Grunnskóli
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. vék almennt að bankamálum í sínu framsöguerindi, greinargerð sinni fyrir þessu frv., og gefur það auðvitað tilefni til þess að koma aðeins inn á þann málaflokk. Tel ég nauðsynlegt í því sambandi að minna aðeins á hlutverk þess banka sem talinn hefur verið banki bankanna, eða Seðlabanka Íslands. En í 3. mgr. 18. gr. laga um Seðlabanka Íslands segir svo, með leyfi virðulegs forseta: ,,Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og að ná settu markmiði um viðskiptajöfnuð en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreina.`` Ég hygg að það sé nauðsynlegt í sambandi við þetta frv. og mörg önnur sem hæstv. ríkisstjórn leggur nú fram á Alþingi að íhuga aðeins þennan punkt. Er hægt að líta svo á að ríkisstjórnin gegni þeirri höfuðskyldu sem hún á að gera gagnvart þingi og þjóð, að fylgjast með því að hægt sé að treysta gengi krónunnar, ekki aðeins í viðskiptum manna á meðal, ekki aðeins frá degi til dags, heldur geti atvinnuvegirnir sem afla gjaldeyrisins treyst því að íslenska krónan sé sá miðill sem tryggir þeim rétt verð fyrir þá framleiðslu sem nauðsynleg er til þess að við getum aflað okkur aðfanga erlendis frá?
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki fara mörgum orðum um þetta atriði nú, en ég hlýt að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. vék aldrei að þessu atriði og hlýtur það þó að vera honum mjög í mun að velta því fyrir sér hvernig hann geti staðið við þau stóru orð að gera hvort tveggja í senn að skila ríkissjóði hallalausum og auka þó útgjöldin en hengja nýja pinkla á þjóðina sem hún verður síðan að rísa undir. Mig minnir að í þeirri ágætu bók um Nasreddin hinn spaka sé sagt frá því að hann mætti þar manni sem reið múlasna og hafði þungar klyfjar á bakinu og þegar Nasreddin fann að sagði maðurinn: ,,Asninn ber ekki það sem ég ber.`` Eins finnst mér hæstv. fjmrh. oft minna mig á manninn á múlasnanum þegar hann var að bæta á sig pinklunum sem hann telur að þjóðin þurfi að síðustu ekki að standa skil á.
    Það er athyglisvert í frv. sem hér liggur fyrir hvernig hæstv. fjmrh. hyggst ná til baka þeim peningum sem verja á til einstakra sjóða með fjárlögum. Þannig er t.d. gert ráð fyrir því í frv. til fjárlaga að Framleiðnisjóður landbúnaðarins fái 490 millj. kr. Hins vegar er það skýrt tekið fram í 1. gr. að tekjur Framleiðnisjóðs landbúnaðarins eigi að koma til skattlagningar.
    Nú hlýtur hæstv. fjmrh. auðvitað að hafa gert sér grein fyrir þessu þegar hann lagði fjárlagafrv. fram að hann mundi ná verulegum hluta af þessu framlagi til baka en ég held, virðulegi forseti, að óhjákvæmilegt sé að fá hæstv. landbrh. hingað í deildina til þess að fá það staðfest að vilji hans standi til þess að skattleggja Framleiðnisjóð landbúnaðarráðherrans með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv. ( Forseti: Forseti mun kanna hvort hæstv. landbrh. er í húsinu og gera boð eftir honum á fund deildarinnar.)

    Varðandi Olíusjóð vil ég í annan stað vekja athygli á því að í frv. til fjárlaga er m.a. gert ráð fyrir framlagi til lánagreiðslna sem nemur 160 millj. kr., láni til jarðhitaleitar 11 millj., sveitarafvæðingu sem nemur 20 millj. kr., styrkingu dreifikerfis í sveitum sem nemur 40 millj. kr. Alls eru þetta 235 millj. Í lögum um Orkusjóð segir svo um hlutverk hans:
    ,,Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda Íslands með fjárhagslegum stuðningi við framkvæmdir á sviði orkumála.
