Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Fjmrh. mun vera á förum í hv. Ed. til að mæla fyrir öðru frv. þar. Ég skal ekki gera athugasemd við það, enda hefur hann ágætan fulltrúa í salnum í persónu hæstv. viðskrh.
    En eitt af því sem hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir gerði að umtalsefni var fjarvist hæstv. utanrrh. sem óneitanlegra hefði verið skemmtilegra að hafa hér í salnum í þessum umræðum að ég tali ekki um hæstv. forsrh. og sakna ýmsir vinar í stað í þeim efnum þegar litla Alþýðublaðið er meira að segja farið að kvarta undan því í ritstjórnargrein að forsrh. sjái ekki ástæðu til að mæta við stjórn landsmálanna hér í Reykjavík. Ja, það er bragð að þegar barnið finnur og Alþýðublaðið fer að kvarta undan þessu.
    Hér er til umræðu, herra forseti, frv. til l. um vörugjald. Um það hefur nú þegar ýmislegt verið sagt bæði úr þessum ræðustól og eins í blöðunum. Þannig segir hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu í gær, með leyfi forseta, ,,að þessari vörugjaldshækkun væri, auk þess að afla ríkinu viðbótartekna, ætlað að draga úr fjárfestingu. Þannig væri 10% vörugjald á byggingarvörur ákveðið skref í átt til fjárfestingarskatts sem fjmrn. hefði velt fyrir sér að setja á en ekki unnist tími til að undirbúa. Fjmrh. sagði að fyrirhugað væri að taka upp slíkan skatt til að stýra fjárfestingu innan lands miðað við efnahagsástand á hverjum tíma.``
    En það er nú ekki að sjá á ummælum hæstv. fjmrh. að hann sé vel inni í þeim plöggum sem hann hefur sjálfur sent frá sér og lagt fram á Alþingi því viti menn: Ef gáð er í fjárlagafrv. hans sjálfs og hæstv. ríkisstjórnar, í yfirlit um fjárfestingar og horfur í þeim efnum á þessu ári og hinu næsta, hvað kemur þá í ljós? Þá kemur í ljós það sem allir menn hafa vitað og gert hér að umtalsefni og sem blasir við úti í þjóðfélaginu, að það er samdráttur, það er samdráttur í fjárfestingu eins og í ýmsum öðrum þáttum í efnahagslífinu. Þá telur hæstv. fjmrh. rétt að leggja á sérstakan fjárfestingarskatt til að draga enn frekar úr fjárfestingunni, leggja á sérstakt vörugjald, ígildi fjárfestingarskatts að því er hann sjálfur segir, til að draga enn frekar úr fjárfestingunni.
    Hvað segir hæstv. viðskrh. um svona efnahagsstjórn? Eitthvað held ég að þetta fari á skjön við þær kenningar, sem hann kann manna best fyrir sér í, um stjórn efnahagsmála og sveiflujöfnun og fleira í þeim dúr, kenningar sem ganga út á það að blása í glæður efnahagslífsins þegar dregur saman en herða að þegar þensla er. Hér er verið að gera þveröfugt. Hér er verið að íþyngja, að því er fjmrh. upplýsir sjálfur á blaðamannafundi, ýmsum greinum í efnahagslífinu einmitt þegar samdrátturinn er að eiga sér stað og það á að leggja á sérstakan fjárfestingarskatt þegar fjárfestingin er að dragast saman. Það er aldeilis vit í þessu! Það er meiri vitglóran í þessu! Ég er ekki undrandi þó að hv. þm. Stefán Valgeirsson geti stutt þetta miðað við ræðu hans í gær. Hann munar ekki um að bæta þessum pinklum á sig.

    En hér segir, virðulegi forseti, á bls. 356 í frv. fjmrh. til fjárlaga, um fjárfestingu að áætluð útkoma á árinu 1988 að því er varðar heildarfjárfestingu sé samdráttur um 2,7% og á næsta ári um 3,3%. En að því er varðar atvinnuvegina eru þessar tölur enn hærri. Þá er samdrátturinn 8,8% í ár og 4% á næsta ári miðað við þær forsendur sem gefnar eru í frv. og það má gera ráð fyrir að ef þessi skattlagningaráform, sá fjárfestingarskattur sem birtist í líki vörugjalds kemst til framkvæmda, muni samdrátturinn verða enn meiri á næsta ári því auðvitað hefur skattur af þessu tagi sín áhrif á eyðsluáform manna. Það segir sig sjálft.
