Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Fyrir réttri viku hófst umræða í hv. deild um þetta frv. Ég gerði það þá nokkuð að umtalsefni og m.a. beindi ég fyrirspurn til hæstv. forsrh. Ég spurði hann að því hvort Framsfl. styddi frv. Ég spurði vegna þess að hæstv. fjmrh. hafði úr sæti sínu sagt að í frv. kæmi fram stefna Framsfl. Hæstv. forsrh. staðfesti þegar hann svaraði minni fyrirspurn að Framsfl. styddi frv.
    M.ö.o. leggur Framsfl. með stuðningi sínum við þetta frv. stein í götu dreifbýlisverslunarinnar á Íslandi þótt talað sé um á miðstjórnarfundum þess flokks að nú verði að styðja með opinberum framlögum dreifbýlisverslunina í landinu. En þetta er kannski leiðin til að mismuna. Það sýnist manni að hljóti að vera ætlunin að með styrkjum af opinberu fé skuli versluninni í landinu mismunað eftir því hvar viðkomandi fyrirtæki eru. Og kannski á að mismuna eftir því hvers konar rekstrarform um er að ræða. Vel að merkja. Það var kaupfélagsstjóri KEA sem hreyfði þessari tillögu eða hugmynd á miðstjórnarfundi Framsfl. Það á kannski einmitt að úthluta af opinberu fé til þeirra verslana sem þóknanlegar eru núverandi hæstv. ríkisstjórn. Það verður kannski eitthvað svipað og ætlunin er að gera með Atvinnutryggingarsjóðnum. Pólitískt þukl á umsóknum eru ær og kýr a.m.k. sumra sem að þessari hæstv. ríkisstjórn standa.
    Hæstv. forsrh. sagði svo reyndar í lokin á þessu svari: Þessi skattur auðveldar ekki dreifbýlisversluninni lífið. Nei, það gerir hann ekki. En samt á að leggja hann á. Samt skal hann lagður á. Hvers vegna? Það hefur ekki fengist fullnægjandi svar við því. Ég velti þeirri spurningu upp hér fyrir réttri viku hvort skýringin væri sú að það hefur verið gamall draumur Alþb. að tvöfalda þennan skatt. Í þá átt gengu tillögur þeirra alþýðubandalagsmanna fyrir réttu ári þegar við vorum með hliðstætt mál á hv. Alþingi og alþýðubandalagsmenn nutu þá stuðnings Kvennalistans. Fulltrúi Kvennalista hér í hv. deild var meðflm. hæstv. núv. samgrh. og landbrh.
    Ég lét þau orð falla fyrir viku að e.t.v. væri þar komin skýringin á því að þetta frv. væri lagt fram í hv. Nd. en ekki Ed. að ríkisstjórnin þættist nokkuð viss um meiri hlutann hér vegna stuðnings Kvennalista. Ég taldi að þær væru svo staðfastar í skoðunum að þær mundu ekki breyta til frá því sem þær héldu fram í fyrra. Nú verð ég að draga hluta af þessu til baka sem ég sagði þá vegna þess að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir lét þess getið síðar í umræðunni að aðstæður kynnu að hafa breyst þannig að það væri ekki á vísan að róa með stuðning Kvennalistans. Ég fagna því að það er a.m.k. kominn upp vafi hjá kvennalistakonum hér á hv. Alþingi og ég vona að þær átti sig á því að þessi skattur er ranglátur skattur og það á ekki að tvöfalda hann.
    Þótt þeir framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn hafi ekki áður tekið undir tillögur um tvöföldun á þessum skatti láta þeir sig hafa það núna. Þannig sýna þeir væntanlega í verki hver er stuðningur þeirra við verslunina í landinu og þá alveg sérstaklega

dreifbýlisverslunina og þetta gera þeir vafalaust fyrir Alþb. eins og ég rakti nokkuð fyrr í umræðunni. En þess er hins vegar gætt af fulltrúum þessara flokka og alveg sérstaklega Framsfl. að tala allt öðruvísi en þeir ætla sér að gera núna. Þá er látin í ljós umhyggjan fyrir þessum aðilum sem mörgum öðrum. Sem sagt: það er talað þannig en verkin eru svo allt önnur.
    En þótt runnar séu tvær grímur á fulltrúa Kvennalistans er þetta mál kannski engu að síður í höfn. Af fréttum má ráða að a.m.k. einn þingmaður Borgfl. ætlar óbeint að styðja þetta með því að sitja hjá þannig að kannski er þetta allt saman gulltryggt fyrir hæstv. ríkisstjórn. En það var dálítið kyndugt að heyra hv. þm. Borgfl. tala áðan til Kvennalistans. Hann hefði kannski átt að líta sér aðeins nær áður en hann fór að heimta svör frá þeim um afstöðu til málsins.
