Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Hér er til umræðu eitt af þeim skattafrumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að ná fram á grundvelli þeirrar stefnu sinnar sem byggir á því að segja almenningi í landinu að draga saman seglin, segja fyrirtækjunum að rifa seglin en ætla síðan sjálf ríkissjóði að halda sínu með því að sækja sífellt meira fé í vasa almennings. Upphátt segir hæstv. ríkisstjórn hins vegar að það sé verið að sækja fjármagnið til þeirra sem breiðust hafa bökin. Það eru gömul sannindi og ný og það veit auðvitað hæstv. fjmrh. að skattar eins og þessir, skattar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eru þess eðlis að þeir koma inn í rekstur fyrirtækjanna og fyrirtækin verða að afla tekna fyrir þessum sköttum og það gerist ekki öðruvísi en með því að leggja meira á vöruverðið og fá þannig inn tekjur hjá almenningi sem verður að versla til að komast af.
    Það merkilega við þetta frv. er að hér er ráðist á verslun í landinu og þjónustu sjálfsagt vegna þess að það hefur verið sagt í umræðunni í þjóðfélaginu að þetta séu þeir sem mest hafa grætt að undanförnu í því góðæri sem hér ríkti vegna aukins afla á undanförnum árum. Ef hæstv. ráðherra kynnir sér hins vegar þau gögn sem hann hefur í sínu eigin ráðuneyti, sem sýna hvaða fyrirtæki eiga í vandræðum, er ég viss um að hann rekst fyrr en síðar á að í hópi þeirra fyrirtækja eru ýmis fyrirtæki í verslun og þjónustu. Ég er t.d. nokkuð viss um að hæstv. ráðherra, sem var eins konar innanbúðarmaður hjá Kron á árum áður, stjórnarmaður ætlaði ég að segja. (Gripið fram í.) Má ég þá spyrja hæstv. ráðherra af því að ég man ekki betur? ( Fjmrh.: Hann var félagsmaður.) Hann var félagsmaður og sem slíkur sótti hann fundi hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. ( Fjmrh.: Samkvæmt lýðræðisskipulagi þeirrar hreyfingar.) Það hefur verið upplýst af hálfu hæstv. ráðherra að samkvæmt lýðræðisskipulagi þeirrar hreyfingar hafi hann verið félagi í Kron og sótt sem fulltrúi Kron fundi hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Af því tilefni, þar sem hæstv. ráðherra var sérlegur fulltrúi Kron á aðalfundum Sambands ísl. samvinnufélaga, langar mig til þess að spyrja ráðherra að því hvort hann hafi spurt félaga sína í Kron og hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga hvort þeir hafi þau breiðu bök í dag að þeir séu tilbúnir að láta hækka á sér skatt um 100%. ( PP: Ertu að hugsa um að leggja til að samvinnuhreyfingin verði undanskilin?) Nei, nei, ég er ekki að hugsa um það. En ég er að hugsa um það, hv. 1. þm. Norðurl. v., að ef skatturinn verður óbreyttur megi samvinnuhreyfingin, ef hún kýs svo, borga helmingi hærri skatt en aðrir ef þeir vilja gera það fyrir orðastað hæstv. fjmrh. sem er sérlegur fulltrúi Kron á fundum Sambandsins. Og ef hv. 1. þm. Norðurl. v. vill styðja þá hugmynd læt ég honum það eftir og hann má gjarnan taka þessa hugmynd, sem hér hefur verið nefnd, og færa hana til föðurhúsanna. Hann er uppalinn hjá Sambandinu eins og alþjóð og þingheimur veit. ( PP: Það er tóm vitleysa.) Ja, ekki vill hann kannast við það frekar en

allt annað. Þegar maður talar við hv. framsóknarmenn á þingi vilja þeir helst ekki kannast við eitt eða neitt, hvorki uppruna sinn eða annað. ( PP: Við erum frændur.) Við skulum hafa hljótt um það.
    Þetta var fyrsta fyrirspurnin til hæstv. fjmrh. sem er sérlegur fulltrúi Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, hvort hann hafi leitað sérstaks stuðnings hjá þessum félögum sínum og hvernig þeim lítist á að þessi skattur, sem settur var á fyrir tíu árum, sé nú tvöfaldaður.
