Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Hér hafa verið fróðlegar umræður um skólamál og margt hefur komið fram. Frv. sem hér liggur fyrir er svipað því sem rætt var hér í fyrra og gerir ráð fyrir veigamiklum breytingum í skólastarfi. Þær breytingar lúta að því m.a. að lengja skólatíma, einsetningu í skóla, fækkun í bekkjum. Þetta eru allt atriði sem að sjálfsögðu enginn er á móti, menn eru afar hlynntir og hefur verið stefnt að hvarvetna á landinu svo sem kostur hefur verið á. Hins vegar hafa sveitarstjórnir og menntmrn. rekið sig á að mikla fjármuni þarf í þetta verkefni og því miðar seinna áfram en menn hefðu viljað.
    Það er enginn vafi á að að því kemur að þetta markmið næst, en ég hygg að það verði vart á þeim tíma sem ætlaður er í það samkvæmt frv. Jafnhliða horfum við upp á það að þau lög sem fyrir hendi eru nú þegar um fræðslu barna eru hvergi nærri haldin. Við búum við mikil vandræði hvað varðar kennara. Það er kennaraskortur í landinu. Kennaramenntunin er ekki alltaf fyrir hendi þar sem kennsla fer fram og þeir sem hafa þá menntun sækja ekki sem skyldi í þessi störf. Það er auðvitað vandamál sem þarf að leysa.
    Ég tel líka að það sé spurning hvort ekki sé ástæða til að breyta því formi sem fyrir nokkrum árum var tekið upp, að ekki sé valið í bekki. Hvers vegna, má spyrja. Það er vegna þess að ekki hefur verið staðið við það fyrirheit að stuðningskennsla yrði meiri. Það gerir það aftur að verkum að árangur nemenda í slíkum bekkjum er ekki sem skyldi. Það er mín skoðun að báðir tapi á þessu, þ.e. þeir sem eru slakir nemendur og þeir sem eru góðir nemendur, á meðan ekki er séð fyrir nægri hliðarkennslu eða aðstoð við þá sem erfiðara eiga um nám. Hvers vegna skyldi ekki hafa verið staðið við þessi fyrirheit? Vafalaust er það vegna fjárskorts, kannski viljaleysis, ég vil ekki fullyrða um það. Þetta er hins vegar vandamál sem ástæða er til að gefa gaum.
    Ég tel líka að mjög áríðandi sé, eins og kom raunar fram í máli menntmrh., að þess verði freistað að ná til þeirra fjölmörgu sem heltast úr lestinni, ná ekki að halda áfram námi. Ekki er það endilega vegna getuleysis, heldur ýmissa félagslegra aðstæðna. Fólk hverfur á brott úr skóla jafnvel áður en skólaskyldu lýkur og fer beint út í atvinnulífið hvar möguleikar þessa fólks eru afar takmarkaðir. Það fólk er oft og tíðum dæmt til að vera láglaunafólk vegna þess að það hefur ekki þá menntun sem krafist er hverju sinni. Ég tel mjög brýnt að sinna þessu verkefni, að reyna svo sem kostur er á að ná til þessa hóps. Reyndar er það hægt á annan hátt en hefðbundið hefur verið hér á landi.
    Það er gjarnan talað um það að framleiðni á Íslandi sé lítil og að verkkunnátta mætti vera betri. Ég tel að þar þurfi að gera betur líkt og gert er á Norðurlöndum hvar skólar eru fyrir hendi til að mennta fólk í atvinnulífinu, verkafólk, iðnverkafólk, alls konar launþega sem þurfa á meiri verkþekkingu að halda. Ég tel að sá þáttur hafi verið gjörsamlega

vanræktur hér á landi og honum verði að sinna betur. Ég minni á að verkalýðshreyfingin hefur tekið þessi mál upp á arma sína, kannski vonum seinna, í samráði við atvinnurekendur og hefur sá árangur náðst að haldin hafa verið námskeið um allt land fyrir fiskvinnslufólk þar sem fólki er kennt hvaðeina sem lýtur að fiskiðnaðinum með það fyrir augum að gera fólk hæfara til starfa. Fyrirhugað er að gera þetta líka varðandi byggingaverkamenn, vélamenn og aðra og vænti ég þess að það geti farið af stað innan ekki langs tíma. Þetta er þáttur sem félagar okkar á Norðurlöndum sinna mjög mikið og ég minnist þess að fyrir einu eða tveimur árum var haldið upp á það að 20 ár voru liðin frá setningu laga um starfsmenntun í Danmörku og þá hafði milljón manns farið í gegnum þá skóla. Ég hygg að þarna sé akur sem þarf að yrkja mun betur og það þarf stuðning ríkisvaldsins í þeim efnum. Ég er sannfærður um það að ef vel yrði staðið að þessu og betur hugað að þessum málum á það eftir að koma íslenskri þjóð mjög að gagni og þar náum við í það fólk sem helst hefur úr lestinni af félagslegum ástæðum, af alls konar ástæðum sem erfitt er að tilgreina.
    Ég ætla að hverfa aftur að frv. Ég er þakklátur flm. fyrir að nú í annað sinn skuli frv. hennar vera hvati til umræðu um þessi mál, en því miður óttast ég að hér sé frekar um óskalista að ræða en það að með samþykkt þessa frv. sé hægt að koma þessu í framkvæmd á þessum tíma og þá er það fjárskorturinn sem stendur í veginum. Það er ætlað í grg. að kostnaðurinn skipti milljörðum. Vera má að það sé ofáætlað, ég vil ekki draga úr því, en þó að aðeins yrði tekinn helmingur af því eða ætlað að það væri aðeins helmingur af þessu þyrfti að taka vel á til að ná þeim peningum ofan á allt annað. Það þyrfti t.d., ég gleymdi að minnast á það, að huga að því hvernig varið er útgáfu námsbóka. Ég held að mjög sé pottur brotinn í þeim efnum og skorti mikið fé til að gera betur. Ég hef gert mér það til gamans að fara yfir námsefni barna í barnaskólum og var löngum kunnur því áður, en það er dapurlegt að sjá að námsbækur í sumum greinum eru svipaðar ef ekki eins og fyrir 20 árum. Þótt ekki færu nema örfáar milljónir til þess verkefnis yrði það til mikilla bóta. Það þarf víða að bera niður í þessu, en ég hygg að þrátt fyrir góðan vilja, vandað frv. og góðan tilgang verði langt í það, því miður, vegna þess sem ég
hef getið hér um áður, að ekki hefur verið staðið að skólamálum sem skyldi, að þetta komist í framkvæmd.