Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls var vakin athygli á því að það þarf að endurskoða ýmis ákvæði í þeim lögum sem samþykkt hafa verið um virðisaukaskatt en nú er stefnt að því að fresta gildistöku á um hálft ár. Af tæknilegum ástæðum þarf að endurskoða þar ýmis ákvæði.
    Það liggur líka fyrir að af ýmsum ástæðum er ljóst að sérstaklega þarf að endurskoða ákvæði þeirra laga sem fela í sér skattlagningu á matvæli, sérstaklega með spurningu um hvort ekki er rétt að hafa sérstakt skattþrep á matvæli. Því var varpað fram við 1. umr. málsins til hæstv. fjmrh. hvort hann væri ekki reiðubúinn við þetta starf og þessa endurskoðun og mat á nauðsyn þess að koma inn öðru skattþrepi að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka. Þetta hefur stundum verið gert þegar meiri háttar skattalöggjöf hefur verið á döfinni og ekki síst þegar lög hafa verið samþykkt með nokkrum fyrirvara áður en að gildistöku kemur. Hæstv. fjmrh. sagðist við 1. umr. vera tilbúinn að taka þessa ósk til skoðunar og athugunar. Ég vil nú, vegna þess að nokkur tími er liðinn frá 1. umr. og hæstv. ráðherra hefur haft tóm til að íhuga þessa beiðni og hvort hann fellst á þessa málsmeðferð, ítreka þessa spurningu og inna hann enn á ný eftir því nú þegar tóm hefur gefist til að íhuga málið hvort hann er reiðubúinn að skipa slíka nefnd við undirbúning þessa máls.