    Ég ætla að minnast á aðalatriðið í þeim málum, sem við ræðum þessa dagana, þeim skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem nú rignir inn. Það vil ég að hæstv. ráðherra heyri ef hann má vera að því. En ég skil vel að hann þurfi að ræða við hæstv. félmrh. því að mér skilst að það séu nokkrir aurar sem fari á milli mála þegar þau halda fram sínum sjónarmiðum, hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., --- ja, kannski ekki bara aurar heldur krónur, jafnvel þúsundir króna, sumir segja milljónir og aðrir hundruð milljóna. Sumir tala um milljarða í því sambandi. Og væri vissulega fróðlegt ef hæstv. ráðherrar, í stað þess að vera að hvísla upp í eyrað hvor á öðrum, kæmu í ræðustól og gerðu okkur almennum þingmönnum grein fyrir því hvernig þau mál standa. Það væri t.d. skemmtilegt og fróðlegt, eftir að við höfum hlustað á hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson segja sitt álit á skattamálum, að hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir kæmi upp og segði sitt álit á því hvernig hæstv. fjmrh. hefur haldið á fjárlagaundirbúningnum og hvort mál séu með þeim hætti að hún sé ánægð með þá skipan mála. Mér finnst stundum of mikið gert af því að rætt sé við hæstv. ráðherra í blöðum og þar tala þeir eins og þeir séu utan stjórnar, bara rétt eins og þeir séu þátttakendur í einhverjum klúbbi úti í bæ. Mér finnst vera kominn tími til þess að hæstv. félmrh. komi í ræðustól, sem henni er heimilt eins og allir vita, og geri grein fyrir því hvernig mál standa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og af hverju hún kýs ekki að ræða það mál á hinu háa Alþingi fremur en ræða við hæstv. fjmrh. í gegnum fjölmiðla rétt eins og hún beri enga ábyrgð á stjórnarstefnunni. Er ekki kominn tími til þess eða kýs hæstv. ráðherra að þegja og taka ekki þátt í þessum umræðum? --- Ég sé að hæstv. ráðherra kýs að þegja.
    Það sem skiptir kannski mestu máli fyrir okkur sem eigum að afgreiða þessi mál á næstu dögum og vikum er, og það vil ég leggja sérstaka áherslu á í mínu máli, að hæstv. ríkisstjórn leggi fram öll þau skattamál sem hún hyggst láta afgreiða og þau liggi frammi í þingsölum og tryggt sé að fyrir þeim sé meiri hluti áður en 2. umr. fjárlaga lýkur. Þetta er sagt vegna þess að sumir hafa haldið því fram og það með talsverðum rökum að hæstv. ríkisstjórn eigi ekki öruggan meiri hluta í Nd. þingsins og þess vegna sé út í bláinn að afgreiða fjárlagafrv. fyrr en ljóst sé hvort hægt sé að standa við tekjuáætlun 1. gr. frv. með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn ber ef hún er meirihlutastjórn. M.ö.o.: Er það ljóst, og það er önnur

fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra, að hæstv. ráðherra muni leggja fram á Alþingi og gefa yfirlýsingu um að það sé meiri hluti á bak við þau skattafrumvörp sem reiknað er með í 1. gr. fjárlagafrv.?
    Af því að hv. þm. Stefán Valgeirsson gengur nú í salinn langar mig til að beina enn fremur spurningu til hans. Eins og kom fram í umræðum um daginn, þegar hæstv. viðskrh. og iðnrh. var hér í ræðustól, tók hann sérstaklega fram að öll stjfrv. yrðu borin undir hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem er lífgjafi þessarar ríkisstjórnar, hefur líf þessarar ríkisstjórnar í hendi sér, annars væru þau ekki stjfrv. Nú langar mig til að spyrja hv. þm. Stefán Valgeirsson: Voru þau frumvörp sem nú hafa verið lögð fram á Alþingi borin undir hann? Styður hann þau skattafrumvörp sem hér hafa séð dagsins ljós og er hann stuðningsmaður þeirra skatta sem ríkisstjórnin hyggst leggja á? Fékk hv. þm. að fara yfir t.d. vörugjaldsfrv. áður en það var lagt fram á Alþingi? Er hann samþykkur í einu og öllu að slíkir skattar séu lagðir á án þess að matarskatturinn svokallaði sé lagður af á sama tíma? Ef svarið er jákvætt, hvað hefur þá gerst? Hvað er það sem nú réttlætir að leggja á matarskatt og líka vörugjald þegar ljóst er að á sínum tíma héngu þessi tvö mál saman í órofa heild? Hvers konar sinnaskipti hafa átt sér stað? Ég hlakka satt að segja til þess að hv. þm. Stefán Valgeirsson komi hér upp og geri hreint fyrir sínum dyrum, taki til máls, lýsi því yfir að hann sé stuðningsmaður þessara frumvarpa. Hann hafi komið að samningu frv., hann hafi lagt blessun sína yfir frumvörpin áður en þau voru lögð fram og skýri það síðan út, ekki eingöngu fyrir kjósendum sínum heldur fyrir þingheimi öllum og þjóðinni, hvernig á því standi að hann láti þetta yfir sig ganga núna, þessi mikli baráttujaxl sem barðist gegn því á sínum tíma að söluskattur væri lagður á matvæli. Ég veit að hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem er kjarkmeiri en aðrir þingmenn, mun ekki láta standa á sér og taka þátt í þessum umræðum, svo vel þekki ég hv. þm.
