Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það eru áreiðanlega orð að sönnu að við þingmenn megum gjarnan tala meira um skólamál og íslenska menningu yfirleitt en við gerum hér í hinum háu sölum Alþingis og vil ég í raun þakka þeim þingmönnum öllum sem á þessu þingi hafa lagt fram frv. til breytinga á lögum um grunnskóla. Hér í þessari deild er áður fram komið frv. sem hefur það að megintilgangi að auka aðild foreldra og nemenda að stjórn og innra starfi skólans. Fyrsti flm. að því frv. er Salome Þorkelsdóttir en með henni flytja málið þingmenn úr öðrum stjórnmálaflokkum. Í Nd. er Ragnhildur Helgadóttir 1. flm. að frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla sem í verulegum atriðum fellur saman við það frv. sem hér er til umræðu og er raunar að finna greinar í frv. hv. 6. þm. Reykv. sem eru algerlega samhljóða í því frv. Þetta gefur auðvitað tilefni til þess að varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki sé rétt að menntamálanefndir beggja deilda vinni saman að athugun á þessum frv. öllum og þeim breytingum sem þeim kann að þykja rétt að gera á grunnskólalögunum yfir höfuð að tala.
    Það er laukrétt, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að ýmis atriði í frv. orka mjög tvímælis og hefur reynslan skorið úr um að þar var ekki rétt staðið að verki. Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv. menntmrh. talaði á móti því að mikil miðstjórn væri í skólakerfinu. Þetta er algerlega öndvert við það sem lagt var til grundvallar er grunnskólafrv. var keyrt í gegnum þingið á síðasta degi þess á sínum tíma. Ég er auðvitað mjög ánægður yfir því að hæstv. menntmrh. skuli vera mér sammála um það að nauðsynlegt sé að gefa skólamönnum sem frjálsastar hendur til þess að þeir geti innt sitt mikilvæga starf af hendi því að auðvitað hlýtur það eingöngu að vera jákvætt ef hægt er að efla frumkvæði skólastjóra og kennara og um leið að gera starf þeirra ánægjulegra og árangursríkara.
    Ég tel rétt, herra forseti, að lesa hér upp smákafla úr fylgiskjali með frv. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur sem mjög kemur inn á þessi atriði sem við erum hér að fjalla um. Þetta er raunar kafli úr áfangaskýrslu um skóla og dagvistunarmál sem samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumál skilaði, en í þeirri nefnd áttu sæti Inga Jóna Þórðardóttir formaður, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, tilnefnd af fjmrh., Bessí Jóhannsdóttir, tilnefnd af menntmrh., Lára V. Júlíusdóttir, tilnefnd af félmrh., og Þrúður Helgadóttir, tilnefnd af heilbr.- og trmrh. Áður hafði starfað nefnd, sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir var formaður fyrir, er skilaði áliti um samskipti foreldra og skóla og eru þessi frumvörp öll angi af því starfi hvert með sínum hætti. Í þessari áfangaskýrslu segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þjóðfélagsbreytingar síðustu tveggja til þriggja áratuga hafa haft sín áhrif á skólastarf og samstarf heimila og skóla. Í kjölfar þess að algengara er að báðir foreldrar vinni langan vinnudag utan heimilis hefur hlutverk skólanna orðið æ þýðingarmeira. Ýmis uppeldisleg atriði eru nú í ríkari mæli í höndum

skólanna en áður var. Skólastarfið hefur breyst mikið og gert það að verkum að foreldrum finnst oft á tíðum erfitt að taka þátt í því. Margt hefur því valdið því að samstarf foreldra og skóla hefur ekki verið eins og æskilegt væri, bæði út frá hagsmunum heimila og ekki síður hagsmunum skóla.
