eru misnotuð. Það er erlendum lántökum að kenna en ekki þeim sem hafa staðið fyrir ríkisstjórnum sl. 17--20 ár. ( Sjútvrh.: Þú hefur nú eitthvað verið með í þessum leik.) Ég var með í því, en ég ætla að segja hæstv. ráðherra að þegar ég var með í því skilaði ég fjárlögum með tekjuafgangi og við lækkuðum tekjuskatt um 600 millj. það ár og við endurgreiddum söluskatt til sjávarútvegsins til þess að forða gengislækkun. Ég var með í því, það er rétt. Hvað hefur skeð síðan og hvað skeði áður? Og Framsfl. var í báðum þeim stjórnum.
    Ég hefði gjarnan viljað fá svar við því hvort sú ráðstöfun á 45 millj. kr. skuld sem var venjuleg viðskiptaskuld í Útvegsbankanum en er nú notuð sem peð í tafli á að vera fordæmaskapandi. Ef Sambandið leikur þessum leik og einhverjir hluthafar leika öðrum leik skulum við leika ykkur í hag, þá skulum við misnota fé Útvegsbankans. En hvar er skýrsla til Alþingis yfir það fé sem hægt er að nota svona og var skuld við Útvegsbanka Íslands þegar hann var ríkisbanki? Mér er sagt að það séu 1--2 þús. millj. sem ríkissjóður þurfti að taka yfir, ekki 300--400 millj. sem Hafskip hafði átt að tapa eða bankinn réttara sagt vegna Hafskips. Og hvar er mismunurinn? Hverjir hafa skuldað bankanum? Er þetta upphæðin sem ríkisstjórnin ætlar að nota í taflinu eða á bara að nota þetta fyrir Sambandsfyrirtæki? Þetta eru engar ráðstafanir í efnahagsmálum. Þetta er að standa óheiðarlega að málum.
    Ég er ekki sammála hv. 14. þm. Reykv. Ég er ekkert sammála hv. þm. þegar
hann snýr sér að hæstv. ráðherra viðskiptamála og talar til hans eins og hann gerði, ég er ekki sammála því. Það er enginn ljóður á manninum að hann skuli vera vel menntaður og að hann skuli hafa unnið lengi hjá ríkinu. Ég tel að það sé mjög gott fyrir Alþingi að fá slíkan mann hingað til starfa. Það er ekki nauðsynlegt að vera auli til að fá starf á Alþingi, en það hjálpar til. Mér finnst það alls ekki rétt. Ég fagna því þegar menntaðir menn og vel undirbúnir koma til starfa, en ég vil segja alveg eins og er að mér finnst menn misnota þekkingu sína og kunnáttu á peningamálum þegar farið er að eins og farið er með fé Útvegsbankans í þessu tilfelli og menn ættu að passa sig á því. Ég vil gjarnan fá að vita: Á að halda þessu áfram eða er hægt að fá að vita hvað mikið er

í þessum sjóði sem hægt er að tefla svona með? Og hverjir eru það sem skulda? Hvaða skuldir eru það? Hverjir eru á bak við þær? Það er búið að gera Hafskip upp. Það er eitt af þeim fyrirtækjum sem ríkið þurfti að blæða fyrir. Hverjir eru hinir skuldararnir, ef skuldirnar eru komnar upp undir 2 þús. millj. sem ríkissjóður þurfti að yfirtaka af skuldum Útvegsbankans? Ég óska eftir því hér og nú að hæstv. viðskrh. leggi fram lista hér á Alþingi og ég bið þess, virðulegur forseti, að því verði fylgt eftir að það komi listi yfir alla þá sem ríkissjóður þurfti að yfirtaka skuldir frá þegar gert var upp við Útvegsbankann, að það verði eins ljóst hverjir aðrir voru í þeirri súpu en Hafskip.
    Ég hef hlustað í allan dag, á ráðherrana sem aðra. Ég hef ekki heyrt neina stefnu birta í efnahagsmálum eða í vandamálum sjávarútvegsins. Engin stefna, engin lausn. Hvar er lausnin? Á virkilega að bjóða Alþingi og alþm. upp á það að sitja í hér um bil hálfan sólarhring og bíða eftir að fá svar við fyrirspurnum í almennum umræðum án þess að fá nokkurt svar? Eigum við að fara í rúmið í kvöld og láta það halda vöku fyrir okkur að stjórnin er stefnulaus og eftir stendur tilefni fyrirspurnarinnar, tilefni þess að það er beðið um umræður utan dagskrár, að sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, er gjörsamlega munaðarlaus undir stjórn þessarar ríkisstjórnar.