    En hæstv. forsrh. virðist vera í dálitlum vafa um framhaldið. Hann lét hafa slík orð eftir sér í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum þar sem hann var að tala um skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar, sem á þeirra máli heita að vísu tekjuöflunarfrumvörp, sem er auðvitað miklu snyrtilegra orð en skattafrumvörp, og hann taldi að þau væru oft flókin, en ötullega hefði verið unnið að þeim og þau færu að koma fram eitt af öðru næstu daga og við höfum fengið aðeins smjörþefinn af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur á prjónunum í þeim efnum.
    Í Þjóðviljanum sagði svo áfram: ,,Steingrímur vildi engu spá um það hvort stjórninni tækist að koma öllum fjáröflunarfrumvörpunum í gegn fyrir áramótin.`` Og svo orðrétt eftir hæstv. forsrh.: ,,,,Fjmrh. mun að sjálfsögðu hefja viðræður við stjórnarandstöðuna um þessi mál``, sagði Steingrímur. Það væru mörg viðkvæm mál í þessum málaflokki og enginn vafi á að menn þyrftu að mætast á miðri leið.``
    Já, það verður fróðlegt að sjá hvar þessi miðja er. Við höfum ekki séð allar fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar, aðeins sum af frumvörpunum sem sýna ekkert annað en skattagleði hæstv. ríkisstjórnar. Það er ofsköttun sem kallar aftur á atvinnuleysi. Þetta eru kreppuskattar. Það er rétta orðið yfir þá.
    Já, það á að hefja viðræður við stjórnarandstöðuna og þær hafa farið fram ef það á að kalla það því nafni að hæstv. fjmrh. hefur talað við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar og raunar fleiri fulltrúa og greint þeim frá því hvað í bígerð er, síðast í gær frá einu frv. sem ég get að sjálfsögðu ekki farið að gera hér að umtalsefni vegna þess að það er trúnaðarmál enn þá, en það varðar tekjuskattinn, og hann hefur látið í ljós, hæstv. fjmrh., þær óskir að greidd verði gata þessara frumvarpa í gegnum þingið. Hann er svo raunsær að hann er ekki að biðja um beinan stuðning en að greidd verði gata þessara mála. Af því tilefni vil ég segja að við ætlum ekki, þingmenn Sjálfstfl., á nokkurn hátt að fara að tefja fyrir málunum, en við þurfum að sjálfsögðu að ræða þau. Og ég ítreka það, sem hér hefur þegar komið fram, að áður en fjárlög verða hér afgreidd verða að sjálfsögðu þessi mál öll að vera komin upp

á borðið og ekki bara það, það þarf að vera búið að afgreiða skattafrumvörpin sjálf.
    Já, það á að ræða við stjórnarandstöðuna, sagði hæstv. forsrh. í þessu viðtali í Þjóðviljanum. Mig minnir að hv. þingflokksformaður Framsfl., Páll Pétursson, hafi einhvers staðar látið hafa það eftir sér að stjórnarandstaðan ætti vel við formann Sjálfstfl., hv. þm. Þorstein Pálsson, því að hann þyrfti þá ekkert að tala við neinn, sagði þingflokksformaður framsóknar. Ég er að velta því fyrir mér hvort það eigi að skilja orð hæstv. forsrh. þannig að nú væri kannski gott að eiga formann Sjálfstfl. að til að greiða götu þeirra frumvarpa sem núv. hæstv. ríkisstjórn þarf að koma í gegnum þingið og njóta til þess atbeina Sjálfstfl.
    Ég veit ekki hvernig á að skilja þá hv. stjórnarliða. Fyrst koma yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. og ítrekaðar, að ef eitthvað verði samþykkt hér í þinginu sem stjórnarflokkarnir, og ég geri ráð fyrir að hann eigi þá við ráðherra stjórnarflokkanna, ekki geta fellt sig við, þá sé kominn nýr meiri hluti í þinginu og ríkisstjórnin hljóti þá að segja af sér. Þetta á a.m.k. við hin viðameiri mál sem hæstv. forsrh. metur svo. En mér er nú spurn: Hvað verður yfirleitt samþykkt hér nema til komi atbeini stjórnarandstöðunnar, eins eða fleiri fulltrúa þeirra? Mér er það ekki alveg ljóst. Er þá kominn nýr meiri hluti?