    Á síðustu árum hefur þó ýmislegt verið gert til að bæta hér úr. T.d. eru nú starfandi foreldra- og kennarafélög við allflesta grunnskóla landsins og hafa þau átt mikinn þátt í að efla tengsl heimila við skóla. Skólinn hefur þó ekki reynst þess megnugur að öllu leyti að mæta þeim þörfum sem tvímælalaust skapast þegar foreldrar vinna úti eins lengi á degi hverjum og raun ber vitni. Til skamms tíma tíðkaðist það víða að börn þyrftu að fara margar ferðir til og frá skóla daglega. Gjörbreyting hefur orðið hér á, einkum á allra síðustu árum. Stærstur hluti grunnskólabarna býr við samfelldan skóladag og vantar nú víða einungis herslumuninn til að ná markinu. En hins vegar er skóladagur enn tiltölulega skammur, einkum þó hjá yngstu börnunum. Tillögur nefndarinnar sem hér fara á eftir miða við að samræma enn betur skólastarfið og þarfir fjölskyldunnar.
    Nefndin vill auk þess leggja áherslu á að nauðsynlegur þáttur í fjölskyldustefnu er að skólar taki í starfi sínu mið af jöfnum rétti og jafnri ábyrgð kynjanna. Börnum sé kennt allt frá fyrstu tíð um ábyrgð og skyldur fjölskyldulífs og að foreldrar bera jafna ábyrgð á börnum sínum. Brýnt er að nemendur fái sams konar kennslu hvort sem um er að ræða drengi eða stúlkur. Benda má á að efling heimilisfræðslu er þýðingarmikill þáttur í þessu sambandi.
    Margt hefur verið til umfjöllunar hjá nefndinni sem ekki verða gerðar tillögur um að sinni. Má í því sambandi nefna umferðarmál sem er veigamikill þáttur í nútímaþjóðfélagi. Um þau verður sérstaklega fjallað síðar. Enn fremur vill nefndin vekja athygli á nauðsyn þess að margvíslegar fræðsluherferðir í skólum landsins, svo sem vegna ávana- og fíkniefna, heilbrigðis og tannverndar, verði fremur ofnar saman við almennt kennsluefni.
    Helstu tillögur nefndarinnar í þessum málaflokki eru eftirfarandi:
    Nefndin telur æskilegt markmið að allir grunnskólanemar njóti skóladvalar a.m.k. 6 klst. á dag. Þessu markmiði verði náð í fjórum áföngum þannig að
skóladagur verði lengdur úr 22--35 stundum á viku í 36--37 stundir á viku.
    Með skipulögðum aðgerðum innan fræðsluumdæmanna verði komið á skólaathvörfum þar til tillögur um lengingu skóladags verði komnar til framkvæmda. Lokið verði við að koma á samfelldum skóladegi miðað við núverandi húsakost skólanna skólaárið 1989--1990.
    Forskóladeildum við grunnskóla verði breytt þannig að allir njóti sama kennslustundafjölda óháð fjölda barna. Skólaráð sem í eigi sæti fulltrúi foreldra starfi við hvern grunnskóla. Fræðsluskrifstofur hafi yfirlit

um starfsemi foreldra- og kennarafélaga. Staða umsjónarkennara við 7.--9. bekk verði styrkt. Kannað verði rækilega hvað valdi því að skólaár er enn víða styttra en níu mánuðir.``
    Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar yfir þetta en eins og sést af þessum upplestri er gripið þarna á mörgum þáttum sem nauðsynlegt er að hyggja betur að en gert hefur verið. Sjálfur hef ég reynslu af því sem kennari hversu þýðingarmikið það er að með skipulögðum aðgerðum verði komið á skólaathvörfum innan fræðsluumdæmanna. Það er auðvitað oft mjög sorglegt að horfa til þess hvernig börnum og jafnvel unglingum reiðir af á þeim tímum sem þau eiga ekkert athvarf. Ég tel að þetta sé því skólamál og menningarmál, auðvitað uppeldismál líka, og geti átt mjög mikinn þátt í því að það losni svo um börn eða unglinga að þau nái ekki að festa sig við það verk sem unnið er í skólunum og njóti þar af leiðandi ekki þeirrar kennslu sem þar fer fram. Ég tel þetta mál kannski með því brýnasta sem við erum nú að ræða um í sambandi við skólamálin almennt, af því sem snýr að nemendum, og vil mjög hvetja til þess að með öllum hætti verði reynt að stuðla að því að öryggi barna og unglinga í skólum landsins geti orðið viðhlítandi og þar verði enginn brestur á.