    Úr Orkusjóði er heimilt: 1. Að veita Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum rafmagnsveitum til almenningsþarfa lán til að koma upp nýjum raforkumannvirkjum og skulu þau veitt af því fé sem Orkusjóði er veitt í fjárlögum í því skyni eða aflað með lántökum í þeim tilgangi. 2. Að veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan þess svæðis sem héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán að upphæð allt að 3 / 4 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana og línulagna heim að bæjarvegg. 3. Að veita einstökum bændum, sem búa utan þess svæðis er samveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán til að koma upp mótorrafstöðvum á heimilum sínum. Lán þetta má nema kostnaðarverði rafstöðvarinnar að meðtöldum kostnaði við flutninga og uppsetningu. 4. Að veita opinberum aðilum, félögum og einstaklingum lán til að afla og leita jarðvarma með jarðvísindalegum forrannsóknum, jarðborunum og vinnslurannsóknum til að meta árangur borana. 5. Að veita Rafmagnsveitum ríkisins eða héraðsrafmagnsveitum af eigin fé sjóðsins eða fjárveitingum, er hann hlýtur í því skyni, styrk til að koma upp veitum í dreifbýli, enda sýni kostnaðaráætlanir að veiturnar geti ekki borið sig fjárhagslega án sérstakra óendurkræfra fjárframlaga. Styrkinn skal veita sem stofntillag er má nema allt að þeirri fjárhæð sem byggingarkostnaður veitunnar er umfram það er hún getur staðið undir.``
    Eins og sést af tilgangi Orkusjóðs, sem er auðvitað ríkiseign er honum fyrst og fremst ætlað að koma til aðstoðar, veita lán og styrki úti í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem menn eru afskekktastir og eiga kannski
erfiðast með að tileinka sér nýja tækni og hefur þetta verið talið hollt markmið fram að þessu hér á hinu háa Alþingi.
    Hafnabótasjóði eru ætlaðar 25 millj. kr. í fjárlögum en fé Hafnabótasjóðs skal ráðstafa á eftirgreindan hátt að fengnu samþykki fjvn. Alþingis, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,1. Sjóðurinn veitir hafnarsjóðum lán til framkvæmda gegn ríkisábyrgð. 2. Sjóðnum er heimilt að styrkja endurbætur á hafnarmannvirkjum, sem skemmst hafa af völdum náttúruhamfara eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, án mótframlags hafnarsjóðs. 3. Sjóðnum er heimilt að veita styrk til nýrra hafnarframkvæmda, sem nemi allt að 15% umfram ríkisframlag af heildarframkvæmdakostnaði, til staða, sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða

vegna dýrrar mannvirkjagerðar, fólksfæðar eða annarra gildra orsaka. 4. Sjóðnum er heimilt að veita hafnarsjóðum lán út á væntanleg ríkisframlög samkvæmt lögum þessum, ef fé er umfram þarfir 1.--3. liðs.``
    Þarna er enn komið inn á sjóð sem sérstaklega er ætlað að standa á bak við þau sveitarfélög og það fólk sem af landfræðilegum ástæðum býr við erfið kjör og hið sama gildir raunar um Lánasjóð sveitarfélaga en um tilgang þess sjóðs segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ráðstöfunarfé Lánasjóðs sveitarfélaga er sem hér segir: a. Árlegt framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, er nema skal 5% af vergum tekjum sjóðsins. b. Árlegt framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga. Skal framlagið nema eigi lægri upphæð en 2 1 / 2 % af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á viðkomandi ári. c. Árlegt lán úr Framkvæmdasjóði Íslands. d. Aðrar lántökur. e. Afborganir og rekstrarstyrkir.``
    Síðan er gerð grein fyrir því hver tilgangur sjóðsins er og hann er í stuttu máli að aðstoða sveitarfélög sem eru að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir til þess að hægt sé að dreifa greiðslubyrðinni.
    Um öll þessi atriði, virðulegi forseti, má segja það eitt að allir þessir sjóðir eru sérstaklega hugsaðir til þess að standa á bak við hinar dreifðu byggðir landsins. Það kemur á hinn bóginn ekki á óvart þegar viðskrh. landsins hefur lýst því yfir að rétt sé að fara í herferð gegn bændum og svelta þá á löndum sínum þó ríkisstjórnin skuli fylgja því eftir með öðrum lagafrv. hvernig hægt sé að koma höggi á landsbyggðina, hvernig hægt sé að draga úr henni kjark og móð. Að því miðast ekki síst sú stefna sem nú er haldið uppi í gengis- og gjaldeyrismálum og má raunar segja að sá sami maður sé höfundur þeirrar stefnu og hefur nú verið að egna borgarbúa gegn bændum landsins. Það er sama hljóðið, sami maðurinn, sama kratahjartað sem slær á bak við þar.
    Það má vel vera að hæstv. landbrh. líti svo á að eðlilegt sé að skattleggja það fé sem rennur í Framleiðnisjóð. Ég hélt þó að gert hefði verið um það samkomulag hér á Alþingi í tíð síðustu ríkisstjórnar að reynt yrði að draga úr útflutningsbótafé með því að reyna að standa á bak við nýbúgreinar í sveitum landsins, með því að reyna að auka á fjölbreytni atvinnulífsins úti á landi og ég hafði treyst því í barnaskap mínum að a.m.k. Framsfl. mundi standa við það þó að hann hafi ekki staðið við annað. En það er svo að sjá sem hann hafi svo gjörsamlega gleymt uppruna sínum, sé svo gjörsamlega heillum horfinn, að ekki sé einu sinni hægt að treysta honum í þeim efnum að hann standi við þau fyrirheit sem hann gaf bændum landsins með Sjálfstfl. í síðustu ríkisstjórn þegar verið var að reyna að hvetja þá til þess að taka upp aðra búskaparhætti vegna þeirra erfiðleika sem þeir eiga nú í vegna samdráttar á markaði fyrir sauðfjárafurðir.
