Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í umræðum um þetta frv. sem er á þskj. 132, um breyting á lögum um grunnskóla, að hér í þessari hv. deild hefur oftlega áður verið fjallað um skólamál og þá í tengslum við frv. sem þingmenn hafa flutt, m.a. sú sem hér stendur. Og það var ánægjulegt að heyra að hv. 2. þm. Norðurl. e. er ánægður með að vera kominn í þennan góða hóp og uppgötva það að hér fer fram mikil og góð menningarleg umræða um svo mikilvæga málaflokka sem skólamálin eru.
    Framsögumaður, hv. 6. þm. Reykv., flutti ítarlega ræðu þegar hún mælti fyrir frv. bæði á síðasta þingi og eins aftur nú. Í raun og veru þyrfti ég ekki svo miklu við hennar mál að bæta eða annarra þeirra sem hér hafa talað. En þar sem ég á því miður ekki lengur sæti í hv. menntmn. Ed. og hef því ekki tækifæri til að fjalla um þessi mál í nefnd, þá vildi ég aðeins láta í mér heyra. Eins og aðrir fagna ég þeirri umræðu sem hér hefur orðið um skólamálin. Segja má að það verði aldrei of mikið af slíkri umræðu á hv. Alþingi eða í þessari hv. deild því að góð vísa er aldrei of oft kveðin.
    Það kom fram hjá frsm., hv. 6. þm. Reykv., að stundum hefur verið talað um að það séu aðeins konur sem fjalli um þessi svokölluðu mjúku mál, það séu aðallega þeirra áhugamál, mál sem þær láti sig fyrst og fremst varða. Að sumu leyti er þetta auðvitað rétt því að dagleg umönnun barna hvíldi fyrst og fremst, ég segi nú hvíldi, á konum, á mæðrum, og ábyrgðin og þá samviskan var á þeirra herðum eða brennur fyrst og fremst á þeim þegar vandamálin sem snúa að umönnun barna færast á aðra aðila, svo sem dagvistarstofnanir og skóla, færast í ríkara mæli frá heimilunum. Þess vegna hefur það verið fyrst og fremst hlutskipti kvenna á vettvangi stjórnmálanna, og ég vil nú leyfa mér að segja í öllum stjórnmálaflokkum, að benda á mikilvægi þess að aðlaga þjóðfélagið þessum breyttu þörfum eins og hér hefur reyndar komið fram. Það er vissulega ánægjulegt að viðhorf karla hafa breyst og þeir láta sig sem betur fer þessi mál nú varða jafnhliða sem konur gera það eins og reyndar hefur sýnt sig og sannað í þessum umræðum í dag. Þannig var líka staðið að þessum málum hjá fyrrv. ríkisstjórn þegar hæstv. fyrrv. forsrh. skipaði samstarfsnefnd ráðuneytanna um málefni fjölskyldunnar og hér hefur hv. 2. þm. Norðurl. e. komið inn á þau mál sem hafa verið flutt af þingmönnum Sjálfstfl. í Nd. og reyndar þáltill. í Sþ. í framhaldi af þeim tillögum. Ég ætla þess vegna að sleppa því að endurtaka það hér.
    En ég fagna sérstaklega þeim viðhorfum sem endurspegluðust í ræðu hæstv. menntmrh. áðan því að mér finnst þau staðfesta það, sem ég hef reyndar trúað að væri að gerast á undanförnum árum, að þessi mál, sem við erum hér að fjalla um, eru í raun og veru hafin yfir öll flokksbönd. Ég get ekki betur séð en að allir stjórnmálaflokkar eigi að geta sameinast um þau meginatriði sem brenna á íslensku þjóðfélagi í dag í skólamálum, sem er að sveigja skólastarfið, innra starf

skólanna, að breyttum þjóðfélagsháttum en það er einmitt það sem þetta frv., sem hér er verið að fjalla um, felur í sér.
    Eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. var mælt fyrir hliðstæðu frv. í Nd. fyrir nokkru. Það er á þskj. 90 og er 88. mál þingsins. Það frv. er flutt af þremur þingmönnum Sjálfstfl. í framhaldi af tillögum áðurumræddrar nefndar og er samhljóða þessu frv. að öðru leyti en því að það er styttra og þar er fyrst og fremst fjallað um þær lagabreytingar sem þarf að gera til þess að framfylgja tillögum nefndarinnar.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra. Ég er sammála honum í því að það má ekki þrengja óþarflega ýmis atriði í lögunum sem varða breytingar og starf skólanna, eins og t.d. varðandi mötuneytin eða 4. gr. frv. sem hér er til umræðu. Ég held að það sé í raun og veru ástæðulaust. Það er hægt að koma þessum málum í kring án þess að lagabreyting komi til, því að aðstæðurnar eru mjög misjafnar eftir skólum, eftir því hvar á landinu það er eða eftir því um hvaða skóla er að ræða, eins og hér hefur reyndar komið fram í máli manna. Það er hægt að breyta og lagfæra svo margt án þess að það þurfi að kosta svo mikið fjármagn. Við þekkjum dæmi þess að nestismál skólabarna hafa verið leyst í skólum t.d. með því móti að ráða konur, húsmæður sem vilja taka að sér hlutastörf, þar sem þær sjá jafnvel um að smyrja handa börnum og elda kannski súpu eða annan léttan málsverð.
    En ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og skiptir meginmáli: að börnum sé tryggð holl og góð næring í skólanum, ekki síst í lengdum skóladegi. Það er dálítið merkilegt til umhugsunar um breytt viðhorf að það eru ekki ýkja mörg ár, kannski áratugur, síðan megináherslan og krafan var sú að kennarar fengju næringu í skólanum. Það var víða komið upp mötuneytum kennara en börnin máttu láta sér nægja reykinn af réttunum. Ég hef alltaf verið mótfallin þessu og ég hef oft bent á það að kannski mætti snúa þessu við, hafa endaskipti á hlutunum og láta börnin fara í mötuneytin og kennarana taka með sér nesti. Það væri kannski skynsamleg ráðstöfun á meðan ekki er hægt að framfylgja þessu fyrir alla starfsmenn skóla, þ.e. bæði kennara og nemendur?.
    Ég vildi, eins og ég sagði, aðeins koma hér upp til þess að láta í mér
heyra, taka undir meginefni þessa frv. og í raun og veru taka undir öll þau viðhorf sem komu fram í máli hæstv. ráðherra. Ég fagna því svo sannarlega að hann vill ekki sjá forsjárhyggjuna í skólunum, hann vill hafa þetta sveigjanlegt, að skólarnir geti aðlagað sig þörfum á hverjum stað. Og ég gat ekki betur skilið en að hann væri sammála því að skólinn væri fyrir börnin en ekki öfugt.
    Það var minnst hér á stærð skóla og húsnæði. Ég held að við ættum að læra af reynslunni. Það hefur of mikið verið lagt upp úr því og of miklu fjármagni varið í útlit skólanna og hönnun húsnæðisins. Ég held að það þurfi að snúa sér frekar að því að þar sem

slíkar aðstæður kalla á að skólarnir séu smærri og þeir séu sveigjanlegri sé húsnæðið þannig gert að það sé hægt að hafa t.d. grenndarskóla á þéttbýlisstöðum til þess að auka umferðaröryggi barnanna, eins og hér kom fram, en einn af þessum þýðingarmiklu þáttum sem lúta að samfelldum skóladegi er umferðaröryggi, að fækka ferðum barna á milli heimilis og skóla og stytta leiðirnar á milli heimilis og skóla yfir hættulegar umferðaræðar.
    Það var sjálfsagt fjölmargt fleira sem ég ætlaði að koma inn á, hæstv. forseti, en ég þykist vita að við séum farin að syndga hér upp á náðina hvað varðar tíma þessa fundar, eða er það ekki rétt? ( Forseti: Það er ekkert tímabundið svo upp á mínútu hér.) Getum við haldið áfram hér endalaust? Ég hélt að það væru þingflokksfundir. ( Gripið fram í: Það er á morgun.) Það voru gleðileg tíðindi að ég hef tekið dagafeil. Mér fannst vera kominn miðvikudagur og það væri þingflokksfundur og var orðin svolítið óróleg, en það er vegna þess að ég á svo auðvelt með að setja mig í hlutverk hæstv. forseta og veit hvernig honum líður ef farið er að misnota tímann. --- En engu að síður er ýmislegt fleira sem ég gæti komið hér inn á, t.d. það sem hæstv. ráðherra fjallaði um varðandi lista- og menningarmál sem ætti að færa meira inn í skólana. Ég er honum svo hjartanlega sammála í þeim efnum. Ég vil einnig taka undir það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. kom hér inn á og vildi leggja megináherslu á þýðingu tónlistarkennslunnar í grunnskólanum, tónlistaruppeldisins vil ég leyfa mér að kalla það, því að þetta er mjög þýðingarmikill þáttur sem ekki hefur verið lögð nægjanleg rækt við.