    Ég hlýt að fagna þeim ummælum hæstv. menntmrh. að hann vilji mjög stuðla að endurmenntun kennara. Það er auðvitað ekki vansalaust hvernig sums staðar er búið að nemendum vegna ónógs kennaraskorts. Þetta er eitt af þeim málum sem við þingmenn utan af landi hljótum að leggja hvað ríkasta áherslu á. Það var mjög ánægjulegt þegar ofan á varð í tíð Sverris Hermannssonar sem menntmrh. í tengslum við lög um starfsréttindi kennara að þessi mál yrðu tekin fastari tökum, en eins og við vitum öll hér er framkvæmdin auðvitað undir því komin að fé fáist á fjárlögum til þess að fylgja eftir endurmenntun kennara. Þó hef ég orðið mjög var við það að ýmsir kennarar sem ekki höfðu fyllstu réttindi hafa aflað sér þeirra á síðustu árum eða jafnvel áratugum og er greinilegt að vilji þeirra margra hverra stendur til þess að nýta sér slíka möguleika eins og hægt er að krefjast af þeim eða jafnvel enn þá frekar og hafa þeir mikinn áhuga á því. Þeir leggja margir hverjir nótt við dag til þess að ná tökum á slíku námi sem auðvitað er nauðsynlegt fyrir þá sem vilja gera kennslu að atvinnu. Ég fagna því þess vegna mjög að hæstv. menntmrh. vildi ýta sem mest á það mál og auðvitað erum við þá ekki að tala um að gera slíkt í eitt skipti, heldur er nauðsynlegt að slík endurmenntun geti haldið áfram, raunar ekki aðeins í sambandi við kennaramenntunina heldur líka á öðrum sviðum. Það er nú einu sinni svo að hér í sölum Alþingis hefur oft verið lítill skilningur á nauðsyn þess að menn geti með auðveldum hætti lagað sig að breyttum þjóðfélagsháttum og breyttum kröfum sem gerðar eru í þjóðfélaginu. Mér koma aðeins í hug í þessu sambandi þeir miklu erfiðleikar sem því hafa fylgt að gera ýtrustu kröfur til skipstjórnarmanna eða vélamanna á t.d. dagróðrarbátum og er auðvitað tími

til kominn að íhuga hvað hægt sé að gera til þess að auðvelda mönnum hvar sem er á landinu að afla sér þeirrar lágmarksmenntunar að tök séu á því, raunveruleg tök, fyrir fólkið úti í hinum dreifðu byggðum að manna báta sína þannig að forsvaranlegt sé. Þetta er aðeins einn þáttur, sem snýr að vísu að útgerð og veiðum en ekki að menntun skólabarna, en er eigi að síður mjög mikilvægur þó svo að við horfum fram á það nú, herra forseti, að ríkisstjórnin hafi lítinn skilning á útgerð almennt eða þýðingu sjávarútvegsins fyrir þjóðfélagið. Það má kannski segja að það sé vel við eigandi að minnast á þetta hér í þessum ræðustól núna vegna þess að ég minnist þess að þegar grunnskólafrv. var rætt á sínum tíma stóð einmitt hér í þessum sal í ræðustól einn af þm. Sjálfstfl. og þá stóð einnig svo á að forsrh. landsins var úr Framsfl. og þá stóð einnig svo á að þm. Sjálfstfl. sá ástæðu til þess að brýna ríkisstjórnina á því að ekki mætti gleyma sjávarútveginum né þeirri staðreynd að kennslu verður ekki haldið uppi hér í landinu ef við hættum að fiska. Það má því líka hér og nú við þetta tækifæri leggja ríka áherslu einmitt á þetta atriði.
    Ekki skal ég fara frekar út í endurmenntunarmálin, en ástæða er til vegna orða hæstv. menntmrh. að víkja að því síðar með öðrum hætti en í sambandi við grunnskólann hvernig unnt sé að styðja að því að starfsmenntun manna úti í þjóðfélaginu sé nægileg og trygg þannig að atvinnuvegirnir geti gengið.
