Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir þegar sá ljúfi maður með sitt stóra hjarta, hv. 5. þm. Reykv., lætur sér koma á óvart að það sé til ljúfmennska á Alþingi. Staðreyndin í þessu máli er hins vegar sú að hér var borin fram ósk um málsmeðferð við endurskoðun á lögum sem ljóst er að þarf að endurskoða. Það atriði sem sérstaklega var nefnt, lækkun á skatti á matvæli, er eitt þeirra atriða. Þetta eru vinnubrögð sem oft áður hafa verið viðhöfð við meðferð og endurskoðun á viðamikilli skattalöggjöf og fyrir því eru fordæmi og þess vegna taldi ég bæði rétt og eðlilegt að bera fram slíka ósk við hæstv. ráðherra. Ég tel mjög til fyrirmyndar að kalla alla þingflokka að slíku endurskoðunarstarfi. Það þýðir hins vegar ekki að fyrir fram liggi fyrir samkomulag milli allra flokka í þinginu um efnislega niðurstöðu. Aðalatriðið í þessu er að hæstv. ríkisstjórn fallist á að viðhafa eðlileg vinnubrögð af þessu tagi.
    Auðvitað hefði verið hægt að setja hér á langa ræðu um að hæstv. fjmrh. hefði á þeim tíma frá því að fyrirspurnin var borin fram getað tekið um það ákvörðun og haft um það samráð við sína samstarfsmenn. Ég sá þó ekki ástæðu til að gera úr því stórmál og vænti þess hins vegar að ákvörðun um það liggi fyrir áður en málið verður endanlega afgreitt frá Alþingi. Ég lít á svar ráðherra sem jákvæða niðurstöðu og ég vænti þess að hv. 5. þm. Reykv., svo ljúfur sem hann getur nú verið, geri ekki athugasemd við að það sé ekki stórstyrjöld í hvert skipti sem við hæstv. fjmrh. eigum orðastað úr þessum ræðustól.