Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það er ekki einleikið hvað þetta er góð deild sem við erum hér í. Hér er hún klukkutímum saman að ræða um skólamál í ró og spekt og sé ég ekki betur en að þar sé margt sem sameinar okkur í þessari umræðu. Og út af því sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði, þá átti hann auðvitað að blanda sér í þessa umræðu eins og aðrir sem telja að þeir hafi eitthvað um skólamál að segja. Gallinn við skólamálaumræðu er nefnilega stundum sá að það eru aðeins tilteknir aðilar með tiltekin próf í þjóðfélaginu sem telja sig rétt borna til þess að stunda skólamálaumræðu. Skólamálaumræða verður aldrei að neinu gagni nema allir sem skólinn snertir taki þátt í þeirri umræðu með einhverjum hætti, og að því er menntun varðar er það nú einu sinni þannig, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að hún er ekki alltaf einvörðungu niðurstaða skólagöngu. Ég hef kynnst afar illa menntuðu fólki eftir tiltölulega langa skólagöngu og líka afar menntuðum einstaklingum eftir litla skólagöngu og kemur það í rauninni ekkert þessu máli við. Þess vegna fagna ég því auðvitað að þeir þm. sem hér hafa talað skuli hafa gert það.
    Ég vil hins vegar aðeins segja vegna þess sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði að núna fá nær öll 6 ára börn einhverja kennslu. Það er talið að það sé yfir 95%, jafnvel 98%, 6 ára barna sem fá einhverja kennslu. Kennslutíminn er hins vegar afar mismunandi, allt frá nokkrum dögum á ári, eins og þetta er í dreifbýlinu, einkum í sveitunum, upp í samfellda kennslu allt skólaárið eins og kemur m.a. fram í grg. með frv. Kvennalistans sem hér er verið að ræða. Ákvörðun um að lengja fræðsluskylduna er því í raun og veru ákvörðun um skref í átt til jafnréttis í mínum huga.
    Í þessu sambandi er kannski nóg að nefna eitt atriði sem eru námsgögnin. Þar sem 6 ára börn eru ekki skólaskyld hafa þau ekki átt rétt á að fá úthlutað námsgögnum á kostnað ríkisins. Hins vegar hafa 7 ára börn átt rétt á þessu. Hér er auðvitað um augljósa mismunun að ræða, margþætta mismunun sem ástæðulaust er að viðhalda og engin rök fyrir. Ég held þess vegna, þegar við skoðum þó ekki væri annað en þennan veruleika, að við komumst að þeirri niðurstöðu að miðað við allar aðstæður sé eðlilegt að fræðsluskyldan nái einnig til 6 ára barnanna.
    Í sambandi við önnur atriði sem hv. þm. Karvel Pálmason nefndi langar mig aðeins til þess að koma inn á það sem hann gat um, að börnin væru gjarnan orðin leið eftir langa skólavist og það er rétt. Það er mikið áhyggjuefni hvað krökkunum finnst leiðinlegt í skólanum, ekki þeim yngstu heldur þegar ofar dregur og þetta á að valda okkur áhyggjum. Við eigum að hugsa um af hverju þetta er svona. Ég held að ein ástæðan sé sú að það starf sem unnið er inni í skólanum er oft í ótrúlega litlum tengslum við þann veruleika sem börnin lifa við að öðru leyti, hvort sem þar er um að ræða atvinnulíf, félagslíf eða fjölmiðlun. Ég er ekki að tala um að það eigi að láta fjölmiðlunina og atvinnulífið ráða skólanum. Ég held

hins vegar að við fáum aldrei góðan árangur í skólanum öðruvísi en að við munum að börnin lifa við hvort tveggja. Þegar við, eins og hv. 11. þm. Reykv., erum að undrast það af hverju börnin kunna ekki þetta og kunna ekki hitt, og okkur hættir til þess að kenna jafnvel skólanum um, gleymum við því að skólinn er mikið veigaminni þáttur í hinu daglega uppeldi barnanna en var fyrir 2--3 áratugum. Það gerir fyrst og fremst þessi ofboðslega fjölmiðlun sem börnin búa við, fjölmiðlun sem í raun og veru veikir skólann sem uppeldisstofnun.
    Mig langar til að segja frá því hér út af ummælum hv. þm. Karvels Pálmasonar, af því að það hefur held ég hvergi komið fram, að við höfum aðeins litið á þau mál sem sérstaklega snerta skólann í dreifbýlinu. Skólinn í dreifbýlinu er allt öðruvísi. Það eru allt, allt önnur vandamál þar en þau sem við erum að tala um hér. Hann nefndi sérstaklega verknámið. Við fáum tækifæri til þess að ræða það hér fljótlega þegar skýrsla verður lögð fram í framhaldi af fsp. og beiðni Kvennalistans um skýrslu um það mál, en við höfum skipað nefnd til þess að fara sérstaklega yfir þróunarmál skólanna í dreifbýlinu. Það er svo fjöldamargt sem er þar allt öðruvísi en er hér á þéttbýlissvæðinu, ekki aðeins verknám og listnám, heldur margt fleira.
