Úrbætur í atvinnumálum kvenna
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Flm. (Unnur Kristjánsdóttir):
    Hæstv. forseti. Tillagan sem ég ætla að mæla fyrir er till. til þál. um úrbætur í atvinnumálum kvenna og hún hljóðar svona:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fjögurra manna nefnd til að gera tillögur til úrbóta á atvinnumöguleikum og starfsskilyrðum þeirra kvenna sem vinna við iðnað, landbúnað og sjávarútveg á landsbyggðinni.
    Félmrh. skipi formann nefndarinnar en sjútvrh., iðnrh. og landbrh. skipi einn nefndarmann hver.
    Nefndin starfi á vegum félmrn. og skal skila áliti eigi síðar en 1. júní nk.``
    Fólksfækkun á landsbyggðinni á sér áratuga sögu, margvíslegar ástæður og hefur valdið áhyggjum lengi. Þó að ýmislegt hafi verið gert til að stöðva þessa þróun hefur það ekki tekist. Athygli vert er að á síðustu árum hefur fólksflóttinn af landsbyggðinni fengið á sig nýja mynd. Það eru fleiri konur en karlmenn sem flytja þaðan. Svo er komið að konur eru um 2000 færri en karlar utan þéttbýlissvæðisins á suðvesturhorni landsins.
    Á Austurlandi einu eru konur 600 færri en karlmenn og í mörgum sveitum er hlutfallið 60 karlar á móti 40 konum. Og hverjar eru ástæðurnar? Í einangruðum sveitum hafa konur víða enga möguleika á starfi utan bús. Í sveitum í grennd við þéttbýli býðst íhlaupavinna í frystihúsi, rækjuvinnslu og sláturhúsinu. Í sjávarplássum eru það störfin í fiskvinnslunni sem kalla á konur og þá nær eingöngu störf ófaglærðra við snyrtingu og pökkun.
    Á undanförnum árum hafa hundruð kvenna á landsbyggðinni starfað í ullariðnaði og í einhverjum mæli hafa þær stjórnað og átt saumastofurnar sjálfar. Margar þessar konur eru atvinnulausar í dag og fátt sem bendir til annars en að fleiri verði það. Stundum hefur verið sagt að ekki ætti að syrgja illa launuð störf saumakvenna, en á hitt ber að líta að margar þeirra eru af léttasta skeiði og skiptir meira máli að hafa starf sem þær ráða vel við en há laun. Og eitt er víst að enn hefur ekkert komið í staðinn og útkoman orðið fábreyttari starfsmöguleikar kvenna á landsbyggðinni.
    Hátt hlutfall kvenna meðal þeirra sem vinna störf ófaglærðra í frumvinnslunni hefur ekki breyst þó að konur hafi sótt í sig veðrið á fjöldamörgum sviðum. Konum hefur ekki fjölgað í stjórnunarstörfum innan þessara greina né í betur launuðum störfum tengdum þeim. Þetta geta konur ekki sætt sig við og flytja því til staða sem bjóða þeim betri aðstæður. Og hvað er þá langt í að karlarnir fari sömu leið?
    Flótti kvenna af landsbyggðinni er ekkert séríslenskt. Frændur okkar í Noregi og Svíþjóð þekkja þetta líka og reyna með ýmsu móti að hafa áhrif á þessa óheillaþróun. Ég bendi á að í greinargerð hv. varaþingmanns Unnar Stefánsdóttur með till. til þál. á þskj. 96 er að finna ítarlegar upplýsingar um stöðu kvenna í sveitum og er þar bent á að Svíar og Norðmenn eru að gera átak til að breyta ástandinu. Ég lýsi fullum stuðningi við tillögu Unnar Stefánsdóttur

o.fl., en bæti við að þetta vandamál á ekki síður við um sjávarplássin og frumvinnsluna almennt.
    Í nyrstu byggðum Noregs hefur konum fækkað mikið undanfarin ár. Þar hefur fiskvinnsla og útgerð staðið höllum fæti. Nýlega var hrint af stað verkefni þar sem hópur kvenna lærði notkun tölva í fiskvinnslu og fiskvinnu. Að náminu loknu eiga þær að gegna því lykilhlutverki að koma á notkun á nútímatækni og aðferðum sem talið er að geti breytt miklu um ört versnandi hag sjávarútvegs á þessum svæðum og kannski ættum við að gera það þá líka hér.
    Í Noregi hefur líka á undanförnum árum verið gert átak til að auka þátttöku kvenna í hefðbundnum karlastörfum svo sem á bifreiðaverkstæðum, í flutningagreinum og í sjómennsku með góðum árangri.
    Hæstv. forseti. Í greinargerð með tillögunni er bent á að ýmsar aðgerðir til að hvetja konur til atvinnulegs sjálfstæðis og meiri framtakssemi hafi gefist vel. En betur má ef duga skal. Það er sorgleg staðreynd í jafnréttisumræðu og baráttu síðustu ára að staða og kjör þess stóra hóps kvenna sem vinnur í frystihúsum og iðnfyrirtækjum hefur sáralítið breyst og staða sveitakvenna líklega versnað. Er hægt að finna leiðir til úrbóta? Þessi tillaga er flutt til að fá svör við því.
    Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til félmn. og síðari umræðu.