    Ég er öldungis sammála því að það er okkur mikið áhyggjuefni hversu margir það eru sem fara á mis við framhaldsskólanám og fyrir því eru auðvitað margvíslegar ástæður. Ein ástæðan er vafalaust sú að unglingarnir mótast mjög af því umhverfi sem þeir vaxa í. Það veldur því t.d. í ýmsum sjávarplássum að
fólk tekur sig síður upp á þeim stöðum til þess að sækja framhaldsskóla en kannski annars staðar þar sem þéttbýlið er meira og unglingarnir eiga erfiðara með að komast í vinnu. Það liggur ekki jafnbeint við eins og t.d. að fara á grásleppu eða sækja sjóinn eða eitthvað því líkt. Að sumu leyti valda þessu kannski atvinnuhættir í fæðingarsveit þar sem viðkomandi unglingar vaxa upp. Að öðru leyti er skýringin áreiðanlega sú að efstu bekkir grunnskólans eru byggðir upp með þeim hætti að þeir nemendur sem á annað borð verða undir eiga litla möguleika á því að rétta sig aftur við. Þetta byggist að sumu leyti á þeirri ákvörðun sem tekin var með grunnskólalögunum að allir nemendur skyldu ljúka níu bekkjum, og ég hygg að námskröfur sem gerðar eru séu svipaðar í öllum þessum bekkjum, hvort sem nemandanum sækist námið vel eða misjafnlega.
    Nú vitum við það að sumir nemendur hafa gaman af því að reyna á sig. Þeir eru kannski duglegir að grípa til erfiðra verka en eru ekki bókhneigðir. Aðrir nemendur eiga betra með að festa sig við bókina. Nemendur á þessum aldri eru misjafnir eins og fullorðið fólk, eins og við öll sem hér erum inni. Menn eiga auðvitað að vera mismunandi bókhneigðir og hafa mismikinn áhuga á því að leggja sig eftir því

sem á dagskrá er hverju sinni. Þess vegna held ég að sú hugsun sé röng að stefna öllum nemendum að grunnskólaprófinu eins og það er uppbyggt.
    Í gamla daga var sá háttur á hafður í gagnfræðaskólanum að sumir nemendur, þeir sem voru mest bráðþroska eða höfðu lagt sig mest eftir hinu bóklega námi, áttu kost á að ljúka landsprófi á þremur árum en aðrir nemendur fengu fjögur ár og gátu þá lokið gagnfræðaprófi sem síðustu árin hafði sama gildi og landsprófið. Við sem kenndum í þessum almennu gagnfræðaskólum, ekki í landsprófinu heldur undir hið almenna gagnfræðapróf, fundum það glögglega að þessi tilhögun var mjög skynsamleg og það er enginn vafi á því að 4. bekkur gagnfræðaskólans gamla hafði mikla þýðingu fyrir marga unglinga á þeim tíma og við urðum vör við það. Einmitt í þeim bekk fengu þeir nýtt sjálfstraust og höfðu oft vilja til þess að nálgast námsefnið með öðrum hætti en áður. Það var eins og þau lifnuðu við á þessum eina vetri. Þess vegna olli það okkur kennurum á þeim tíma miklum vonbrigðum þegar einmitt þessi bekkur var lagður niður. Ég gæti nefnt fjölmarga nemendur sem ég hafði og einmitt blómstruðu þetta síðasta ár gagnfræðaskólans. Ég hygg því að það sé ekki aðeins nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig við eigum að byrja grunnskólann, heldur sé kominn tími til að endurmeta hvort skólastefnan í efstu bekkjum grunnskólans sé rétt og hvort gefa eigi nemendum kost á því að fara tvær leiðir. Sumir geti kannski orðið einu ári lengur í skólanum en aðrir og auðvelt að gera það með þeim hætti að ekki verði neinum til minnkunar og þarna verði um sjálfstætt val að ræða sem nemendur smátt og smátt laga sig að. Ég held að nauðsynlegt sé að koma þessu á framfæri. Að vísu hef ég ekki á allra síðustu árum rætt þetta við kennara. Ég veit ekki hvort einhverjir nýir möguleikar eru komnir til sögunnar frá því sem ég vissi síðast. Ef svo er fagna ég því auðvitað, en ég held að þetta sé atriði sem nauðsynlegt er að athuga mjög gaumgæfilega.