    Við erum svo heppin að tónlistarskólar hafa risið upp úti um allt land á undanförnum árum eða áratugum. Og þeir hafa, eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e., sannað gildi sitt fyrir löngu. Það vill svo til að tónlistarskóli í Mosfellsbæ á einmitt 20 ára afmæli á þessu hausti. Og ég þekki það af reynslu þar sem ég var búin að vera formaður skólanefndar þar í 20 ár þegar mér þótti nú mál að linnti og þekki því vel til þess starfs sem tónlistarskólarnir hafa unnið fyrir æskufólkið og þann uppeldislega þátt sem það gefur nemendunum. Þess vegna vil ég segja það við hæstv. menntmrh. að ef við eigum eftir að sjá það í náinni framtíð að undirstöðumenntun tónlistarfræðslunnar verði færð inn í grunnskólana, eins og ég held að margir séu sammála um að ætti að vera, þá væri það af hinu góða.
    Ég hef alltaf litið svo á að t.d. það að læra að lesa nótur ætti að fylgja öðru lestrarnámi því að það eru talverð fjárútlát fyrir fjölskyldur að senda börn sín í tónlistarskóla. Þar þarf að greiða nemendagjöld sem eru þó nokkur fjárútlát, því að oft er það svo að ef það eru fleiri en eitt barn á sama bæ, eins og þar stendur, þá er það bara ekki eitt þeirra sem fer í tónlistarnámið heldur öll. Og þá er þetta orðinn talsverður peningur fyrir eina fjölskyldu að rísa undir. Þess vegna held ég að það væri af hinu góða ef tekin væri sú stefna að undirstöðufræðslan í tónlistinni færi fram í grunnskólunum. Tónlistarskólarnir gætu svo

orðið framhaldsskólarnir fyrir þá sem vilja halda áfram á þeirri braut. Ég vildi aðeins skjóta þessu inn vegna þess að talað var um þýðingu tónlistarkennslu.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. minntist á kennslubækurnar. Það er nú kannski ekki beinlínis það sem er hér á dagskrá, en ég vildi benda honum og öðrum hv. þingdeildarmönnum á að í því frv. sem hér hefur verið minnst á og ég mælti fyrir og er 1. flm. að, um skólaráðin, komum við einmitt inn á þennan þýðingarmikla þátt. Ef foreldrar ættu fulltrúa í slíku skólaráði þá væri kominn lykillinn að því að fylgjast með hvaða ljóðabækur viðkomandi skóli ætlar að kenna sínum nemendum eða sögubækur eða hvað við viljum kalla það. Þetta var svona smáinnskot varðandi þann þátt málsins.
    Ég nefndi hér mjög þýðingarmikinn þátt sem við vitum að er einn af þessum stóru útgjaldaliðum á fjárlögum, skólabyggingarnar. Það væri áreiðanlega þess virði að endurskoða t.d. normin og aðrar reglur í sambandi við byggingar skólamannvirkja og þær kröfur sem gerðar eru í þeim efnum með það fyrir augum að þar væri meiri sveigjanleiki. Með því móti væri hægt að spara meira. Því að það er staðreynd, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra að ég held, að íbúafjölgun og -fækkun getur sveiflast til og frá í sama bæjarfélaginu, í bæjarhlutum ef við tökum t.d. höfuðborgina eða kaupstaði af stærri gerðinni. Það getur orðið vandamál í viðkomandi sveitarfélagi að sitja uppi með þessar stóru skólahallir þegar börnum á skólaaldri fækkar. Það væri æskilegra vegna útvíkkunar á byggðakjörnum að geta fært grenndarskólana heim til barnanna og
að þurfa ekki að sitja uppi með þessar stóru byggingar, en oft hefur það nú komið í hugann þegar við stöndum frammi fyrir þessu dýru skólabyggingum sem eru svo jafnvel vanbúnar að öðru leyti þar sem ekki eru til peningar til að búa þessi fallegu, dýru hús tækjum og búnaði eins og þyrfti að vera.
    Þetta er í megindráttum það sem ég vildi segja. Ég ítreka það að ég lýsi stuðningi við meginefni þessa frv., þó að í því séu atriði sem að mínu mati hefðu kannski mátt missa sig og ég minntist hér á áðan að væru ekki brýn nauðsyn. En ég tek líka undir það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að þar sem hliðstæð frv. eru til umfjöllunar í báðum deildum held ég að skynsamlegt væri að koma á samvinnu á milli nefndanna tveggja sem fá frumvörpin til umfjöllunar.