    Af því að við höfum verið í deildinni að tala um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem á að fara að tvöfalda samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar vegna þess að það er nú svo blómleg staða hjá eigendum verslunar- og skrifstofuhúsnæðis um land allt, er rétt að vekja athygli á því að í sömu töflu, sem ég var að nefna, kemur fram að samdráttur í fjárfestingu í verslunar-, skrifstofu- og gistihúsnæði er áætlaður hvorki meira né minna en 20% á þessu ári og 10% á hinu næsta. Nú á sem sagt að vega að þessari grein bæði með því að tvöfalda hinn sérstaka eignarskatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og leggja sérstakt vörugjald á fjárfestingarkostnaðinn í þessum greinum eins og öðrum.
    Ég held að það sjái hver maður hve fjarstæðukennd skattlagning er hér á ferðinni. Ég hafði reyndar ekki hugboð um það í gær, þegar ég var að fara með tölur um heildarálagningu eignarskatts sem þessi ríkisstjórn áformar, að hún hafði breytt frá þeim hugmyndum sem fram koma í fjárlagafrv. um hinn almenna eignarskatt, hætt við að hækka hann upp í 1% og ætlar að hækka hann upp í 1,25% úr þeim 0,95% sem hann hefur verið til þessa. Heildarálagning eignarskatta á þá sem eiga verslunar- og skrifstofuhúsnæði er þá ekki 4,7% eins og ég sagði í gær heldur 4,9% og hugsanlega 6,3% ef viðkomandi aðilar lenda síðan í hinu sérstaka stóreignaþrepi sem manni hefur skilist í fréttum að sé líka yfirvofandi. Þær tölur sem ég var með í gær um það efni voru því of lágar þó að hæstv. ráðherra hafi ekki séð ástæðu til að leiðrétta það þegar
hann tók til máls um þetta efni seinnipartinn í gær.
    Nei, það er greinilegt að það er ósamræmi í þessum málatilbúnaði öllum saman, hreint ósamræmi, eða hafa menn gert sér grein fyrir því að með samdrættinum sem orðið hefur í atvinnulífinu hefur atvinna almennt dregist saman og það vinnumagn sem fólk skilar, ef nota má svo ljótt orð, hefur dregist saman? Það er minnkandi yfirvinna o.s.frv. Þetta þýðir minni kaupmátt atvinnutekna og ýmsir hafa ætlað að þar sé á ferðinni kaupmáttarminnkun sem nemur kannski allt að 4--5% af þessari ástæðu. Síðan bætist við kaupmáttarrýrnunin sem verður vegna skattheimtuáforma ríkisstjórnarinnar, en þau áform munu skerða ráðstöfunartekjur heimilanna um nokkur prósent til viðbótar, bara skattahækkanirnar. Við erum því að tala um kaupmáttarskerðingu sem gæti hugsanlega, ef illa fer, numið á bilinu 7--10%, svo ég

nefni einhverjar tölur, áður en ríkisstjórnin grípur til efnahagsráðstafana sem allir vita að eru óhjákvæmilegar og sem hæstv. sjútvrh. lýsir með því að segja: Það þarf að lækka launin.
    Ríkisstjórninni verður tíðrætt um að kaupmáttur geti ekki hækkað og hann þurfi að skerða, kaupmátturinn sé of hár í landinu, og ég dreg ekki í efa að það sé rétt vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem skapast hafa. En áður en sú kaupmáttarskerðing verður í landinu ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir verulegri hækkun skatta sem auk minna vinnumagns hjá almenningi þýðir verulega kaupmáttarskerðingu áður en slíkar ráðstafanir koma til framkvæmda. Menn eiga sem sagt að fá kaupmáttarskerðinguna hugsanlega á bilinu 7--10% í forgjöf áður en gripið verður til efnahagsráðstafana sem að munu líka rýra lífskjörin.
    Ja, það liggur við að maður vitni í Ragnar Arnalds, hv. 4. þm. Norðurl. v., í leikriti hans Sveitasinfóníu, sem nú er til sýningar í næsta húsi, þar sem verið er að lýsa ákveðnum hlutum sem ,,sauðheimskum og hrútleiðinlegum``. Ég sé ekki betur en þessi áform séu þess eðlis.
    Nei, ég held það væri ágætt ef ríkisstjórnin gæfi sér tíma og efnahagssérfræðingarnir í henni til að fara yfir þetta mál í heild sinni. Ef efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., hefði aðstöðu til þess einhvern tímann áður en langt um líður með fulltingi annarra ráðherra að kynna þingheimi hver heildarkaupmáttarskerðingin gæti orðið þegar saman er lögð sú skerðing sem orðið hefur vegna minni vinnu, skerðingin sem verður vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar og sú óhjákvæmilega skerðing sem verður vegna efnahagsráðstafana sem ríkisstjórnin kemst ekki hjá að grípa til fyrr eða síðar. Það má vel vera að hæstv. viðskrh. geti svarað þessu öllu á eftir og þá er það vel.