    Hæstv. sjútvrh. segir svona eins og út í bláinn, eins og hvaða aðili sem er getur sagt: Fyrirtækin þurfa að fá rekstrargrundvöll til að standa undir skuldbindingum. Hvaða nýr sannleikur er þetta? Við hvern heldur hæstv. ráðherra að hann sé að tala? Einhverja algjöra aula? Það þarf ekki að segja neinum, hvorki einum né neinum, að auðvitað þarf að vera rekstrargrundvöllur undir hvaða fyrirtæki sem er til þess að fyrirtækið geti staðið undir skuldbindingum. Hvernig í ósköpunum dettur ráðherranum í hug að fara að upplýsa fólk svona vel. Ja, þvílík viska.
    Nei, svona þýðir ekki að tala, hæstv. ráðherra. Það þýðir ekki að tala svona. Það er spurt að gefnu tilefni. Undirstöðuatvinnuvegirnir eru í vanda og það er litið til ríkisstjórnarinnar um leiðsögn út úr vandanum og það er spurt og það er beðið eftir svari. Svarið kemur ekki vegna þess að það er ekki til. Er það vegna þess að ríkisstjórnin og þá í þessum málaflokki hæstv. sjútvrh. er kominn á leiðarenda í sinni getu til að vera ráðherra sjávarútvegsmála? Er hann búinn með þann sjóð, það sem hann vissi um málaflokkinn til þess að gegna honum? Það kemur fyrir í mörgum fyrirtækjum að menn verða að skipta um stöðu vegna þess að þeir eru búnir að ausa úr öllum sjóðum visku sinnar og getu og þá verða þeir að fara í annað ráðuneyti eða fá sér eitthvert annað starf, í þessu tilfelli að allir ráðherrarnir færu og fengju sér annað starf. Þetta er enginn nýr sannleikur sem ég er að koma með. Þegar ráðherra svarar svona út í hött í einum alvarlegasta efnahagsvanda þjóðarinnar er kominn tími til þess að þeir spyrji sig sjálfir þessarar spurningar en láti ekki mig eða aðra lítillækka þá með svona tali úr ræðustól á hv. Alþingi.

    Þessi vandi er þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra, og ríkisstjórnin öll, fullyrðir að nú sé verðbólgan komin niður í núll. Vextir hafa lækkað, rekstrarkostnaður, olían, virðulegur hæstv. viðskrh., hefur farið úr 25 dollurum niður í 10--12 dollara. Það er allt hagstætt sem áður var óhagstætt. Ef hæstv. ríkisstjórn fylgist hins vegar með því sem er að gerast úti í heimi eru meiri líkur á því nú en hefur verið undanfarið rúmt ár að olíuverð sé að fara upp aftur. Og hvað skeður þá? Ætlar ríkisstjórnin að halda áfram að sitja og segja svo við Alþingi: Fyrirtækin þurfa að fá rekstrargrundvöll til að standa undir skuldbindingum. Ha? Þetta er alveg furðulegt. Þetta er alveg stórfurðulegt. ( Gripið fram í: Er þetta ekki satt?) Auðvitað er þetta satt. En hæstv. ráðherra, það er engin lausn og þetta er ekki svar, heldur er það sama og að segja hér: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að skapa undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar starfsgrundvöll? Ef ráðherra vill gera þetta að einhverri grínsamkomu hér og nú með frammígripum er það allt í lagi mín vegna. Hann opinberar þeim mun betur ráðleysi sitt og það sem ég sagði áðan, að hann er búinn með alla getu sem hann hafði fram að leggja. Stundum fara menn af stað í ferðalag með nesti, en það kemur að því að þeir éta það upp og verða svangir. Hann er búinn með sitt nesti, í miðju ferðalaginu.
    Það nægir ekki að taka undir það sem ábyrgur maður í málaflokki að það sé rétt að sjávarútvegur eigi við mikinn vanda að etja. Hvar er lausnin? Hvaða
ráðstafanir ætlar ríkisstjórnin að gera? Og hvenær ætlar hún að gera þær, aðrar en þær sem komnar eru fram í nýjum tekjuöflunarfrv. sem eru bara til að standa undir eyðslu og viðbótareyðslu en ekki til þess samkvæmt fjárlögum að leysa neinn sérstakan vanda sem við erum að ræða hér og nú?
