Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Kannski er það nú ekki við hæfi að nær óskólagenginn þingmaður troði hér í pontu til þess að ræða jafnmikilvægt mál og hér er um að ræða, enda skal ég ekki setja á langa tölu að því er þetta varðar.
    Það er enginn vafi á því að ýmislegt í þessu frv. gæti orðið til bóta. Ég taldi rétt nú við þessa umræðu að tjá mig um meginþáttinn í þessu frv., þ.e. um lengingu skólatíma. Ég er andvígur því. Þó tel ég mig ekkert síðri barnavin en þá sem standa að því frv. sem hér er um að ræða. Ég fékkst sjálfur við kennslu í níu ár, að vísu sem fúskari í faginu, en taldi mig þá komast að reynslunni um það að börn eru orðin leið á löngum skólatíma. Við horfum framan í þá staðreynd að talsvert af grunnskólalögunum, sem sett voru 1974, er ekki framkvæmt enn þann dag í dag. Margt af því sem ekki er framkvæmt í þeirri löggjöf gæti orðið til bóta. Og ég er þeirrar skoðunar að ekki bara grunnskólakerfið hjá okkur, heldur og menntakerfið allt, þurfi nánast að stokka upp. Ég tek mjög undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að því er varðar t.d. tónmenntunina, að því er varðar það að kenna ungu fólki að koma á framfæri skilmerkilega og læra ljóð okkar góðskálda, en það er nöturlegt til þess að vita að m.a.s. æðsta stofnun í menntakerfi okkar Íslendinga er að útskrifa einstaklinga sem nánast eru hvorki talandi né skrifandi. Nánast hvorki talandi né skrifandi. Þar þarf ábyggilega líka að verða breyting á í menntun. Ég held að við gætum gert ýmislegt innan þess lagaramma sem nú er til staðar án þess kannski að það mundi kosta ýkja mikla fjármuni. Ég er á engan hátt að hafa á móti ýmsu því sem er í því frv. sem hér er verið að ræða, þó að ég hafi þessa skoðun að vera andvígur lengingu skólatíma. Það er ýmislegt annað í þessu frv. sem er með öðrum hætti og gæti orðið til bóta, en allt kostar það peninga. Og það er auðvitað spurning til flm. frv.: Hvar er meiningin að ná í þá peninga? Hvaðan á að taka þá, 2 1 / 2 til 3 milljarða? Það er auðvitað afskaplega gott og gaman að geta staðið að flutningi mála, sem vissulega geta horft til bóta á ýmsa vegi, en það þarf auðvitað líka að fylgja slíkum málum tekjuöflun. Hvar á að fá fjármagnið til þess að gera hlutina? Mér sýnist að allt sigli nú . . . (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm. Eiður Guðnason? ( EG: Þá er það bara búið til.) Það er búið til já, nú þá er fengið svar við því. Væntanlega svarar hv. þm. fyrir Kvennalistann. (Gripið fram í.) Mér sýnist nú allt benda til þess að menn þurfi frekar að draga saman seglin að því er varðar ríkisútgjöld heldur en að fara á hinn veginn, a.m.k. í bili því miður. Menn þurfa að hyggja betur en oft áður að þeim krónum sem þeir telja sig geta séð af til menntunarstarfa.
    En eigi að síður er umræða um þessi mál gagnleg og nauðsynleg og það er mjög nauðsynlegt að sjónarmið sem flestra komi fram því að auðvitað eru um það skiptar skoðanir með hvaða hætti er hægt að gera betur við ungdóminn en nú er innan

menntakerfisins. Ég hygg að allir séu sammála um að slíkt beri að gera þó að menn greini á um leiðir að því marki. Ég vildi sem sagt láta það koma fram að varðandi þann þátt, lengingu skólatíma, er ég andvígur því að slíkt sé gert, teldi kannski frekar að fara ætti á hinn veginn, frekar að stytta skólatíma en lengja.
    Að síðustu vil ég láta það koma fram að mér hefur fundist að verknámið innan núverandi skólakerfis hafi nánast verið lagt til hliðar að því er varðar grunnskólana víða út um land. Þar sem ég þekki til, eins og á Vestfjörðum, hefur verknámið á því svæði a.m.k. verið hornreka og trúlega víðar ef skoðað væri. Það er ekki síður mikilvægt að sinna þeim þætti í menntun fyrir þá unglinga sem eru hlynntari verklegri uppfræðslu en bóknámi. Það er ekki eðlilegt menntakerfi að einvörðungu sé litið á bóknámið sem nánast skyldufög en hitt sé sett til hliðar. Þetta er því miður sú reynsla sem mér hefur fundist vera undangengin ár í skólakerfinu.
    Ég sagði áðan: Ég skal ekki setja á langa tölu hér í ræðuhöldum og hefði kannski ekki átt að blanda mér í þessa umræðu, en eigi að síður taldi ég rétt að mitt sjónarmið kæmi fram. Kannski er ég sá eini af hv. þingdeildarmönnum sem er þessarar skoðunar varðandi skólatíma, en eigi að síður: Skoðun mín er þessi.