    En mig langar nú, herra forseti, að víkja nokkuð að efni þess frv. sem hér er til umræðu, þ.e. efni breytinganna á lögum um vörugjald. Eins og menn hafa þegar margrifjað upp voru gerðar verulegar breytingar í fyrra á uppbyggingu þessara gjalda, á uppbyggingu reyndar allra hinna óbeinu skatta sem ríkið innheimtir. Sú vinna átti sér reyndar nokkurra ára undirbúning og hún endaði með því að mínum dómi að hér var komið á rökréttu kerfi sem var sjálfu sér samkvæmt þar sem ekki var mismunað með óeðlilegum hætti milli atvinnugreina, milli framleiðslutegunda, milli fyrirtækja innan lands eða milli innlendrar framleiðslu og innflutnings.
    Það er eins og oft er á Íslandi að það gengur illa að fá menn til að skilja nauðsyn þess að hafa hlutina einfalda og auðskiljanlega. Þessi ríkisstjórn hafði ekki setið við völd nema örfáar vikur þegar á daginn kom að hún ætlaði ekki bara að reyna að eyðileggja einfaldleikann og samhengið í tekjuskattskerfinu nýja, hún ætlaði líka að ráðast á vörugjaldið með svipuðum hætti og eyðileggja þessi meginsjónarmið, grafa undan þeim, sem ég var að tala um áðan. Samt hafa þessir tveir lagabálkar, um tekjuskattinn annars vegar og óbeinu skattana hins vegar, ekki fengið að standa í

friði í heilt ár einu sinni. Það er ekki liðið heilt ár síðan þessum málum var breytt í horf sem a.m.k. þáv. stjórnarflokkar töldu nokkuð viðunandi miðað við aðstæður og töldu uppfylla ýmsar meginkröfur, prinsippkröfur sem gerðar eru til skattheimtu. En nú á sem sagt að grafa undan þessu öllu á einu bretti. Lítill er nú sómi þeirra manna í núv. ríkisstjórn sem að þessu standa og áttu jafnframt aðild að þessum breytingum fyrir ári. Það verð ég að segja alveg eins og mér finnst. Þeir hafa ekki mikinn sóma af því að standa að þessum málum, allra síst hæstv. núv. utanrrh. sem í hinu orðinu stærir sig jafnan af því að hafa átt aðild að þeim skattkerfisbreytingum sem gerðar voru á síðasta þingi og þegar liggur vel á honum segir hann að það sé það eina sem standi eftir af verkum hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar. Hann munar samt ekkert um að eiga fulla aðild að því að grafa undan þeim sömu verkum. Svo að vitnað sé í hæstv. utanrrh. sjálfan er það nú hvorki mannlegt né stórmannlegt. Það er kannski mannlegt en ekki stórmannlegt. Mér finnst reyndar að þetta sé hálflítilmannlegt, hvorki mannlegt né stórmannlegt heldur lítilmannlegt.
    En í þessu frv. um vörugjald er gert ráð fyrir því, svo ég byrji á I. kaflanum, þ.e. A-hluta frv., að hækka vörugjald úr 14% í 25% af ýmsum iðnaðarvörum íslenskum sem ekki eru ríkisstjórninni þóknanlegar, þ.e. vörum
sem margir telja óhollar, eins og sælgæti og gosdrykkjum. En það er ekki einhlítt mál vegna þess að inn í þennan kafla hafa líka slæðst, ef það er þá orðið, hafa líka verið teknar með ýmsar aðrar vörur sem ekki er með nokkru móti hægt að kenna við óhollustu, eins og til dæmis hreinir ávaxtasafar sem eru hér teknir með og ölkelduvatn, þykkni til drykkjarvöruframleiðslu og fleira þess háttar, t.d. edik.
    Hér eru teknar með ýmsar drykkjarvörur aðrar en sætar drykkjarvörur, þar á meðal sykurlausir gosdrykkir, til þess auðvitað, að því er ég tel, að raska ekki samræminu í gjaldtöku af drykkjarvörum. Ég býst við því að margir muni eftir máli sem hér kom upp fyrir nokkrum árum og varðaði gjaldtöku af drykkjarvörum, en fram til þess tíma hafði verið mikið ósamræmi í gjaldtöku á einstakar drykkjarvörutegundir með þeim afleiðingum að verðlagning á slíkum vörum var tilviljanakennd vegna breytilegra skatta og eðlilegs samræmis ekki gætt og þar með mismunað gegn tilteknum framleiðendum og iðngreinum en öðrum í hag. Þessu var breytt.