    Ég tek mjög undir það sem hæstv. menntmrh. sagði áðan þegar hann talaði um að verk- og listmennt verði efld í skólunum og að það hafi mikið gildi fyrir nemendur. Ég hef oft haft orð á því í sölum Alþingis hversu ánægjulegt hafi verið að fylgjast með því hvernig tónlistarnám hefur eflst í skólum, ekki aðeins hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða á helstu þéttbýlisstöðunum úti á landi, heldur hefur maður orðið var við þetta í fámennum skólum og fámennum byggðarlögum, að fólkið þar hefur viljað leggja einmitt mikla rækt við tónlistarnámið og þar hefur náðst á sumum stöðum ævintýralegur árangur ekki aðeins innan skólans, heldur hefur orðið getum við sagt tónlistarleg vakning í heilum sjávarplássum. Auðvitað er slík vakning af hinu góða og sérstaklega ef við gætum líka að hinu, að þeir unglingar sem venjast við þau öguðu vinnubrögð sem tónlistarnám útheimtir hafa reynst betri nemendur einnig í öðrum greinum. Þó svo að tónlistarnámið hafi tekið mikinn tíma hefur komið í ljós að þessir nemendur hafa,

kannski af nauðsyn, lært að skipuleggja sinn tíma betur en ýmsir aðrir og þess vegna hafa þeir oft og tíðum reynst öðrum fremri í öðrum greinum einnig. Þannig hefur tónlistarnámið ekki aðeins uppeldislegt gildi. Það hefur mikið þroskagildi og er að öllu leyti þess eðlis að nauðsyn er að efla það sem best og þykist ég vita að hið sama eigi við um aðrar listgreinar þó svo að þær komi öðruvísi við nemendur og ég hafi mínar efasemdir um að þær hafi sama þroskagildi og tónlistarnámið.
    Um leið og ég tek undir að rétt sé að stuðla að meiri verk- og listmennt en verið hefur vil ég leggja áherslu á að íslenskunni má ekki gleyma. Ég þori ekki að fara með það hvernig íslenskunámið er nú í skólum. Ég þekki heldur ekki nú síðustu árin hvernig kennslu í íslenskri sögu er háttað eða hvernig íslensk menning er yfirleitt kynnt í skólum landsins. Ég hef að vísu séð bækur í íslenskri sögu sem komu mér mjög á óvart og ollu mér miklum vonbrigðum því að þær hafa verið svo þrautleiðinlegar að ég efast um að einn einasti alþingismaður hefði nennt að lesa þær til enda, hvað þá reyna að gera sér
grein fyrir inntaki þeirra, en þó er ætlast til þess af börnunum að þau lesi þetta eins og páfagaukar. Sú bók sem ég á við hefur verið mjög gagnrýnd opinberlega, en ég held að hún hafi samt verið notuð áfram, a.m.k. fékk drengur mér nákominn einu sinni að lesa þetta í skóla og var mjög fýldur á svipinn þegar kom að því að maður var að reyna að fá hann til þess að sökkva sér niður í þau fræðin. Ég held að það væri mjög gagnlegt, hæstv. menntmrh., ef menntamálanefndum þingsins væri kynnt hvernig staðið er að íslenskukennslu í grunnskólum og framhaldsskólum og væri ég mjög þakklátur fyrir það ef nefndirnar gætu fengið þó ekki væri nema einn bókastafla með leiðbeiningum um hvað sé lesið í grunnskólum og framhaldsskólum. Sumt af því sem ég hef orðið var við að nemendur eru látnir lesa er algjörlega út í hött. Það hefur kannski verið komið inn með skáldsögu til barnanna, sem þau hafa verið látin lesa, sem eiga ekki aðra skýringu en einhverja kunningjaskýringu að þær eru lesnar, eru týndar og tröllum gefnar tveim