    Það verður áreiðanlega ýmsum brögðum beitt til að fá frumvörp ríkisstjórnarinnar samþykkt hér. Hv. þm. Stefáni Valgeirssyni verður auðvitað beitt fyrir vagninn. Hann skýrir það sjálfsagt nánar á eftir. Hann er búinn að biðja um orðið. En það er rétt að minna líka á að það verður heldur ekkert samþykkt hér af frumvörpum ríkisstjórnarinnar nema það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson telur sér þóknanlegt. Það hefur hann margsinnis sagt. En það er hins vegar að koma á daginn að það er fullt af þessum Stefánum í þingliði stjórnarflokkanna. Einn kom fram núna alveg nýlega frá Alþfl. og lét vita um að ef það yrði ekki veitt tilteknu fjármagni í tiltekna framkvæmd suður í Keflavík væri búið með hans stuðning, hann mundi a.m.k. ekki greiða fjárlögunum atkvæði. Ég hef einhvern veginn grun um að þeir eigi eftir að koma upp fleiri núna á næstunni sem svona skoðanir hafa.
    Hæstv. viðskrh. sagði líka í umræðunni um daginn að hann viðurkenndi að þessi skattur kæmi illa við dreifbýlisverslunina, ég held ég hafi tekið rétt eftir, og ég spyr þess vegna enn: Hvers vegna í ósköpunum er verið að leggja þennan skatt á ef mennirnir sem eru að leggja þetta til trúa því sjálfir að þetta sé af hinu verra og eru svo að tala um í sömu andránni að það þurfi að styrkja dreifbýlisverslunina?
    En svo var það ræða hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar. Ég sé að hann er ekki í salnum og ég vil taka það fram við hæstv. forseta að mér er alveg sama hvort hann er í salnum eða ekki. Það er reyndar enginn framsóknarmaður í salnum. En hann flutti eina af þessum venjulegu framsóknarræðum, ræðu um það hvar forsrh. fyrrv., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, hefði verið þegar hann leyfir sér að gagnrýna þetta algjöra

athafnaleysi núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þeir líta aldrei í eigin barm, þeir framsóknarmenn, og athuga hvar þeir hafa verið, ekki bara síðasta árið heldur síðustu 17 ár þar sem þeir hafa átt aðild að ríkisstjórn nær því samfleytt. Ég held það sé ekki nema þriggja mánaða uppstytta hjá Framsfl. frá því 1971 þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar var mynduð og allt verðbólgubrjálæðið byrjaði. Nei, þeir hafa ekki komið nálægt neinu því sem miður hefur farið í þessu þjóðfélagi, aldeilis ekki. Það er alltaf allt öðrum að kenna.
    En hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði að ríkisstjórnin hefði leikið biðleik og talaði eins og góðum skákmanni sæmir. Ég er vondur í skák, en mér sýnist einhvern veginn að þessi biðleikur, sem hefur þegar verið sýndur, hafi verið vondur leikur ef ekki hreinn afleikur og leiði ekki til farsældar. Það kæmi mér ekki á óvart þó hann leiddi til þess að öll skákin, sem ríkisstjórnin hefur verið að tefla, tapaðist.
    Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín mikið fleiri. Ég ætla ekkert að vera að tefja afgreiðslu þessa máls. Ég hef ekki talað lengi. Ég ítreka aðeins að þetta frv. sýnir að áhugamál þessarar hæstv. ríkisstjórnar
eru skattahækkanir og aftur hækkanir. Skattagleðin kemur alltaf fram þegar vinstri stjórn situr hér að völdum. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. verður að ósk sinni vegna þess að ég efast ekkert um að það er ósk hans að öll þessi mál nái afgreiðslu fyrir jól, skulum við segja, og að fjárlagafrv. verði afgreitt eins og lög gera ráð fyrir fyrir nýár. Tíminn er vissulega naumur og það á eftir að tala töluvert í þeim málum sem ekki hefur enn verið talað fyrir af hæstv. ráðherra. Af orðum hæstv. forseta Sþ. á fundi í nótt sýnist mér mega ráða að það tapast a.m.k. fjórir dagar sem hefðu verið mögulegir í vinnu hér í þinginu vegna þess að hæstv. forseti lýsti því yfir að það yrðu engir fundir hér á milli jóla og nýárs. Af því að nú eru engin brandajól eru þetta fjórir dagar. Kannski höfum við ráð á þessu. Ég vona það því að ekki er ég að biðja um fundi á milli jóla og nýárs. En við höfum þurft að upplifa það, síðast í fyrra, en þá voru að vísu mjög þung mál á ferðinni, ekki bara sem snertu fjárlagafrv. heldur vorum við þá að fjalla um fiskveiðistefnuna og þar þurftu menn að tala býsna mikið. En mér sýnist á þessum orðum hæstv. forseta Sþ. að allar líkur séu á að þetta gangi bara býsna vel fyrir sig og við ljúkum á góðum tíma fyrir jól og getum átt notaleg jól með fjölskyldum okkar.