    Ég sé á þessu frv. að það hefur verið vilji og ásetningur þeirra sem frv. hafa skrifað og ég geri ráð fyrir embættismannanna í fjmrn., sem auðvitað þekkja þetta mál manna best, að koma í veg fyrir að þarna skapaðist misræmi á nýjan leik. Auðvitað er lofsvert að koma í veg fyrir það. En þá fylgir aftur sá böggull skammrifi að í sætindavöruflokkinn, sælgætis- og gosdrykkjaflokkinn, fylgja með ýmsar vörur sem hafa ekkert með sykur að gera, eins og hreinir ávaxtasafar, ölkelduvatn, þykkni til drykkjarvöruframleiðslu o.s.frv. Hérna geta menn ekki bæði haldið og sleppt.

Annaðhvort verður lagður á sérstakur skattur á sætindi og þá ekki bara tilteknar sykurvörur heldur allar eða það verður fórnað samræminu í skattlagningu á drykkjarvörur.
    Það vill svo til að í þennan kafla vantar mjög stóran hluta af þeim sykurvörum sem hér eru á boðstólum á Íslandi, meira að segja sykurvörur meðal drykkjarvara, eins og t.d. kakómjólk eða t.d. jógúrt, sem er oft og tíðum með miklu sykurmagni, og fleira og fleira. Þessi sykurkafli í frv. er þess vegna hvorki fugl né fiskur. Það verður ekki annað séð en að eini tilgangurinn með honum sé, fyrir utan tekjuöflunina, að reyna að níðast á þessum greinum íslensks iðnaðar og því starfsfólki sem þar vinnur. Ef menn vilja í alvöru taka upp skattlagningu á sykurvarning út frá manneldissjónarmiðum, eins og virðist vera áhugi á t.d. hjá hv. þm. Kvennalistans, er það ekki gert með þessum hætti, bara alls ekki. Hér eru valdar úr nokkrar vörur sem eru að vísu sykraðar, bætt við ýmsum vörum sem ekki eru sykraðar, eins og ég hef hér rakið, eins og t.d. sykurlausir gosdrykkir og jafnvel sykurlaust sælgæti sem mun komið á markaðinn, en sleppt fjöldanum öllum af sykurvarningi og sennilega þannig að meiri hluti þess sykurs sem kemur inn í landið sleppur við skattlagningu samkvæmt frv.
    Auðvitað er einhver hráskinnaleikur á ferðinni. Auðvitað er það alveg rétt sem hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir sagði. Það er ekkert verið að leggja neinn skatt á sykurvarning sérstaklega. Það er bara verið að afla tekna og svo er því fundinn einhver búningur sem hentar, einhver gatslitin flík breidd yfir þetta sem er ekki heillegri en svo að þegar menn fara að rýna í þetta blasa við götin í þessum málflutningi, bæði að því er varðar þann sykur sem ekki er skattlagður samkvæmt frv. og svo þær ósykruðu vörur sem lenda í þessum flokki.
    Ég held að það væri kannski eðlilegra að leiða hugann að því hver áhrif þessi skattlagning mun hafa á starfsemi íslenskra iðnfyrirtækja á þessu sviði. Nú er samdráttur eins og allir vita, minni kaupmáttur og minnkandi enn með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, þannig að það má gera ráð fyrir því að það dragi úr eftirspurn eftir vörum þessara framleiðenda. Auðvitað er það líka þannig að þegar að kreppir dregur fólk við sig innkaup, minnkar innkaup á varningi sem þessum. A.m.k. hygg ég að það sé þannig á flestum heimilum að þegar minna er úr að spila minnka menn við sig kaup á t.d. sælgæti og gosdrykkjum. Hvaða vit er þá í því út frá sjónarmiðum almennrar efnahagsstjórnar að leggja sérstakan íþyngjandi skatt á framleiðslu þessara greina? Það er auðvitað ekkert vit í því annað en að draga enn frekar úr framleiðslunni, minnka enn frekar eftirspurnina eftir þessum vörum sem væntanlega mun hafa þau áhrif að þessi fyrirtæki verða að minnka sín umsvif, hugsanlega fækka fólki.
    Hvaða fólk er það sem vinnur í gosdrykkjaverksmiðjunum og sælgætisverksmiðjunum? Ekki er það hálaunafólkið í landinu. Ætli þar sé ekki

að finna ýmsa þá sem hafa lægri launin hér í landi, ekki síst ýmsar konur sem vinna við þessa starfsemi.
    Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að skoða þetta mál allt betur og ég held að hv. fjh.- og viðskn. ætti að fara vel í saumana á þessum þætti, eins og reyndar hefur komið fram í máli tveggja nefndarmanna hér, hv. 10. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Vesturl., sem bæði hafa fjallað um nauðsyn þess að þetta mál fái ítarlega meðferð í þingnefnd. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt. Ég er alveg sammála þeim um það. Það er alveg nauðsynlegt að fara í saumana á þeim götum
sem þegar er búið að sýna fram á að eru á þessu máli miðað við þann málflutning sem uppi er hafður um tilganginn með frv.