    Ég saknaði þess satt að segja þegar hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson tók þátt í umræðum um skattamál að hann skyldi ekki skýrar segja frá því í sínu máli hvað hann hygðist gera í skattamálum ríkisstjórnarinnar því að hann er einn af þeim mönnum sem hafa tekið til máls utan þings um sum þessara frumvarpa og þarf ég þá ekki annað en nefna öryrkjaskattinn svokallaða eða spilafíknarskattinn eins og hæstv. ráðherra kýs að kalla þennan skatt þegar hann tekur til máls á hinu háa Alþingi og mælir fyrir og ver skattafrv. ríkisstjórnarinnar. Ég tel enn fremur að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem reyndar er ekki í þingsalnum, skuldi okkur það að ræða um tekjuskattinn, um það hvernig honum lítist á að vera með tvö eða jafnvel þrjú þrep í tekjuskattinum.
    Það mætti auðvitað tala langt mál um skattamál almennt. Ég sé í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til þess, en ég vil að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. ráðherra, ef hann heyrir mál mitt, gefi þá yfirlýsingu að fjárlagafrv. verði ekki afgreitt til 2. umr. fyrr en búið sé að leggja fram skattafrv. Og af því að ég sé

hv. þm. Sighvat Björgvinsson, ef hann heyrir mál mitt, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður fjvn. sem nú gengur í salinn, langar mig til að spyrja hv. þm. Sighvat Björgvinsson, formann fjvn. Alþingis, hvort hann telji eðlilegt að 2. umr. um fjárlög fari fram og fjárlagafrv. verði afgreitt til 3. umr. án þess að búið sé að leggja fram á hinu háa Alþingi skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem sýna hvernig ríkisstjórnin hyggst ná þeirri tekjuöflun sem um getur og er áætluð í 1. gr. frv. Ég óska þess sérstaklega að hv. þm., sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir hæstv. ríkisstjórn og er formaður fjvn., segi sitt álit á þessu máli því að það skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir störf þingsins á næstunni.
    Að lokum, virðulegur forseti, þarf hæstv. ráðherra, og ég vona að hann heyri mitt mál, að skýra Alþingi frá því hvort hallinn á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár hafi vaxið eitthvað frá því að hann flutti ræðu um þau mál síðast og hvort hæstv. ráðherra hafi í áætlun fyrir næsta ár tekið tillit til þess mikla halla sem hefur orðið á ríkisfjármálunum á síðari hluta ársins og hvort hann sé tilbúinn að gera Alþingi grein fyrir því með hverjum hætti hann ætli að brúa það bil á næstu dögum áður en 2. umr. fjárlaga fer fram.
    Ég ætla ekki hér, herra forseti, nema frekar gefist tilefni til síðar í þessari umræðu, að spyrja hæstv. ráðherra um önnur mál. Það er vissulega tilefni til þess, en það gefst tækifæri til þess síðar.
    Að svo mæltu vil ég eins og aðrir þingmenn Sjálfstfl. vinna að því að þessi frumvörp fái eðlilega þinglega meðferð. Ég skil vel að það liggi á að afgreiða þessi mál. Það hefði verið miklu betra að fá þessi frumvörp mun fyrr fram, en það er tiltölulega auðvelt að skilja að frv. gengur út á að hækka skatta um 100% og það mun Sjálfstfl. að sjálfsögðu ekki styðja.