Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu merkisfrumvarp sem mig langar að segja nokkur orð um. Því miður þurfti ég að víkja af fundi og hef því misst af nokkru af umræðunum sem hafa staðið í nokkra klukkutíma og það er vel, en eins og kom fram hjá framsögumanni stenst skólakerfið hér á landi ekki samanburð við nágrannalönd hvað snertir samfelldan skóladag, betri samræmingu á vinnudegi foreldra og barna og fleira. Þetta vitum við og við hljótum að stefna að úrbótum í þeim efnum. Hitt er líka staðreynd, eins og kom fram hjá hæstv. menntmrh., að við höfum á örfáum áratugum verið að byggja upp okkar menntakerfi, nánast frá grunni, og þegar ég, sem tel mig nokkuð unga manneskju, upplifði það að byrja fyrst 10 ára gömul grunnskólanám svo heitið geti, ef frá eru talin námskeið að vori og hausti þrjú ár þar á undan, finnst mér, þegar ég miða við það, að við stöndum býsna vel í dag. Ég tek samt sem áður undir þau meginsjónarmið sem koma fram í frv. og tel að við hljótum að stefna að því sem þar er lögð áhersla á.
    Okkur er tamt að bera okkur saman við okkar nágrannalönd, og það er vel og það er eðlilegt. Ég tek samt undir með hv. 3. þm. Vesturl., sem talaði hér áðan, að við verðum að sigta það dálítið sem þaðan kemur. Við megum passa okkur á að gleypa það ekki hrátt. Það held ég að hafi nú þegar orðið okkur dýrkeypt á vissum sviðum, í ákveðnum námsgreinum grunnskólans. Þjóðfélagið hefur verið að breytast alveg gífurlega á síðasta áratug og þá sérstaklega hvað snertir atvinnuþátttöku kvenna. Á því sviði hefur nánast orðið bylting. En mér finnst samt örlítið brydda á því í þessu ágæta frv. eða grg. að það sé verið að gera foreldrana svolítið stikkfrí í uppeldinu. Þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku foreldra finnst mér að fólk verði að gera sér grein fyrir því, ef það eignast börn á annað borð, að það verður að sinna börnunum sínum og það má ekki sitja á hakanum, umfram allt. Mér finnst því ekki að við eigum bókstaflega að færa uppeldið inn í skólana.
    Það er annað mál sem mig langar til þess að nefna fyrst umræðan hefur verið nokkuð á breiðum grundvelli eftir því sem mér hefur heyrst. Ég held að það þyrfti að vera skylda í grunnskólanum að kenna börnum betur að tjá sig en nú er, að kenna þeim að koma hugsunum sínum í orð. Ég veit að það er eitthvað um það í grunnskólunum að kennarar hafa tekið það nánast upp hjá sjálfum sér, að kenna börnum að halda ræðu, að standa frammi fyrir bekknum og tjá sig, og ég veit að t.d. í ákveðnum grunnskóla í Reykjavík þar sem mín börn stunda nám er þetta gert. Þetta finnst mér vera til fyrirmyndar. Þess vegna nefni ég þetta í þessari umræðu.
    Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég tek undir með flm. og þakka þeim fyrir að flytja þetta frv. Þetta er markmiðið að mínu mati, en því miður, ég sé ekki fyrir mér á allra næstu árum að það komist í framkvæmd.