    Ef ég síðan kem að II. og III. kafla þessa frv., þá er þar í fyrsta lagi um að ræða hækkun úr 14% í 20% á þeim vörum sem nú bera vörugjald og í öðru lagi um að ræða nýtt gjald, 10%, á ýmsar vörur sem ekki hafa borið vörugjald til þessa eða síðan í fyrra. Þar er fyrst og fremst um að ræða byggingarvörur af ýmsu tagi. Það er þá væntanlega fjárfestingarskatturinn svokallaði eða staðgengill fjárfestingarskattsins sem hæstv. fjmrh. hefur gert að umtalsefni og ég vék að áðan.
    Nú er það þannig að skattur á byggingarefni af þessu tagi, byggingarvörur, mun að sjálfsögðu hækka byggingarkostnað mjög verulega. Lauslegar áætlanir benda til þess að vísitala byggingarkostnaðar muni hækka í verðstöðvuninni um a.m.k. ein 3% vegna þessarar nýju skattlagningar. Vísitala framfærslukostnaðar mun hins vegar hækka um 0,5%. Þar með hækkar lánskjaravísitalan eins og hún er í dag um 1,3% til kannski 1,4% eftir því hvernig þetta kemur út á endanum. Þessi hækkun byggingarvísitölu lendir auðvitað ekki jafnt á öllum almenningi á Íslandi vegna þess að það eru ekki allir að byggja. Hverjir eru það fyrst og fremst sem standa í húsbyggingum á Íslandi? Það er yngra fólkið, fólkið sem er að reyna að koma yfir sig þaki, oft og tíðum í fyrsta sinn, og það er á því sem þessi skattlagning mun fyrst og fremst bitna.
    Það má þess vegna færa rök fyrir því að þessi skattlagning sé sérstök árás, sérstök kveðja frá ríkisstjórninni til yngra fólksins í landinu. Nú þykist ég vita að fjmrh. og ríkisstjórnin í heild viti vel um þessi áhrif, viti vel hvar þau lenda, á hverjum þau bitna, en hún hefur bara engar áhyggjur af því. Þetta er hennar pólitíska stefna sem þarna kemur fram. Hennar pólitíska stefna er sú að draga úr húsbyggingum á samdráttartímum, hækka byggingarkostnaðinn fyrir unga fólkið þegar kaupmáttur fer minnkandi og hækka lánskjaravísitöluna með aðgerðum stjórnvalda og íþyngja þannig skuldabyrði skuldaranna í landinu á tímum þegar bæði er um að ræða verðstöðvun og launastöðvun.
    Þetta er hin pólitíska stefna ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í þessu frv. Út af fyrir sig kemur hún mér ekkert á óvart en ég hygg að það sé rétt mat hjá

þeim sem hafa tjáð sig um þetta mál í þessari umræðu að þetta séu kaldar kveðjur til heimilanna í landinu á samdráttartímum, ekki síst unga fólksins sem auk þess að vera að byggja er auðvitað líka oft á tíðum að fjárfesta í heimilistækjum sem nú á að hækka vörugjaldið á úr 14% í 20%.
    Hins vegar má kannski segja um þau tæki og þann kafla frv. að þar er þó að verulegu leyti um að ræða innfluttar vörur og þessi skattur mun því ekki bitna á innlendum iðnaði í sama mæli og hann mun gera varðandi A-hluta frv. og varðandi byggingariðnaðinn í C-hlutanum. Skattlagningin í B-hluta mun fyrst og fremst koma við þá sem kaupa þessar vörur og þá sem versla með þær, þannig að það má segja að í B-hluta þessa frv. sé ekki um að ræða þá árás í iðnaðinn í landinu sem um er að ræða í kafla A og kafla C.
    En það er fleira sem kemur til athugunar varðandi þetta frv. því að eins og það er lagt fram eru inn í það byggðir ákveðnir framkvæmdavankantar, erfiðleikar sem koma munu í ljós þegar á að fara að innheimta þennan skatt, ekki síst í byggingariðnaði. Þá munu koma í ljós að mínum dómi ýmsir ókostir og framkvæmdaerfiðleikar sem ég tel að muni draga mjög úr þeim tekjumöguleikum sem þessu frv. er ætlað að skapa fyrir ríkisstjórnina. Þetta atriði er að vísu ekki sama eðlis og sá galli sem var á frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem ég afhjúpaði hér í gær, en þar var um að ræða --- mér liggur við að segja --- beinar falsanir á tekjuáætluninni vegna þess að tala sem átti að vera 360 millj. kr. miðað við innheimtureynslu frá því í ár og í fyrra er talin vera 425 millj. kr. á næsta ári þegar hún ætti að vera 360 milljónir á sama verðlagi. Þar var því annaðhvort um að ræða hrein mistök, sem ég tel nú líklegra, eða ósvífnar falsanir fjmrh. í þeim tilgangi að hækka heildartekjur ríkissjóðs í fjárlagafrv. og fjárlögunum án þess að finna því eðlilegan stað á grundvelli fenginnar reynslu.