    Ég vil aðeins víkja að því sem hér hefur komið fram að öðru leyti hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og Salome Þorkelsdóttur. Ég bendi á að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir dálitlum framlögum til endurmenntunar. Það er auðvitað ekki nóg miðað við þarfirnar þar. Það er gert ráð fyrir endurmenntun framhaldsskólakennara, þó nokkurri hækkun frá því sem er á þessu ári. Það er inni endurmenntunarliður á Kennaraháskólanum. Það er gert ráð fyrir Þróunarsjóði grunnskólans, og það er liður í að efla innra starf skólans að það eru auknir fjármunir til áfanga- og fagstjórnar í grunnskólanum í framhaldi af samningum sem kennarasamtökin gerðu í síðustu kjarasamningum sínum. Allt eru þetta skref í þá átt að efla innra starf skólans og þau þróunarverkefni sem þar þarf að sinna.
    Varðandi það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði um framhaldsskólann og grunnskólann og sérstaklega gamla 4. bekkinn og gagnfræðanámið og gamla
verknámið játa ég það fúslega fyrir mitt leyti að ég var þeirrar skoðunar þegar ég fylgdist með þessari umræðu og fékkst dálítið við kennslu í nokkur ár að sú breyting sem þar var gerð væri í raun og veru að öllu leyti til bóta vegna þess að maður gerði ráð fyrir að verknámið fengi gildan sess í framhaldsskólanum eins og hann átti að þróast. Það varð ekki. Og þegar maður hugsar um þessa tíma og það sem við stöndum frammi fyrir í dag finnst mér að við eigum aðeins að velta því fyrir okkur hvort ekki er eitthvað nýtilegt úr þeirri hugmyndafræði sem lá til grundvallar gagnfræðastiginu á sínum tíma. Ég held að við þurfum að vera með fjölþætt net styttri námsbrauta sem skapa fólki möguleika til að ná tilteknum árangri fyrr en nú er og opna um leið fyrir þá sem eru úti í atvinnulífinu inn í framhaldsskólakerfið á nýjan leik.

Mér fannst þess vegna að þessar ábendingar hv. þm. Halldórs Blöndals ættu vel heima í þessari umræðu.
    Varðandi síðan íslenskukennsluna, sem hann nefndi sérstaklega, og að menntamálanefndir þingsins hefðu áhuga á að koma saman og fara yfir það sem kennt er í þeim efnum. Það er mikið fagnaðarefni ef menntamálanefndirnar hafa tíma til að koma inn í Námsgagnastofnun eða hittast með starfsmönnum menntmrn. til að fara yfir þessi mál og ég er staðráðinn í að taka hv. þm. á orðinu og slá því föstu að við reynum að skapa aðstæður til þess að við getum farið yfir málin og rætt þessa hluti þannig að einstakir nefndarmenn í menntamálanefndum geti sett sig sem allra best inn í einstök atriði mála. Það er mikilvægt að þekkja rammann, lögin og hina ytri umgjörð, fjárlögin o.s.frv., fjárveitingarnar, en það er ekki síður mikilvægt ef menn hafa aðstöðu til að þingmenn, menntamálanefndarmenn, setji sig inn í einstaka þætti þessara mála.
    Af því að hv. þm. nefndi sérstaklega framhaldsskólana á Norðurl. e. verð ég að segja það alveg eins og er að ég hef velt því fyrir mér hvort það hefði ekki verið betra fyrir framhaldsskólann á Norðurl. e. og framhaldsskólana yfirleitt að það væri til í hverju umdæmi einhver samræmingaraðili framhaldsskólanna. Á Vesturlandi hafa sveitarfélögin slegið sér saman um framhaldsskóla og raunar má segja að það sé svipað uppi á teningnum á Norðurl. v. Á Norðurl. e. hafa verið að verða til nokkrir framhaldsskólar og allir geta auðvitað verið ánægðir með það að það séu til margir framhaldsskólar og blómlegir framhaldsskólar og allt það. Vandinn er hins vegar sá að þegar skólarnir eru orðnir margir er t.d. mjög erfitt að skipuleggja nýtingu fjármunanna og ég held að það hefði verið betra fyrir þjóðina og Norðurl. e. og Suður-Þingeyinga, þar sem eru orðnir tveir framhaldsskólar, að það hefði verið til samræmingaraðili um framhaldsskólann í þessu umdæmi, bæði að því er varðar skipulag áfanga og brautir og eins heimavistir, sem er veruleg þörf fyrir á Akureyri og er nú kallað á á Húsavík, til viðbótar við framhaldsskólann á Laugum.
    Það sem ég er að koma að hér er það að við höfum ekki gamla framhaldsskólalöggjöf. Framhaldsskólalög voru reyndar sett á síðasta þingi og við þyrftum að eiga einhvern samræmingaraðila varðandi framkvæmdir og skólastefnu í framhaldsskólanum rétt eins og við höfum lengi haft að því er varðar fræðsluráðin fyrir grunnskólann.
    Ég þakka svo af minni hálfu fyrir þessa umræðu, herra forseti, og vona að hún skili okkur eitthvað áleiðis.