    Ráðherra segir líka, og það segja báðir hæstv. ráðherrarnir, að þeir voni að ekki komi til að genginu verði breytt. Ég vona það líka. Hver vonar að það þurfi að breyta genginu? Það vona náttúrlega allir að við losnum við vandann. Það er enginn sem vonast til þess að þörf verði fyrir gengisbreytingar. Ef hins vegar ekkert annað er til í þeirra hugmyndabanka getur vel verið að það verði nauðsynlegt. Hér talaði hv. 4. þm. Vesturl. áðan af þekkingu þó að ég sé honum algjörlega ósammála um það sem hann sagði þar, að það ætti að vera mismunandi gengi, jafnvel eftir atvinnuvegum, skildist mér. Það gengur ekki. Hér verðum við að viðurkenna í eitt skipti fyrir öll að við búum hér sem ein þjóð og verðum að hafa eitt og sama gengi, bæði á peningum og öðru sem snertir mannlegt líf og ég tala nú ekki um daglegan rekstur.
    Þegar ég var samráðherra hæstv. sjútvrh. talaði ég um svokallað pennastrik sem var ýtt til hliðar. Ég hafði það á tilfinningunni að hálfgert grín væri gert að því vegna þess að menn gáfu sér ekki tíma til þess að hugsa og skilja. Það er nefnilega vandi að leika, þó ekki sé nema leika, það að einhver annar sé minni vitsmaður en ,,ég``, þetta stóra ,,ég``. Við skulum passa

okkur á því að vanmeta ekki, hvort sem það eru samstarfsmenn eða andstæðingar.
    Það getur vel verið að það sé einhverjum peningamönnum í hag að halda fast við lánskjaravísitöluna. Ef við stöndum hins vegar frammi fyrir þeirri staðreynd í dag, eins og við gerðum 1983, að tapa öllu eða tapa hluta af eignum okkar vil ég persónulega heldur tapa hluta af því sem ég á en öllu sem ég hef á milli handanna, eða öllu sem mér er trúað fyrir, og þegar ég talaði um pennastrikið var það til að bjarga því sem bjargað varð og hugmyndin er enn þá í gildi. Hún er einfaldlega sú að strika út frá undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar þann hluta af þeim skuldum, sem eru að sliga atvinnuvegina núna, sem hægt er að heimfæra undir lánskjaravísitölu, en að atvinnuvegirnir greiði höfuðstólinn plús að sjálfsögðu eðlilega vexti en ekki okurvexti bankakerfisins eins og þeir hafa verið undanfarin ár. Lánskjör hér eru okkur öllum til skammar. Það þarf enga hagfræðinga til að sjá það. Við sem höfum rekið fyrirtæki finnum fyrir því.
    Nú segir hæstv. ráðherra, og mér liggur við að túlka tóninn í ummælum hans, að mörg fyrirtæki stöðvist eftir áramótin en ekki vegna þessa vanda sem við höfum verið að tala um, heldur vegna hráefnisskorts.
    Það er undarlegt, það er alveg stórfurðulegt að þetta blessað þjóðfélag okkar skuli aldrei geta lifað árið út án þess að vera með metár í öllu og á öllum sviðum. Það sem var metár fyrir tveimur árum er bara hrein ,,katastrófa`` í ár. Hvernig í ósköpunum á þetta að geta gengið? Og allt því að kenna að kaupið er of hátt. Lausnin liggur í því að skera niður laun. Það var mjög gott erindi um þann þátt sem hv. 14. þm. Reykv. hélt áðan. Ég trúi því ekki að þingmenn eða hæstv. ráðherrar hafi gleymt því sem virðulegur þm. sagði í þeim efnum.