    En það sem hér er um að ræða er annars eðlis. Hér er um það að ræða að það á að leggja 10% vörugjald bæði á timbur og síðan á vörur úr timbri, húsgögn og innréttingar. Ef ég veit rétt, þá mun þetta kalla á mjög flókið uppgjör þeirra aðila sem kaupa timbur, vinna síðan úr því og selja fullbúnar vörur í formi innréttinga og húsgagna. Ég hygg að það sé varla hugmyndin að láta koma þarna fram tvísköttun, skattleggja fyrst timbrið og síðan timbrið þegar búið er að breyta því í fullunna vöru.
    Ég held að þetta hljóti að kalla á ákveðið uppgjör með virðisaukasniði eins og það hét í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 1980. Þá var ekki talað um virðisaukaskatt heldur skatt með virðisaukasniði. Ég held að þarna sé um að ræða fyrirbæri í þessu frv. sem hljóti að kalla á virðisaukauppgjör í þeim greinum sem hér er um að ræða nema það sé þá ætlunin að tvískatta þetta, láta menn sitja uppi með vörugjaldið á timbrinu og leggja síðan annað vörugjald ofan á innréttingarnar og húsgögnin. En það held ég að geti varla verið. Ég

held að þeir sem vita betur í fjmrn. hljóti að hafa haft vit fyrir ráðherranum í þessu efni því þó að skattagleði hans sé mikil þá getur varla verið að hún eigi að birtast með þessu móti.
    Hér er reyndar ekki bara um að ræða timbur, hér er um að ræða við, plötur úr viði, klæðningu ýmiss konar og fleira þess háttar, krossvið og ýmislegt sem notað er við smíðar. Ég held að það væri gagnlegt að fá það fram hvernig á að leysa þetta uppgjörsvandamál sem þessari annars tvísköttun fylgir og hvernig á að hafa eftirlit með því að allir þeir smáu aðilar sem stunda smíðar af þessu tagi, húsgagna- og innréttingasmíðar, gera upp. Í þessum greinum munu vera um 300 aðilar um þessar mundir, þar af um 250 með færri en fimm manns í vinnu, þannig að það er býsna fróðlegt að fá um það upplýsingar með hvaða hætti eigi nú að fylgjast með starfsemi þessara aðila.
    Það kann vel að vera að fjmrh. hafi hugsað það svo að þarna fái hann æfingu í að framkvæma virðisaukauppgjör og hafi valið þessa aðila í innréttinga- og húsgagnasmíði til þess að prófa það kerfi á, en einhvern veginn efast ég samt um að það sé tilfellið. Eða getur verið að menn hafi bara ekkert leitt hugann að þessu? Getur það verið að þetta hafi farið fram hjá hæstv. fjmrh.? Mér þætti vænt um ef einhver vildi taka að sér að svara þessu í fjarveru hæstv. fjmrh. eða skila þessu til hans hér á eftir þegar hann hefur lokið sinni framsögu í Ed. því að ég held að hérna sé mál á ferðinni sem getur skipt miklu máli. --- Hefur hann lokið máli sínu í Ed.? Mér þætti vænt um það ef hann er ekki vant við látinn að hann hlýddi hér á, en ég geri mér grein fyrir því að við vorum búnir að samþykkja það að hann mælti fyrir hinu málinu. (Gripið fram í.) Já, við vorum búnir að því. Ég ætla þá ekki að gera neinar athugasemdir við þetta, en ég vænti þess að ( Gripið fram í: Ég bið þingsvein að koma því til fjmrh. að þú viljir gjarnan að hann hlýði á mál þitt.) Já.