    Ég skal svo ekki, herra forseti, fara mörgum orðum um það hvaða skynsemi er í því að leggja til í fjárlögum að varið verði 71 millj. kr. í

Kvikmyndasjóð og tala svo um það samtímis að nauðsynlegt sé að skattleggja sjóðinn.
    Auðvitað er skýringin á öllu þessu sú að stjórnarliðar hafa gefist upp við það að skera niður, beinlínis. Þeir eru að reyna að fela það, og þá ætla þeir í staðinn að koma aftan að mönnum. Þeir ætla að koma aftan að sveitarfélögunum með því að næla sér í hluta af stofnfé Lánasjóðs sveitarfélaga. Þeir ætla að koma í bakið á sjómönnum landsins með því að draga til sín fé úr Hafnabótasjóði. Þeir ætla enn einu sinni að koma í bakið á bændum með því að taka hluta af því fé sem á að fara til Framleiðnisjóðs í ríkissjóð og þeir sjá ofsjónum yfir því fjármagni sem rennur í Orkusjóð.
    Ég er á hinn bóginn sammála því, herra forseti, að eðlilegt sé að skattlagning sé sambærileg á sambærilegan rekstur. Ég er fullkomlega sammála því að veðdeildir bankanna eigi að skattleggjast með sama hætti og önnur bankastarfsemi í landinu, en ég vil ítreka hitt sjónarmið mitt að enn er ýmis starfsemi í landinu sem er algjörlega út í hött að skattleggja á sama tíma og ríkisvaldið sér sérstaka ástæðu til þess að veita fé á fjárlögum til þess að halda þeirri starfsemi uppi.
    Ég hef vikið að nokkrum slíkum sjóðum, þeir eru miklu, miklu fleiri í þessu sem hér fellur undir vegna þess að í grg. með frv. segir í athugasemd við 2. gr.: ,,Samkvæmt þessari grein er lagt til að Ríkisábyrgðasjóður,
Byggðasjóður, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum. Hér er um tæmandi talningu að ræða á þeim fjárfestingarsjóðum sem undanþegnir eru skattskyldu.
    En á öðrum stað segir í grg.: ,,Sem dæmi um sjóði og veðdeildir, sem skattskyldar verða, má nefna Framkvæmdasjóð Íslands, Orkusjóð, Hafnabótasjóð, Ferðamálasjóð, Fiskveiðasjóð, Fiskræktarsjóð, Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóð Íslands, Iðnþróunarsjóð, Landflutningasjóð, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja, Stofnlánadeild samvinnufélaga, Lánasjóð sveitarfélaga og veðdeildir innlánsstofnana.`` Þannig að ég hef í engu vikið út frá því sem segir í grg. með frv.
    Ég vek líka athygli á því að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina skuli vera undanþeginn skattlagningu. Það er auðvitað mjög athyglisvert þegar maður hugsar um þá ákvörðun að Framleiðnisjóður landbúnaðarins skuli vera skattlagður og væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum talsmönnum landbúnaðarins sem tilheyra ríkisstjórninni um það hvernig það er hugsað, hvernig talsmenn landbúnaðarins í Framsfl. hugsa það mál að Framleiðnisjóður landbúnaðarins eigi að vera skattlagður en ekki Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina --- Stefánssjóðurinn, m.ö.o. Stefán hefur sennilega komið í veg fyrir það. Hann hefur sagt þeim að vera ekki með neitt múður. Sjóðurinn bæri sitt nafn og hann yndi því ekki að hann yrði skattlagður.

    Hins vegar eru þetta auðvitað merkileg tímamót sem við eigum núna í sambandi við þennan Stefánssjóð, að það er búið að gefa út nýja reglugerð sem felur í sér breytingu á 2. gr. gömlu reglugerðarinnar sem er mánaðargömul eða svo. Ástæðan fyrir því er sú að í þessari grein var upphaflega gert ráð fyrir að ekki mætti lána fé til fyrirtækja nema reksturinn væri arðvænlegur eftir að lánin hefðu verið veitt. Nú hefur stjórn Stefánssjóðs, stjórn Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt þessu mætti ekki lána neinu fyrirtæki í útflutningsgreinunum og þess vegna hefur stjórn sjóðsins beðið hæstv. forsrh. um það að hann breyti 2. gr. þannig að þeir geti lánað því að auðvitað hafi útflutningsframleiðslan ekki rekstrargrundvöll nú. Og þá er bætt inn í orði sem heitir ,,lengi``, eða ,,til lengdar`` eða ,,til langs tíma litið``. Auðvitað er átt við það að það eigi að taka hliðsjón af því að að því líði fyrr en síðar að þessi ríkisstjórn verði rekin frá völdum, steypist af stóli, og það má auðvitað búast við því að atvinnuvegirnir fái á nýjan leik rekstrargrundvöll.