    Við erum að tala um að aðstoða undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Við erum að tala um að aðstoða það sem öll okkar tilvera byggist á. Þetta voru orð hæstv. sjútvrh. Aðalvandamálið er hvort eða hvernig framleiðslufyrirtækin verða aðstoðuð. Bæði í einkaeign og í Sambandseign. --- Hvort eða hvernig. Þetta er ekkert svar, hæstv. ráðherrar, og ég verð að fara þess á leit, og ég tel mig ekki vera ósanngjarnan, að þið gefið okkur, hæstv. ráðherrar, sem hljótið að hafa svörin, svör við þeim spurningum sem frummælandi lagði fram í dag kl. nálægt því tvö þegar hann hóf þessar umræður, og látið okkur ekki sitja hér til klukkan að ganga tvö að nóttu, allan daginn með lítilli hvíld fyrir þingflokksfundi og kvöldmat, og fá ekkert út úr deginum. Bara það að hafa talað og talað og talað. Það er ekki líkt neinni ríkisstjórn, það er ekki neitt líkt þeim ráðherrum sem við viljum hafa að gefa ekkert svar. Málin eru í athugun hjá ríkisstjórn. Þetta er ekki nóg svar. Þetta er hefðbundin útgönguleið ráðherra. Með svona svari læknum við ekkert. Það væri kannski hægt. Ef hæstv. ríkisstjórn fyndi einhverja leið til þess að kynna og leggja fyrir Alþingi

er ekkert útilokað að Alþingi gæti í krafti samtakamáttar þingsins sameinast um að leysa þennan efnahagsvanda sem er að sliga þjóðfélagið. Ef hins vegar kemur ekkert annað svar en að ríkisstjórnin sé að athuga málið felst engin lausn í því. Auðvitað sýnir það þá miklu ábyrgð og þungu áhyggjur sem þeir flokkar, sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn, hafa á sínum herðum að málið er tekið upp í dag og hæstv. ráðherra þarf ekkert að þakka okkur fyrir að gegna þeirri frumskyldu okkar að vera stjórnarandstaða. Það er bara sú mikla ábyrgðartilfinning sem á okkur hvílir sem gerir það að verkum að hv. 1. þm. Suðurl. tekur þetta mál á dagskrá í dag, með leyfi virðulegs forseta. Ástæðan er einfaldlega sú að ekkert skeður í ríkisstjórn.
    Ég held að ekki sé ástæða fyrir mig að hafa þessi orð miklu fleiri. Ef umræðurnar enda á þann hátt sem ég held, á þann hátt sem ræður hæstv. ráðherra
gefa mér tilefni til að ætla, vitum við öll hvað ríkisstjórnin er að gera. Þá gefur hún okkur þær upplýsingar og undirstrikar þá staðreynd að ríkisstjórnin er í öllum þessum vanda að gera akkúrat ekki neitt. Ekkert. Árangurinn er náttúrlega eftir því og vandinn heldur áfram að vaxa. Hann vex. Við höfum haft þetta mynstur áður. Það endar með því að stjórnin springur, hún fer frá, og við öll hér inni kennum hvert öðru um og þá er allt of seint að finna leið. Við sitjum bara eftir og fólkið segir: Hættið þessu, þið getið þetta ekki. Nú skulum við kjósa aftur. Þetta er niðurstaðan, nema ráðherrarnir bregðist öðruvísi við en ég geri ráð fyrir og komi hér upp og segi okkur hvaða lausnir þeir hafa í dag, á þessari stundu, því að tíminn hefur ekki verið of stuttur til þess að komast að niðurstöðu.
    Ég segi að lokum og hef eftir hæstv. ráðherrum: Við eru í öldudal. Við erum í öldudal, segja þeir, og gefa ástæður fyrir því hvers vegna við erum í öldudal. Og ég endurtek það sem ég sagði áðan: Við erum í öldudal þrátt fyrir það að ríkisstjórnin haldi því fram að við séum komnir á núllverðbólgu. Við erum búnir að lækka vextina. Og ég endurtek: Olían er helmingi ódýrari en hún var fyrir rúmu ári eða tveimur árum síðan þegar verð á henni var aðalvandi sjávarútvegsins. Þrátt fyrir þessa miklu, hagstæðu breytingu sem ríkisstjórnin segir hafa orðið, en fáir verða varir við, vitum við af fréttum að meiri líkur eru nú en hafa verið undanfarna marga mánuði fyrir því að OPEC-ríkin séu að sameinast um verðhækkun á olíunni. Í dag var endurkjörinn forseti Venezúela, en það getur haft mikla þýðingu fyrir olíuverðið í heiminum vegna þess að síðast þegar hann var forseti, þetta er í annað skipti sem hann er kosinn, tókst honum að sameina OPEC-ríkin í að hækka olíuverðið. Hann hefur strengt þess heit og lofað því í kosningabaráttu að hann skuli beita sér aftur fyrir hækkun á olíuverðinu. Ef það bætist ofan á þetta góðæri ríkisstjórnarinnar, hvað förum við þá mikið dýpra niður í öldudal? Þess vegna segi ég: Með þessa vitneskju um væntanlegt olíuverð, hvað er fram undan, hæstv. ráðherra? Svar óskast, strax.