Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Mér finnst ég vera að upplifa augnablik sem hlýtur að verða minnisstætt í sögu þingsins. Ég hef ekki séð bljúgari mann koma upp í ræðustól og ólíkari sjálfum sér en hæstv. fjmrh. né heldur hefði ég búist við því að hæstv. fyrrv. forsrh., formaður Sjálfstfl., kæmi jafnbljúgur og byði samstarf í málum sem Sjálfstfl. hefur virkilega barist á móti. Eru þeir að biðja um eins konar trúlofun milli Sjálfstfl. og Alþb. til að hafa tvær giftingar í stjórn landsins? Við erum nýbúnir að horfa upp á sams konar trúlofun Alþfl. og Framsfl. og virðulegur 1. þm. Suðurl. er nú að biðla til Alþb. og hæstv. fjmrh.
    Ég hefði ekki trúað því áður en ég kom á þennan fund og hlustaði á hv. 1. þm. Suðurl. að hann ætti eftir að koma og biðja um --- ekki að fella niður matarskattinn vegna þess að það er verið að setja á vörugjald að nýju sem þýðir upp undir 2000 millj. kr. í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð, heldur biðja um samstarf til að lækka það kannski eitthvað pínulítið. Sem sagt: Sjálfstfl. virðist koma hingað upp og segja: Má ég vera með? Ha. Má ég vera með í að tala um þessi mál? Ekki um vörn fólksins heldur pínulítið minni árás á fólkið ef hægt er að koma því við. Það út af fyrir sig er ágætt. En einhvers staðar verður að vera stefnufesta. Erum við eða erum við ekki á móti matarskattinum? Erum við eða erum við ekki á móti því að taka upp vörugjald aftur og jafnvel víkka álagningargrunninn?
    Ég get ekki ímyndað mér að mínir félagar í Borgfl. geti tekið þátt í þeirri vinnu, sem nú er verið að biðla um til hæstv. fjmrh., að halda að einhverjum minni hluta matarskattinum ef þessi gríðarlega mikla viðbótarálagning í vörugjaldi á að ná fram að ganga. Það get ég ekki séð. En aðferðin sem farin er, hver sem niðurstaðan verður, er eftirminnileg því að bljúgari beiðni og biðlun og ljúfari mann en hæstv. fjmrh., sem er óvanalegt að sjá hér í ræðustól, hef ég ekki áður séð. En verði úr þessari trúlofun ætla ég að biðja báða viðkomandi flokka, Sjálfstfl. og Alþb., að lofa mér að vita með svolitlum fyrirvara svo ég geti keypt blóm og sent ykkur til að óska ykkur til hamingju með niðurstöðuna.