árum síðar og tíu árum síðar eru allir búnir að gleyma að viðkomandi bók kom út. En ofan í slíkan fróðleik er börnunum skipað að steypa sér og sjá auðvitað hvergi til lands þegar þau reyna að synda. Þess vegna væri mjög fróðlegt að fá slíka upptalningu, fá að kynna sér það hvaða sess t.d. Íslendingasögur okkar hafa í skólunum, fá yfirlit yfir það hvaða ljóð t.d. nemendum er gert skylt að ræða utan að. Það var ekki lítill þáttur í okkar uppeldi að læra kvæði þjóðskáldanna, okkar stórskálda, og auðvitað nauðsynlegur þáttur í þeirri rækt sem við Íslendingar hljótum að leggja við það að frá kynslóð til kynslóðar geymist tilfinningin um stuðla og höfuðstafi. Það er gjörsamlega ómögulegt að halda að það erfist eins og svartur háralitur eða eitthvað þvílíkt. Það gerir það ekki. Menn verða að fara með ljóðin upphátt, menn verða að hlusta á þau. Það verður að leggja mikla rækt einmitt við þann þátt námsins ef

við eigum að geta geymt þennan menningararf til næstu kynslóðar, menningararf sem er einstæður í sögu þjóðanna og okkur hefur tekist að varðveita í þúsund ár.
    Ég er auðvitað ánægður yfir því hversu mikið hefur áunnist í sambandi við framhaldsskólana nú á allra seinustu árum með því að efla framhaldsskólana úti um land í kjölfarið á framhaldsskólalöggjöfinni og í tíð síðustu menntmrh. Ég legg sérstaka áherslu á það að nú hefur t.d. í mínu kjördæmi þar sem ég er kunnugastur tekist að ná því fram að stýrimannaskóli er á Dalvík og sömuleiðis kennsla í fiskiðnaði á framhaldsskólastigi sem tengist auðvitað mjög atvinnuháttum við Eyjafjörð og á þessu svæði. Á Akureyri er vélstjóranám og síðan verður sett þar á stofn háskóladeild í sjávarútvegsfræðum. Þetta er auðvitað allt saman mjög ánægjulegt og vonir mínar hafa satt að segja staðið til þess að í kjölfarið á þessu eða jafnhliða sé hægt að koma upp kennslu í fiskeldi á Húsavík vegna þeirrar sérstöðu sem það svæði hefur í sambandi við fiskeldið, Öxarfjörðurinn með öllum þeim möguleikum sem þar eru. Laxá er þarna rétt við og miklir möguleikar á þessum vettvangi, atvinnulegir möguleikar, sem ég hygg að nauðsynlegt sé að huga vel að, og fellur vel inn í þann þríhyrning sem ég var hér að lýsa. Það var auðvitað ánægjulegt að sjá það nú á þessu vori að t.d. framhaldsskólinn á Laugum skyldi fá að njóta jafnmikillar aðsóknar og raun ber vitni. Skýringin er auðvitað að sumu leyti sú að fyrsti bekkur framhaldsskólans er nú fjölmennari en bæði fyrr og síðar. Eftir sem áður held ég að þetta sé vísbending um að æ fleiri hyggi á framhaldsnám, stærri hluti hvers árgangs en áður var.
    Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa um þetta fleiri orð. Öll þessi frv. sem ég hef hér vikið að eru merkileg, hvert með sínum hætti, og að sumu leyti eru þau af sama grunni. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi afgreiði þetta mál núna á þessu þingi og vildi mjög stuðla að því að frv. yrðu öll unnin saman þannig að menntmn. beggja deildanna gætu komið að þessu verki og ekki mundi spilla fyrir ef hæstv. menntmrh. sýndi nefndunum þann trúnað að þær fengju að fylgjast með því sem hann kallar íslenska skólastefnu og ég vil vona að rísi undir nafni.