    Eins og ég hef þegar vikið að eru margar hliðar á þessu máli sem ekki hafa komið fram, hvorki í framsögu hæstv. ráðherra né í því sem hann hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum að undanförnu. Þessi mál eru nefnilega ekki alltaf óskaplega einföld. Það er ekki alltaf nóg að grípa bara einhverja tollskrárflokka og klessa síðan á þá einhverjum skattprósentum, vörugjaldsprósentum. Það er ákveðið samræmi í þessum hlutum sem er búið að koma á, reyndar við illan leik og með miklum harmkvælum hér í fyrra, þá gengum við í gegnum það í harðri andstöðu við þá sem nú ráða fjmrn., en það hafðist. Það tókst að koma því í gegn vegna þess að ríkisstjórnin sem þá sat einsetti sér að láta ekki buga sig í því máli. En nú ber svo við að það á að hverfa frá því og þá skjóta upp kollinum ýmis vandamál, þá ganga aftur ýmis vandamál sem menn voru að reyna að leysa með þessari einföldun og samræmingu í fyrra og hafa verið að berjast við í mörg ár, m.a. þetta í sambandi við skatt á timbur og innréttingar eða vörugjald á þessar vörur og sömuleiðis er það með

drykkjarvörurnar sem ég gat um áðan. En það er engu líkara en að annaðhvort sé mönnum sama um það þó að þeir veki upp gamla vandamáladrauga í þessu eða þá þeir hafa bara ekkert hugleitt það.
    Ég gat þess að tekjugrundvöllur þessa frv. væri kannski ekki jafnskýr og látið væri í veðri vaka vegna þess sem ég rakti áðan. En það er auðvitað líka vegna þess að nú fjölgar mjög þeim aðilum sem eiga að innheimta þetta vörugjald og eðli málsins samkvæmt flækir það innheimtuna og gerir eftirlit með henni erfiðara í framkvæmd. Ég held því að fjmrh. hafi gert of lítið úr þessari hlið þessara mála. Það segir sig sjálft að t.d. gríðarleg fjölgun ýmissa smáaðila í innréttingaframleiðslu, framleiðslu byggingarefna og fleiru af þeim toga mun gera framkvæmd eftirlits með innheimtu þessa gjalds erfiðari og mannfrekari en er í dag.
    Engu að síður, herra forseti, eru stærstu vandkvæðin við þessa skattheimtu að mínum dómi þau að það er horfið frá þeirri meginstefnu að mismuna ekki milli atvinnugreina. Það er ranglega gripið til þess að skattleggja húsbyggingar og byggingarstarfsemi og íslenska iðnframleiðslu á tímum samdráttar. Og það er ómaklega verið að hækka kostnaðinn hjá almenningi í landinu, ekki síst unga fólkinu, byggingarkostnað og annan kostnað, sem sagt verðlag í landinu og allar vísitölur sem það mæla, á tímum verðstöðvunar og launastöðvunar. Allt þetta er að mínum dómi rangt, bæði út frá almennum sjónarmiðum sem gilda eiga í skattlagningu og út frá sjónarmiðum almennrar efnahagsstjórnar. Þess vegna held ég að menn ættu að leita á önnur mið þegar um er að ræða tekjuöflun. Menn ættu að kanna það betur hvort ekki er unnt að draga úr útgjöldunum og ég hef þegar nokkrum sinnum bent á að það er alveg kjörið að strika út úr fjárlögunum þessar 500 millj. kr. sem fara eiga í millifærslusjóðinn sem kenndur er við Stefán Valgeirsson. Ég tel að það væri góð byrjun að taka þá peninga út úr fjárlagafrv. og þegar sú byrjun er fengin að hefja þá alvöruviðræður við stjórnarandstöðuna, ekki þetta sýndarmennskutal sem hér hefur verið vakin athygli á í umræðunum, hefja þá alvöruviðræður við stjórnarandstöðuna um fjármál ríkisins og leiðir til að draga úr hallanum á ríkissjóði.
    Það er auðvitað ekkert mark takandi á því þegar menn eru boðaðir til
fundar og fá að sjá einhver frumvörp um tekjuöflun vegna þess eins að ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta hér í hv. deild. Það er auðvitað ekkert mark takandi á slíkum viðræðum nema boðið sé upp á viðræður á breiðari grundvelli, t.d. um útgjaldahlið frv. og stefnuna almennt í efnahagsmálunum samtímis. Viðræður um einstök og afmörkuð frumvörp geta að vísu farið vel fram, en hvert og eitt frv. er auðvitað ekki nema lítill þáttur í þeirri heildarmynd sem menn verða að hafa fyrir framan sig þegar verið er að fjalla um ríkisfjármálin, að ég tali nú ekki um efnahagsmálin í heild.
