Grunnskóli
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um skattskyldu innlánsstofnana. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. 7. þm. Reykn. Júlíusar Sólnes og sé ekki ástæðu til að mótmæla þessu frv. sérstaklega. Ég get tekið undir þá skattlagningu sem þar kemur fram á veðdeildir ýmissa banka og einnig að viðskiptabankar og sparisjóðir verði skattlagðir. Hins vegar verður að athuga það nánar með þessa sjóði sem þar er rætt um, hvern og einn fyrir sig, og hvaða hlutverki þeir gegna áður en ákvörðun er tekin um að skattleggja þá.
    Ég vildi gera að umtalsefni, þar sem tilefni gefst samkvæmt ræðu hæstv. fjmrh., vaxtamuninn í bankakerfinu og hvernig hann hefur verið núna á undanförnum árum. Ég vil upplýsa það hér að þegar ég lagði fram fsp. til hæstv. viðskrh. um það hver þróun raunvaxtamunar hefur verið á undanförnum árum lágu til grundvallar ákveðnar upplýsingar sem ég hafði með höndum um það að raunvaxtamunur hefur verið á árunum 1960 til 1978 svona á bilinu 2,5--3,5%, en hefur frá 1978 stigið verulega og er núna kominn upp í 7--9%. Þetta má m.a., að mínu mati, rekja til vísitölutengingarinnar sem slíkrar og einnig þess að bankakerfið og sjóðakerfið hafa þanist út með nýjum stofnunum, nýjum deildum innan bankakerfisins, með fjármagnsmarkaðinum og fleiri aðgerðum.
    Það sem er höfuðvandinn á fjármagnsmarkaði hér á Íslandi er hvað hann er óskilvirkur. Þegar talað er um skilvirkni fjármagnsmarkaðar er í fyrsta lagi að líta til þess hvert fjármagninu er ráðstafað, hvort það fari til þeirra greina sem geta borið þá vexti sem á fjármagninu eru og farið einnig til þeirra greina sem virkilegur vöxtur er í. Hins vegar þar sem minnstur kostnaður sé samfara lánveitingum. Hér á landi er ekki um slíkt að ræða. Hér eru sjö bankastofnanir með mörg útibú og flestir eru núna einnig komnir með verðbréfamarkaði. Hér eru 45 sparisjóðir. Hér eru 18 fjárfestingarsjóðir. Hér eru 87 lífeyrissjóðir. Og ætli það séu ekki 6 eða 7 önnur fjárfestingarfélög. Allir þessir aðilar eru að ráðstafa þeim takmörkuðu peningum sem til eru á fjármagnsmarkaðnum og það sér hver heilvita maður að svona margar stofnanir með svona lítið fé hljóta að taka til sín töluvert mikla peninga.
    Hér á Íslandi eru sem sagt mjög margar stofnanir sem sjá um ráðstöfun þessa litla fjármagns og eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um eru álíka margar stofnanir í nálægum löndum sem telja til milljóna manna, en að sjálfsögðu eru þar miklu meiri peningar í umferð.
    Að mínu viti væri miklu nær fyrir fjmrh. að beita sér fyrir því að þessum lánastofnunum verði fækkað og ríkisstjórnin taki sér tak og reyni að stuðla að samruna eins og á sér stað í flestum nálægum löndum. Þar hefur þróunin verið sú undanfarið að sjóðir séu sameinaðir á fjármagnsmarkaði, gerðir öflugri til þess að sjóðirnir geti veitt almennilegar fjárveitingar til atvinnufyrirtækja og einstaklinga sem

þurfa á peningunum að halda.
    Þegar hér er talað um að veita fjármagni til ákveðins verkefnis, þá eru það oft og tíðum þrír til fjórir sjóðir sem taka á sig lánveitinguna, en með því að reyna að sameina þetta væri nægilegt að einn sjóður tæki þetta að sér og hann einn færi ofan í kjölinn á þeim reikningum sem fyrir hendi væru og þeim arðsemissjónarmiðum í staðinn fyrir það að nú eru það þessir þrír til fjórir sjóðir sem gera það.
    Þá má einnig benda á það að þegar einhverjar ráðstafanir eru gerðar í efnahagsmálum þá er alltaf verið að búa til nýja og nýja sjóði. Það má nefna það hér að þegar efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar sáu dagsins ljós í september þá var ekki verið að fela þetta einhverjum sjóði sem til staðar var, eins og Byggðastofnun sem hefði verið mjög eðlilegt, heldur var stofnaður nýr sjóður til þess að standa fyrir því átaki að breyta skuldum útflutningsgreinanna. Þetta hefur verið svona í gegnum tíðina. Það er alltaf verið að hlaða fleiri og fleiri sjóðum á og skapa fjármagnsmarkaðinum erfiðari skilyrði. Að mínu mati er meginástæðan fyrir þessum gífurlega vaxtamun sem er í bankakerfinu einmitt það hvað sjóðirnir eru margir og hvað skilvirknin er lítil.
    Ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar að ég vildi skoða þá sjóði sem frv. gerir ráð fyrir að verði skattlagðir og ég verð að taka undir það með síðasta ræðumanni að mér finnst það skjóta svolítið skökku við að ríkið er að veita fjármagn í ákveðna sjóði og síðan að skattleggja það fjármagn. Það er verið að setja í einn vasann og taka úr hinum með þessum sjóðum. Ég tel að það vanti heildarstefnu í þessum málum.
    Þegar skattlagning á sér stað, þá verður að líta til þess hvaða áhrif sú skattlagning hefur. Samkvæmt ræðu hæstv. fjmrh. er ástæða þessarar sérstöku skattlagningar sú að verið er að draga úr mismun sem er á milli stofnana á fjármagnsmarkaðinum. En ef maður lítur aðeins nánar á þetta þá er þarna aðeins verið að afla ríkinu tekna. Þau rök sem fjmrh. gaf eru að því leyti veigalítil því flestir þessara sjóða eru annaðhvort settir á stofn til að auðvelda atvinnugreinum að fá lán á hagstæðum greiðslukjörum eða til einstakra verkefna eins og Hafnabótasjóðs, Stofnlánadeildar o.fl. ( Forseti: Þar sem komið er að
þingflokksfundatíma, þá þarf ég að biðja hv. ræðumann að fresta sinni ræðu.) Ég á bara örstutt eftir ef ég mætti klára ræðuna. ( Forseti: Já.)
    Eins og fram kom hjá forseta er komið að þingflokkstímum. Ég tel ekki ástæðu til þess að halda mjög lengi áfram og vil því setja botn í þessa ræðu, en að sjálfsögðu áskilja mér rétt til þess að koma aftur ef tilefni verður gefið til.