    Því held ég að það færi betur á því að ríkisstjórnin boðaði til umræðna á breiðari grundvelli um þau mál

en að kalla menn til fundar umn einstök frumvörp, ekki síst þegar slík fundahöld eru síðan notuð í fjölmiðlum sem einhver meiri háttar uppfinning og til marks um samráðsvilja ríkisstjórnarinnar. Eins og þetta sé eitthvað nýtt, eins og það sé eitthvert nýmæli að mönnum séu sýnd frumvörp áður en þau eru lögð fram. Mætti ég ekki minna menn á það þegar hæstv. þáv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lagði fram bæði frumvörp um virðisaukaskatt og um staðgreiðslu skatta, mjög umfangsmiklar kerfisbreytingar, þá var haft mjög mikið samráð við stjórnarandstöðuna þáverandi. Menn voru boðaðir til funda og það var farið yfir þau frumvörp sérstaklega með þáv. stjórnarandstöðuflokkum til þess að auðvelda þeim að glöggva sig á þessum flóknu málum og greiða fyrir eðlilegu samstarfi hér í þinginu. En það er eins og menn séu algjörlega fæddir í gær í þessum málum og telji að það sé einhver ný uppfinning hæstv. núv. fjmrh. að kynna skattafrumvörp fyrir stjórnarandstöðunni. Og auðvitað gleypa fréttamennirnir þetta eins og nýtt net, að hér séu stórkostlegar framfarir í vinnubrögðum af hálfu hæstv. núv. fjmrh. og greina frá því, auðvitað alveg athugasemdalaust, hvers lags merk nýmæli hér séu á ferðinni.
    Nei, ég held að í sambandi við þetta vörugjald ættu ekki síst verkalýðsforingjarnir í Alþfl. að skoða vel hug sinn --- fyrst einn þeirra er nú genginn hér í salinn --- til þessa máls og velta því fyrir sér í alvöru hvort það sem verksmiðjufólkið á Íslandi og almenningur í landinu þarf á að halda um þessar mundir sé stórfelldlega aukin skattlagning á ýmsar framleiðsluvörur íslensks iðnaðar eins og hér er á ferðinni. Ég held að verkalýðsforingjar Alþfl. eins og aðrir þingmenn, ekki síst stjórnarþingmenn, hefðu gott af því að spekúlera vel í því máli. Því að ég er ekkert allt of viss um það að kollegar þeirra í verkalýðsfélögum þess fólks sem þessi skattlagning mun bitna á séu neitt yfir sig hrifnir af því sem hér á að fara að gera. Ég gæti best trúað því að hvorki formaður Verkamannasambandsins né Landssambands iðnverkafólks séu neitt yfir sig hrifnir, a.m.k. hoppi ekki hæð sína í loft upp af fögnuði yfir þessum hækkunum sem hér á að demba yfir almenning með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þeirra umbjóðendur. Ég held að sama gildi um þetta mál og önnur skattafrumvörp sem þegar hafa verið kynnt, þ.e. að menn ættu að reyna að gera sér grein fyrir því hvaða áhrif þessi mál hafa. Í upphafi skyldi endinn skoða og er það rétt stefna að taka áhættu í atvinnumálum, íþyngja atvinnugreinum þegar samdráttur steðjar að? Er það rétt stefna að taka þá áhættu að aðeins vegna aukinnar skattheimtu þurfi að segja upp fólki í ýmsum greinum, draga saman atvinnustarfsemina og þær tekjur sem fólk hefur af henni? Ég held að þetta sé eðlileg spurning og menn verða að fá svör ríkisstjórnarinnar við henni þegar þessi mál eru til umræðu.
    Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, virðulegi forseti, en tel eins og aðrir sem hér hafa talað

nauðsynlegt að ráðherrann skýri þessi mál betur fyrir okkur og að þau verði öll skoðuð vel og vandlega í hv. fjh.- og viðskn. Ég dreg þó ekki í efa að hægt sé að gera það hratt nema það sé markmið ríkisstjórnarinnar til þess að örva jólaverslunina að hafa þetta frv. með þessum hækkunum hangandi yfir landsmönnum í nokkurn tíma. Allir vita að frv. sem þetta getur kallað á óeðlilega eftirspurn, hamstur og þess háttar og því er það auðvitað öllum í hag að úrslit fáist fljótt, eins og ég veit reyndar að vilji fjmrh. stóð til fyrir nokkrum dögum síðan. Slík afgreiðsla byggist auðvitað á því að hann svari greiðlega öllum spurningum sem fram koma þannig að það sé hægt að knýja fram úrslit í þessu máli áður en langt um líður. Ef það er t.d. rétt að þingmenn Kvennalistans muni ekki greiða II. og III. kafla þessa frv. atkvæði og borgaraflokksmenn ætli ekki heldur að gera það og sjálfstæðismenn munu ekki gera það falla II. og III. kafli frv. á jöfnum atkvæðum hér í deildinni. Þá er auðvitað nauðsynlegt að það komi fram gagnvart því fólki sem núna hyggst hugsanlega breyta sínum útgjöldum vegna þess að það telur að verðhækkanir séu yfirvofandi. Ég held því að öllum sé fyrir bestu að úrslit í þessu máli fáist fljótt hér í deildinni og það liggi fyrir hver stuðningur er við þessi áform ríkisstjórnarinnar í þessari hv. deild.